azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, March 30, 2007

Augnablik

Hamingjan kom heim til mín með strætó í nótt því ég gleypti hana í mig á Milongunni. Við eigum sum sé samleið eina ferðina enn hamingjan og ég! Ég veit ekki hvernig hún gerist en heimurinn eins og vex, verður þungur og léttur í senn og maginn dimmur risastaður barmafullur af öryggi og engin þörf að flýja ...

þar er líka hægt að lifa með lokuð augu.

Ég byrjaði kvöldið með heimsókn í opinn spænskutíma á tungumálakaffinu Språkcaféet við Esperantoplatsen þar sem allir babla spænsku við stærsta borðið á fimmtudögum og svo beint í tangóinn á Oceanen. Og þar beið mín hamingjan! Lúxusdansari sem býr í Hollandi var í heimsókn og þvílíkur dans sem við dönsuðum! Tangó og Tangóvals og ég varð alger drottning og svo þetta faðmlag þar sem maður dansar þétt þétt og býr til samtal sem engin orð ná yfir. Stuttu seinna auðnaðist mér að dansa við uppáhaldsdansarann minn hér í Gautaborg sem fær mig til að finnast ég dansa eins og engill .... Þannig kom hamingjan sem fylgdi mér heim um miðnættið; kom þegar ég vænti einskis (nema að fá smá vináttuspjall við tangótekarann Riku sem ég vissi að átti að djídjeia).

Hún kom örugglega af því að ég teygaði hana svona óvænt í mig. Svo hreinar línur, engar væntingar sem ná útfyrir dansinn. Furða mig enn á hvernig dansinn getur gert mig svona lukkulega og heila þegar vel tekst til. Kannski heilagleikinn ... við eigum hvert annað þetta augnablik og það er heilagt. Eins og hjá Kirkegaard. Hann skrifaði heila bók um augnablikið


Sunday, March 11, 2007

Krabbablogg og hvernig mér áskotnuðust HelgigönguskórnirHef alveg gleymt að biðja læknana mína um að útskýra af hverju röddin mín er enn rám og hás ef ekkert er að raddböndunum. Eins og röddin sé orðin eitthvað aukaatriði ... bara af því ég er ekki söngkona og get komist upp með að þegja heilu dagana ... Stundum bregður mér þegar ég ætla að segja eitthvað og heyri ekkert í mér! Eins og áðan útí búð ... En ég veit að haldi ég áfram að reyna að tala þá kemur röddin ...


Ég var hjá Frú Fagrafjalli í vikunni sem leið og þær eru alltaf jafn skemmtilegar hún og aðstoðarkonan úr Víkinni hér norður með sjó ... Ég sagði dr. Fagerberg frá því helsta sem á veturinn hefur drifið hvað varðar mína munnheilsu og hún var hissa á óþólinmæði minni:

- En ég var búin að segja þér að þetta tæki tíma, langan tíma að losna við svona sýkingu; sagði þér skýrt og skorinort að það tæki marga mánuði! Og ég sá fyrir mér hvernig ég hlaut að hafa bægt orðum hennar frá mér eins leiðinda smáflugum sem maður vill ekki vita af og tekst fljótt að gleyma. Og hún var nú ekki hissa á að íslenskir sérfræðingar hafi séð lítið.

- Nehei, en hvað er þá eiginlega að sjá? það stendur nekros í sjúkraskýrslunni - og það þýðir ekki vatnaliljur þótt það hljómi líkt - það er bara dautt hold, dauður vefur sagði ég (mjög roggin yfir þýðingu yfir á mannamál sem systir mín læknaritarinn hafði hjálpað mér með yfir á "holdfúa" íslenskunnar til að byrja með, en nú þýði ég yfir á íslensku úr sænskri þýðingu minni úr íslenskunni, þannig að úr verður "dauður vefur").

- ja det stämmer, det är enslags död vävnad.
- og varla finnur maður til í dauðum vef! Og þetta er enn aumt, hvernig stendur á því?
- nei maður finnur kannski ekki til í dauðum vef, hann er á yfirborðinu, það er undir niðri sem eymslin eru ... og það er einmitt þetta sem fæstir læknar átta sig á, svona geislar, svona invortis Brachytherapi er mjög sérstök og óvíða gerð, þó hún sé orðin velþekkt síðustu áratugina á okkar svæði, en minna annarstaðar í Svíþjóð, sérfræðingarnir eru hér! Og þú ættir bara að vita hvað var að gerast hér áður; fólk fór til sinna sérfræðinga og kvartaði kannski um eyrnarverk og hálsnefogeyrnalæknirinn kunni ekki að túlka þessa tegund af sárum eftir braghytherapíu, hélt kannski það væri æxli og lét skera! Svoleiðis fullkomin mistök ... svo það þarf sérþekkingu til að lesa í svona sár.
- þú segir nokkuð, þá skil ég betur, ég efast um að maður geri svoleiðis á Íslandi, hm væri gaman að vita; veit ekki hvort þeir nota Brachyþerapíu þar; gleymdi að spyrja.

