My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, June 23, 2012

Annáll frá ársbyrjun - 2012

Eftirfarandi hvunndagsdokumentasjón er til að muna hvar ég hef verið árið 2011... gleymdi bersýnilega að leggja þetta út í veröldina á sínum tíma ... og vissi lengivel ekki hvað hafði orðið af þessari skráninu. Fann hana loks núna um Jónsmessuna!***
Árið sem leið reyndist mér ótrúlega vel, með merkilegum ferðalögum og vinnudvölum. Og þann 27 desember fór ég til krabbameinslæknisins mín í síðasta sinn ... því hinn klassíski fimmára reynslutími - frá því að meðferð lauk - er liðinn. Skemmtileg heimsókn, næstum "vemodig med seperationsångest!" En hann doktor Nyman faðmaði mig í kveðjuskyni og að kannski sjáumst við á einhverri menningaruppákomunni ... þá var ég búin að segja honum það helsta frá árinu:

Kambódíuferð í annað sinn til að leiðbeina á vinnustofum í skapandi skrifum fyrir ungmenni í Phnom Penh, bæði nýja hópa og gamla. Draugasögur sem aðalþema í samvinnu veið yndislega Sveinbjörgu með nánast óhugnanlega góðum árangri ...  þrjár vikur samfleitt í Phnom Penh.  Náði líka að safna efni í greinar um dans í Kambódíu ... tvær hafa birst á árinu í sænska tímaritinu Danstidningen (semm lika birtu tvær greinar um dans á Íslandi eftir mig, seinast með viðtali við Láru Stefáns um Svanaþema).

Merkisatriði í mínu lífi var líka Parísardvölin allan júlí í Kjarvalsstofu við Signu; til að kanna tangóinn þar í borg. Hafði ekki heimsótt París í 30 ár og aldrei dansað þar. Flaug heim um Berlin og tók þátt í fyrstu Queertangóhátíðinni sem haldin var þar, sumsé danssögulegt atriði.

Síðan kom ágúst ... sem endaði með tangóhátíð í Reykjavík ... og ekkert handleggsbrot eða vesen í ár.
Allur september í Listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði umlukin íslensku haustlitadýrðinni og mér tókst að koma til leiðar smá atburði þar í samvinnu við gott fólk eins og Ingu Jónsdóttur safnstjóra í Listasafni Árnesinga: http://www.pressan.is/Menningarpressan/LesaMenningarfrett/almynstur-og-astridur ; þá gat ég sagt frá Parísarreynslunni í dagskrá um tangó(las úr "Dagbók frá París") og það sem meira var, það var dansað samfellt í tvo tíma í safninu síðdegis og þar með rættist draumurinn um að efna til milongu í Hveragerði. Nokkuð sem ekki hefði getað gerst nema með stuðningi og þátttöku tangófélagsins í Reykjavík, um tuttugu tangódansarar komu brunandi yfir heiðina.


Það var gaman að vera á svæðinu í september; Reykjavík, alltí einu orðin ein af  Bókmenntaborgum heimsins, sú fimmta í röðinni hjá á heiðurslista UNESCO og haldið uppá það á Bókmenntahátíðnni sem var alger veisla að vanda, með innlendum og erlendum stórskáldum og kósí mannamótum.  Og samtímis var Nútíma danshátíð í Reykjavík ... svo ekki var hægt annað en skrópa smá í Hveragerðisvistinni.

Og svo náði ég að skreppa norður, hafði ekki verið í Húnavatnssýslu síðan fyrir hrun 2008. Var nokkra daga hjá Boggu systur við sjóinn, hitti Ragnar bróðir bara á hlaupum, augnablik fyrir tilviljun þegar hann fékk sér snæðing í sjoppu á Blönduósi, með syni sínum; þeir voru á fullu í fjárfluttningum alla daga og hálfu næturnar, voru í daglegum ferðum á Vestfirði akkúrat þá dagana. Heimsótti Akureyri (dagsferð okkar systra með heimsókn til Jónu Finndísar sem aðaltakmark) sem var all breytt síðan ég kom þar seinast. Lá við að við villtumst í gamla Gilinu útaf breytingum á fjarðarbakkanum, með þessu líka myndarlega menningarhúsi, talsvert nettara en Harpan.

Í Nóvemberbyrjun beið mín næsta ævintýri: ég kom í fyrsta sinn til Bergen í Noregi og gætti þess að fljúga bara aðra leiðina (til að koma vel upplögð á tangó Marathon) og taka lest til baka. Það varð 7 tíma ægifögur fjallaferð til Osló á björtum sólskinsdegi, og áfram ca 4 tíma þaðan til Gautaborgar ... í myrkri til að jafna sig á fegurðinni.

Næsta ævintýraferð er svo áætluð í  febrúarlok, 2012; þá flýg ég til Búdapest, hef aldrei komið þangað; nota tangómarathon sem markmið ásamt efnissöfnum að vanda, hef heyrt að tangómenning Ungverja sé athyglisverð, og svo vonast ég auðvitað til að finna eitthverja af þessum frægu baðstofum í Buda eða Pest.

Gleðilegt ár!

***

p.s.
næst framundan: 10 daga kvikmyndahátíð; námskeið með skólakrökkum í skapandi skrifum; ferð til Búdapest í febrúarlok :)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home