My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, March 07, 2008

Febrúar með 2 x tangómaraþon


Febrúar var fallegur og nú er hann farinn. Hann bauð mér ekki bara á kvikmyndahátíð með fínum myndum og mexíkönskum, veislum með vinum og Nik Powell, fundum, endurfundum og Íslendingum, heldur sendi mig þar næst rakleitt inn í Vetrarhátíð með maraþontangó á Íslandi.

Svo lauk hann lífi sínu í ár á aðfaranótt laugardagsins, vék þá fyrir Mars. Hann skildi við mig elskulega og örugglega í örmum einhvers, því veislan sem hann bauð mér í að lokum var hið Guðdómlega Tangomaraþon, í samkomuhúsi við heilsubrunninn Sätrabrunn í Svartárdal í Västmanland.

Á Vetrarhátíð og fyrsta tangómaraþoni Reykjavíkur:

Eftir fannhvítan morgun í Vesturbænum, laugardaginn 9. febrúar, með sundferð í logndrífu og gönguferð þegar stytt var upp hélt ég að toppnum væri náð í náttúrufegurð fyrir mig þann daginn en þá tók við stanslaus síðdegissýning á Tjörninni með glitrandi sól á lífið þar, á bæði alvöru snjókorn einsog samofin í sínu teppi yfir mestöllu vatninu og listaverkasnjókornið þar ofaná. Allt blasti við frá Iðnó þar sem söguleg hátíð hófst á hádegi og lauk formlega sólarhring síðar, fyrsta maraþon Tangófélagsins í samvinnu við Vetrarhátíð með rausnarleg atriði í boði fyrir alla í bænum! Námskeið, tónleikar og tangósýningar.

Og topparnir héldu áfram að toppa sig allan daginn og fram á morgunn. Einn þeirra var þegar Elísabet vinkona birtist undir kvöldið. Ég hafði ímyndað mér að upplagt væri að stefna vinkonum mínum á staðinn, og sent nokkur meil ... gleymi því gjarna að ég er sjálf ekki viðmælandi á milongum/tangóböllum, vil helst þegja og dansa eða þegja og horfa og dansa til að komast hjá orðum en samt vera til. Svo gleymi ég oft að argentínski tangóinn hefur ekki sama aðdráttarafl fyrir alla og að til er fólk sem þarf ekki að dansa. En hún Ella Stína blómarós mætti í fullum skrúða ... Það ætti kannski að fylgja sögunni að Íslandsferð mín syttist um meira en þriðjung vegna veðurofsa, sem tafði flugið hjá Iceland Express um c.a. sólarhring. Ég rétt slapp heim með vél sem flaug á föstudegi meðan veðurguðirnir fengu sér hádegisblund, en meðan ég beið á Kastrup var ég að missa af hverju stefnumótinu á eftir öðru, allt frá heitapottsfundi í ljósaskiptunum fimmtudagsins til kaffihúsaheimsókna með skáldkonum ... og á sunnudagskvöldi var ég aftur lent í Kaupmannahöfn.

*

Guðdómlega maraþonið við brunninn:

Já, hvað gerir maður við Sätrabrunn í sænskum Svartárdal? Maður dansar og drekkur vatn. Vatnið varð þekkt fyrir 300 árum og er næstum eins gott og úr íslenskri uppsprettu ...

Síðara maraþon mánuðarins á norðurslóðum nefndist maratón la divina við Sätrabrunn og stóð í 44 klst. frá föstudagskvöldi til sunnudagskvölds, með gestum sem ekki láta sig muna um að skreppa "bæjarleið" til að eiga helgi með leikfélögum í tangóheiminum. Fólk kom svífandi frá Sidney og Sikiley, Basel, Barcelónu og Berlín, París, Amsterdam, Moskvu, Pétursborg, London, Bergen, Kaupmannahöfn og ýmsum öðrum sætum Evrópuborgum að Reykjavík ógleymdri ... Jóhanna & Hallur og Bryndís & Hany birtust stundvíslega mörgum til ómældrar gleði.

Áður en yfir lauk var komin Mars og hann fylgdi mér heim. Síðan hef ég verið í leiðslu enda ætlar hann með mig bæði til Madrid og Málmeyjar áður en hann er allur.

P.S.

Ljósmyndarapar var á staðnum og hægt að skoða stemningsmyndir í svarthvítu hér.

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Gaman að sjá blogg um tangómaraþon bæði á Íslandi og Svíþjóð.
Góða ferð til Madrid.
Stella

9:27 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Takk takk! Sjáumst svo við ekki bara á milongu í Málmey fyrir páska??

9:44 PM  
Anonymous Anonymous said...

tangótangótangó bangó. skemmtilegur ryðmi í þessum tangótextum, þú ert dugleg að lifa, ég dáist að þér,

elísabet

12:15 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

takk saeta, addáunin er gagnkvaem !!

12:38 AM  

Post a Comment

<< Home