Ég varð allt í einu yfir mig fegin að sérfræðingurinn á borgarspítalanum tók mig ekki á orðinu þegar ég kvartaði um verk í öðru eyranu!

Frú Fagrafjalli fannst ég ætti að halda áfram að fitna (!) og þá notaði ég auðvitað vælutakifærið: En mig svíður enn undan súkkulaði og rúsínum; mat og appelsínusafa og stundum öllu nema rjóma.
- Hefurðu ekki talað við næringarsérfræðinginn?
- hm, ja, jú, nee, bara þær þarna sem fylgjast með manni útaf einhverri rannsókn, klípikonurnar. Ég fékk næringardrykki hjá þeim um daginn. Það var svona fyrir að fá að klípa mig, hugsa ég. Þær voru nú bara nokkuð ánægðar með þyngdina ...

- Það endaði með að frú Fagrafjall skrifaði resept uppá deyfisprey sem hún veit að ég ætla ekki að nota. Hún úðaði í mig tveim skömmtum í tilraunaskyni. Það svíður undan því!

*

Minn næsti viðkomustaður á tannlæknaháskólanum við Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsið þann daginn var hjá öðrum yfirlækni sem hefur tekið að sér að sjá um sjálfa tannheilsuna, byggja brýr eða búa til krónur, hvað sem ég þarf til að geta tuggið án þess að skekkja mig allt of mikið - og helst svo ég geti brosað út í bæði hugsa ég - því það er hægt að lifa á fljótandi fæðu en að geta ekki smælað framan í heiminn! Ekki hægt.
Nú var gert fínt plan, model og byrjað að undirbúa eina krónuna ...

- En hm ... ætli hvað, eitthvað kemur þetta til með að kosta, er ekki sniðugt að gera kostnaðaráætlun og spá í hvað ég ræð við að borga í náinni framtíð? spurði ég og fannst þetta dæmalaust ósænsk aðferð að vinda sér svona í verkið.

- Þú átt ekki að þurfa að borga.
- Ha? Hver borgar?
- Við sækjum um pening, það eru tryggingarnar sem eiga að borga. Þetta er hluti af meðferðinni - enda vandamálin afleiðingar af geisluninni - það á ekki að þurfa að kosta þig neitt. Við bíðum auðvitað eftir svari ... en gerum ráð fyrir að það verði jákvætt.

Ég ætlaði varla að trúa mínum eyrum. Ég bý semsagt í landi með kerfi sem er eins og sniðið fyrir krabbameinssjúklinga ... eða þannig.

*
En þetta var léttir því ég var farin að sjá fyrir mér svimandi háar upphæðir. Ég varð svo hissa og yfir mig feginn að ekki leið á löngu þar til ég fór og keypti mér gönguskó. Létta lága vatnshelda og mjúka fyrir "skog och mark".

Fyrir helgigöngur hugsaði ég mér. Það þarf góða skó í helgigöngur hugsaði ég. Séra Ágúst kynnti nefnilega fyrir mér hugmynd um Helgigöngur þegar hann bauð mér í kaffi þennan sama dag og hugmyndin hún svona rokvirkaði á mig!

*

Tuesday, March 06, 2007

SuberSara og önnur kraftaverk ...


Já,
Sara Stridsberg fær verðlaunin! Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2007. Tilkynnt í gær. Óneitanleg skemmtilega hressilegt val og engin lognmolla sem ræður í þeirri dómnefnd, svo það er bara að hrópa húrra! Reyndar fleiri skemmtilegar konur tilnefndar, ekki bara sagnasnillingurinn Kirsten Thorup, en líka dúndurskáldin Ann Jäderlund og finlandsænska Eva-Stina Byggmästar sem nú er flutt aftur til Finnlands.

Hér er ein umsögnin um Stridsberg, fyrir þá sem eiga auðvelt með sænskuna og Hér má finna viðtal í Aftonbladet frá því í fyrra ...
Hér er viðtal í DN þegar verðlauna bókin kom út, Drömfakulteten eða Draumadeildin þann 20. janúar 2006 (ISBN: 9100107263) og Hér er annað frá því í fyrradag; Umsögn í Svenska dagbladet frá því í fyrra ... og önnur kritisk í Sydsvenskan eftir Daniel Sandström, sem varð fyrir mér í leit að skemmtilegu viðtali eftir Annika Persson sem ég finn ekki aftur ...

