My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, January 13, 2006

Ekki fyrsti apríl

13. janúar 2006

Í gærkvöldi horfði ég á heimildarþátt um hvirfilvinda ársins sem leið og var þakklát fyrir að hafa ekki átt heima í New Orleans í fyrra þegar miðborgin sökk og líkin flutu eftir götunum ...

Í dag er ég þakklát fyrir svo margt fleira, eins og að hafa átt - og eiga enn - vini og ættingja sem sögðu hvað þeim leið, bjuggu mig undir það versta með því að kalla sjúkdóma eins réttum nöfnum og mögulegt; með því að halda lífsviljanum við; drífa í að gera skemmtilega hluti; láta vita af sér og gefa mér tækifæri til að horfast í augu við að lífið er misjafnlega endingargott.

Í dag er ég þakklát fyrir líf með fullt af tækifærum sem ég hef notað misjafnlega vel, þó eins vel og ég hafði vit á hverju sinni og fyrir að vera enn að njóta lífsins. Litríkt að horfa til baka, forvitnilegt að horfa fram.

Því líf mitt blasir við á allt annan hátt en í gær og spurning dagsins er:
Hvernig Tangóar maður sig áfram með krabbaótukt í farangrinum?

Segir maður játakk við öllu því sem læknavísindin bjóða?
Hvað er hægt að barma sér án þess að þreyta fólk, og hvernig að uppörfa ættingja og vini, og þora samt að biðja um og samþykkja þá hjálp sem þarf?

*
Það er ekki fyrsti apríl í dag. Ekki frekar en morguninn fyrir tuttugu árum síðan þegar fréttin um að Palme væri myrtur var það fyrsta sem ég heyrði raddir dagsins segja. Þá veigraði ég að trúa því sem ég heyrði og tókst að hugsa: ætli Svíar séu með allt annan dag en við, 1. apríl brandarana? Mér fannst þetta reyndar lélegur brandari. Hrópandi grófur.

Mér fannst það líka frekar lélegur brandari sem ég heyrði hjá lækninum í morgun. Þegar skemmtilegi læknirinn minn settist gegnt mér og ég spurði um niðurstöður úr rannsóknum - blóðpróf í vikuni sem leið og í fínnálarsýnistöku á Sahlgrenska – þá var þessi fína stemning á stofunni. Ég búin með mínar morgunntrúðaathugasemdir; búin að fullyrða að kýlið á hálsinum væri farið að minnka útaf athygli sem það hefði fengið nú þegar ... og svo spurði ég: eru niðurstöðurnar komnar?
Já sagði doktor Janne og eitthvað meir sem ég man ekki því svo kom:
- Du har en tumör.
- Heyrðu, nú ertu að gera að gamni þínu er það ekki!

Mér fannst þetta lélegur húmor, eiginlega enganveginn líkt honum. Ég get trúað heimilislækninum mínum til að segja hvað sem er en ekki doktor Janne.
[Heimilislæknirinn minn er náungi í hvítum slopp sem segir undarlega hluti, eins og “þetta er einhver pirringur bara” þegar ég sýndi honum kýlið mitt fyrir meira en mánuði síðan, og þegar ég spurði bæði í gammni og alvöru hvort þetta gæti ekki verið gikt sagði hann: Nei, gikt er skal ég segja þér nokkuð sem situr í stórutánni! Doktor Janne er hinsvegar ljómandi af allt annarri tegund af hressileika og húmoristi ef maður vill brandarast sjálfur en alvarlega þenkjandi á læknisfræðilegu hliðina með háþróaða samúðarþerapíu tilkippilega bak við eyrað ef þarf. ]


Nei, sagði doktor Janne og þegar ég sló upp á tumör í orðabókinni í hausnum á mér kom bara upp Krabbamein og það þýðir Canser. Ég endutók hugsunina upphátt og þá segir doktor Janne: Þegar við tölum um tumör á sænsku þá meinum við yfirleitt krabbamein.
Mér þótti þetta ósvífið svar og leitaði að smugu framhjá þessari merkingu ... en doktor Janne kórónaði allt með að segja að ég skyldi gera ráð fyrir strembnu vori og auk þess að það væri ekkert gaman að þurfa að gefa svona skilaboð.

Hm... en er það nú samt ekki ansi oft sem þú þarft að gefa svona skilaboð í þínu starfi, fiskaði ég.

Ekki beinlínis en það kemur fyrir, var svarið. Vúbs ...
Enda fór svo að áður en ég kvaddi vorkenndi ég honum að þurfa að gefa mér svona leiðinlegar upplýsingar um mig og auk þess þurfa að endurtaka þær nokkrum sinnum með mismunandi orðalagi áður en ég fór að skynja hvað hann talaði um. Honum var annt um að búa mig undir nokkurra mánuða ferðalag í heilbrigðiskerfinu og var ekkert að reka mig út í auðann morguninn fyrr en ég var tilbúin sjálf.

Hann sagði að ég gæti hringt hvenær sem væri og með hversu bjánalegar spurningar sem ég vildi. Þá áttaði ég mig upp á nýtt á því að þetta væri kannski alvarlegt og ekkert til að grínast með þótt það væri enginn dauðadómur.

Ég kvaddi heldur ekki fyrr en ég var búin að spyrja þeirra "bjánalegu spurninga" sem mér datt helst í hug, eins og: hvað segir maður svo vinum og ættingum svo þeir verði nú ekki meira en mátulega áhyggjufullir?

Það er ekkert eitt og rétt svar við því, byrjaði doktor Janne ... en það má segja það sem við vitum, að það hafi greinst "cellförändringar" sem krefjist einhverskonar meðferðar og að maður vilji skoða betur og skima til að komast að hvort um æxli sé að ræða annarstaðar í líkamanum, áður en tekin er afstaða til hvaða meðferð sé æskileg. Þetta er ekki illkynja, heyrðist mér hann segja, þetta er fremur vingjarnlegt krabbamein ...

Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei fyrr heyrt talað um vingjarnlegt krabbamein. Þetta er sem sagt ekki illkynja og ekki heldur góðkynja svona eins og venjulegur bólginn yfirvinnueitill eða saklaus fituhnúður?

- Nei, hreint ekki saklaus, samsinnti doktor Janne og fór aftur yfir ímynduðu skalana sem eiga að greina milli góðs og ills og sýndi mér að ég var nær því góða en illa.

En af hverju fær maður krabbamein! Er það hugsanaskekkja heldurðu? Getur það verið? Kvíði sem kveikir nýjan míkróheim?

Doktor Janne vísaði tilgátu minni um hugsanaskekkju á bug.

- Du kommer att klara det här! Men som sagt ring när du vill prata, jag menar det verkligen och lycka till!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home