My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, January 28, 2006

Hvað ertu?

Hvað ertu, spurði læknirinn.
Íslendingur, var það fyrsta sem mér datt í hug en endurtók spurninguna:
Vad är jag?

Já fyrst þú ert að lesa þig til og svona áhhugasöm um sjúkdómsheiti, útskýrði þessi nýi læknir minn á háskólasjúkrahúsinu - Sahlgrenska - á miðvikudaginn var, þann 25. janúar.

Ahhh þannig. Ég er rithöfundur! sagði ég svo alltí einu hróðug og ekki orð um að það væri hinn nýjútskrifaði dýralæknir í fjölskyldunni sem ráðlagði mér að skrifa niður nafnið á minni ótukt svo hægt væri að lesa sig til. Og ekki orð um tangó.

Ég fékk enga staðfestingu á kenningu minni um að til væri "góðkynja krabbamein" eins og ég hef baslað við að færa rök fyrir síðan 13. janúar hjá doktor Janne.

Hins vegar fékk ég ljósrit af greiningunni og nafnið Skivepitelsmetastas sem er flöguþekjumeinvarp á íslensku og líklega squamonus cell carcinoma á alþjóðamáli. Svo nú er að finna upptökin. Þau gætu þess vegna legið í næsta hálskyrtli og doktorinn sagðist ætla að láta skera hann burt í næstnæstu skoðun sem er totalskope og ég fæ að sofa á meðan. ... svo sneiðum við hann í örmjóar ræmur og ræktum, sagði doktorinn eins og hann hugsaði sér heldur betur gott til glóðarinnar.

Soldið kaldranalega kómískur andi í þessari heimsókn, sem var stutt. Ég lagði út með með mína seinustu ágiskun skringilega roggin og sagði: Jag har nog det som heter cansersvulst av okännd ursprung. Eller hur? Læknirinn hváði og ég sé mig fyrir mér eins og stórt hróðugt barn, nýkomið með vissa leikni í að setja saman erfið orð. Ég endurtók sjálfa mig: Ég er víst með það sem kallað er krabbameinsæxli af óþekktum uppruna. Er það ekki?
Nú jánkaði læknirinn og jú jú það væri náttúrlega illkynja meinvarp eins og ég hefði fengið að vita ... og áður en yfir lauk bað hann aðstoðarstúlkuna að taka ljósrit handa mér af skýrslunni frá doktor Janne, ég væri svo vel með á nótunum um hvað væri að ræða ...

2 Comments:

Blogger Freyja said...

Gott hjá þér að skrifa niður nafnið. Það er alltaf betra að vera með á nótunum, eða allavega þykjast vera með á nótunum þegar læknar eru annars vegar. Þá fær maður betri útskýringar.
kveðja frá dýralækninum

10:20 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Frábært að eiga þig að! mér hefði ekki hugkvæmst þessi tegund af frekju hefðirðu ekki gefið mér ráð.
Hlakka til að lesa læknabloggið þitt frá Mexikó þegar þar að kemur og halda áfram að fá þjóðráð frá þér yfir hálfan hnöttinn ...
knús og kveðja

12:25 AM  

Post a Comment

<< Home