*

Og annars ... ég er að reyna að hætta að hugsa á íslensku til að einbeita mér að verkefnum á sænsku!

Var félgaslega sinnuð á föstudagkvöldi og laugardagsíðdegi á tangónum ...
dansaði við undarlega argentínara á ferð og flugi og en hlýt svo að hafa sofið yfir mig. Því ég missti af merkilegasta tangóviðburði helgarinnar hér í bæ býst ég við, tangótónleikum með einni heimsins virtustu tangósöngkonu, að því er lesa má á Tangoportalen; Julia Zanko heitir hún. Hún tróð upp á Nefertiti - virtum klúbb þar sem Sigurrós og fleiri góðir íslendingar hafa látið í sér heyra - ásamt píanósólistanum Daniel Turano (sem var á íslensku tangóhátíðinni sl. haust); Celloleikaranum Lotten Zimmergren og Mikael Augustsson, eina Svíanum sem ég veit til að sé beinlínis þekktur fyrir Bandonéonleik ...

Með bestu kveðjum/Kristín

Thursday, March 01, 2007

Maraþon milonga


Tangomaraþonið – 42 klst samfelld Milonga – á Södermalm í Stokkhólmi um síðustu helgi var meiri háttar. Fólk kom á föstudagskvöldi í stærri og smærri hópum, í pörum eða eitt og sér, ekki bara frá Svíþjóð endilangri og nánustu Norðurlöndum, en líka frá París Bonn Róm, frá Hollandi Ungverjalandi og Rússlandi ... Líklega var stærsti hópurinn 14 ungmenni frá Pétursborg. Flotttir dansarar og úthaldsgóðir. Meðal sex manns frá París var Daníelinn sem María Shanko dáleiddi í ársbyrjun svo hann brá sér til Íslands, mætti á janúarmilongu í Kramhúsinu! Meðal parísartangóara var líka frönsk Sigrid, sem ekki bara var einn af djídjeiunum, heldur heldur leið hún þannig um gólfið í tangóföðmum hinna færustu að ekki var hægt annað en fylgja henni með augunum ... og láta heillast af hvernig ekta ”ferrarifollower” sameinar fylgni og frumlega leikni. Svo mjúk og svo sterk. Fullkomnar flaujelshreyfingar. Sigrid var DJ frá kl. þrjú til níu á sunnudagsmorgni, og laumaði sér aftur á dansgólfið undir lokin. Þá kom tónskáldið, tangóarinn og tangoportalhöfundurinn Peter Bengtson og tók við tónlistinni þar til yfir lauk kl. þrú síðdegis (hann var einn af aðstandendum maraþonsins). Frá Íslandi komu Hallur og Jóhanna fljúgandi ... og urðu reynslunni ríkari. Meðalaldurinn var á að giska í yngri kantinum miðað við t.d. á Íslandi og upp komu skemmtilegar spurningar: Hvar ætli þetta fólk verði eftir 20 ár og 40 ár? Og hvernig er það á engin börn? Hvar eru þau ...

Svörin gætu orðið skrautleg ... svo ég sleppi að spá í þau hér!

En síðari lotan mín á maraþoninu varð útaf fyrir sig lengri milonga en ég hef áður reynt, eða frá kl. 17 á laugardegi til kl. 10:30 á sunnudagsmorgni. Þá voru næturhrafnarnir flestir horfnir út í daginn og svefninn og svefnpurkurnar - sem lögðu sig um miðja nótt – að tínast til baka. Miðaldra herrar í óða önn að hitasig upp fyrir daginn, dönsuðu við hvorn annan ...

*

Á heimleiðinni bilaði lestin. Ég tók rólegu lestina því X2000 gefur stundum tilefni til sjóveiki. En farartækið urraði og stoppaði svo í snævi þöktu landslagi einhverstaðar skammt frá Tröllaskógi. Lestarstjórinn vippaði sér út og taldi sig laga ólagið ... og áfram runnum við um hríð. Svo kom nýtt stopp. En öllu reddað í rólegheitum, aðstoð barst og lestin með hvern vagninn attaní öðrum dregin á næstu brautarstöð og þar var farþegum dreift í næstu viðeigandi lestir allt eftir því hvert við ætluðum. Ég endaði í X2000 og varð soldið sjóveik.

Nú er ég heima hjá mér aftur en röddin mín bilaði smá og fór svo – í dag forðaði símasölustúlka sér strax úr símanum þegar hún heyrði í mér - ég á von á henni til baka fljótlega – röddinni - en datt í hug að láta vita af mér hér svona hljóðalaust!

Hefði viljað vera á Íslandi í dag að hlusta á ekkju Borgesar ... í Hátíðasal Háskólans. Örugglega skemmtileg dagskrá þessa dagana útaf opnun Cervantes setursins ...