My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, December 29, 2007

Skammdegissögur, meiri hluti



Til Dyflinnar

Þann 26. nóvember kom ég fljúgandi frá Dyflinni með Heilræði lásamiðsins í farangrinum og heima beið mín sending úr Heiðmörk, frá Unni Jökuls: Hefurðu séð huldufólk. Bækur sem hvor um sig væri verðugt efni í meira en eina doktorsritgerð ... Dublinarferðin - eða ferðin til Djúpu lindar í Dyflinnarsýslu í ríki Mary McAleese - er hiklaust einn hápunktur ársins, intensíf helgi í faðmi írskrar menningu og Elísabetar Jökuls sem var í háskólanámi þar á hauststönn. Ég lenti í fullu tungli og fannst fjöllin íslensk á svip í sólarlaginu síðdegis á föstudegi þann 23. nóvember. Elísabet hafði essemmessað að hún væri lasin, og ég til baka að hún skildi taka því rólega, en viti menn, hún birtist flaksandi fín á svörtum frakka á flugvellinum, beið mín í villtum dansi svo fjaðraskraut okkar beggja truflaðist þegar ég skáskaut mér inn um hliðið. Ég vissi ekki þá að hvorki var fyrir hvítan mann né svartan að rata heim til hennar í Fagrastræti, í hvílíku nýmóðinshverfi að leigubílstjórar kunnu ekki á það og þurfti nákvæma leiðsögn hins heimavana. Hefði hún ekki sótt mig væri ég enn að villast, reikandi ein um stræti Dyflinnar, sem reyndust sjarmerandi og söguleg enda svæði margra snillinga, sem ég hafði ekki tengt sérstaklega við Dublin. Oscar Wilde sé ég mest fyrir mér í fangelsi, ef ekki á heimsreisu um Evrópu og grafinn í Frakklandi, gleymi að hann var fæddur hér og nam við Trinity eins og Beckett sem hélt til í Parísar o.s.frv. Annað með Joyce sem notar Dyflinni sem bakgrund í sínum frægustu verkum. Landlordinn hennar Elísabetar reyndist ljúflingur og kennari í skapandi skrifum, og skrúfaði frá hitanum um leið og beðið var um það.

Strax fyrsta kvöldið rúlluðum Elísabet í bæinn og út að borða. Ég fékk að sjá Liffley by night og fleiri valda staði, horfa á tunglið þaðan sem gestgjafi minn
skáldkonan kvað það best: úr Trinity háskólagarðinum. Ekki varð komist hjá fáeinum ævintýrum svona rétt á leiðinni í kvöldmatinn, eins og að lenda á óformlegum skipulagningarfundi leikskáldsins EKJ og framkvæmdastjóra Beckettleikhússins við Trinity; þar næst í útgáfuveislu nemenda með nýútkomið 58. hefti af Icarus, Contemporary Writings from Trinity, textar átján ungskálda. Elísabet kann að búa til spunaþætti með orðum og fólki og stofna ný heimsveldi á staðnum og einn meðleikarinn var ungur maður sem mér sýndist ætla að verða nýr James Joyce, hann birti texta sem hann kallaði Portrait of a Freshman After Five Weeks in Trinity. Nei, ég er ekki rithöfundur, Im not a writer, Im a skripler. Nýtt hugtak handa mínum haus svo ég hló og hló fannst skripler svo skondið, en ég kann ekki á kokteilsamræður og það lýsti sér í því að ég sofnaði nánast samstundis í sóffa, veit ekki hvort það var af skelfingu eða þreytu eftir flugið (með Rayan Air sem var með óþægilegri flugstóla en ég hef áður kynnst). Ég vaknaði á völdum matsölutað þar sem Elísabet var allt í einu komin með þjón í fullt starf við að segja sögur við okkar borð! Ég hélt hann myndi gleyma að gefa okkur að borða fyrir bragðið og biðja um sögulaun, en það var eins og allt væri innbakað í heimsins ljúffengasta hollusturétt sem hann töfraði á borðið fyrr en varði.

Áður en helgin var liðin náði ég líka að að skoða hið heimsfræga bókasafn við Trinity háskólann með
The Book of Kells, gersemi borgarinnar, varðveitt handrit frá c.a. 800 e. kr. verk munka frá eyjunni Iona í Skotlandi að því er talið; munka sem fluttu til Kells í greifadæminu Meath til að forðast árásir víkinga. Ég sá ekki betur en þetta væru listaverk í sama stíl og handritin okkar með öllum mögnuðu upphafsstöfunum! Það var að Elísabet sem kom vitinu fyrir mig á síðustu stundu, þótt hún væri sárlasin heimavið á sunnudeginum og líka að búa sig undir að kveðja Dyflinni; hún vissi hvað var merkilegast að skoða og ég slapp inn í musterið rétt fyrir lokun á sunnudegi; fann stoð að styðjast við í lotningu minni þegar ég kom upp á efri hæðir safnsins með The Long room sem varðveitir tvö hundruð þúsund elstu bækurnar.

Dyflinni er rétt eins og Barcelona með tvö tungumál sem blasa við á hverju götuh0rni, hér eru götunöfn og leiðbeiningar bæði á Ensku og Írsku, málinu sem keltar ortu hetjusögur og drápur á hér áður.


Auðvitað fann ég tangó í höfuðborg Íra, búin að hafa samband áður en ég fór að heiman (hér = Gautaborg). Var á ferð á réttum tíma fyrir the big Winterbal á fæðingardeildinni, þeirri fyrstu sem byggt var yfir í Evrópu að því er segir í túristabókum, deildin stofnuð 1745! Jamm, ég er ekki að búa þetta til, Milongan hjá írska tangóveldinu var til húsa í hátíðasal á sjúkrahússvæðinu Rotunda Hospital við Parnell Torg, ekki langt frá Writers Center, þar sem Elísabet stóð fyrir bókmenntakvöldi nokkrum dögum síðar, las upp úr Lásasmiðnum og öðrum verkum sínum. Hún dreif sig með mér á Milongunna, náði fínu sambandi við eina manninn með rauða nellikku - eftir að hafa töfrað alla aðra í kringum sig - það var Andrew leikari sem ég held hún hafi síðan ráðið í vinnu sem upplesara og gott ef ekki kynni. Annars sáust varla Írar fyrir útlendingum og innflytjendum, þýski háskólakennarinn hann Kristófer fullyrti að í tangósamfélagi Dublinar væru aðeins 20 til 30 % Írar. Af dansherrum mínum voru þó einir þrír mjög írskir kannski innfæddir, og því eldri því færari! Ég á alltaf von á að lúxusdansararnir leynist meðal hinna yngri í Evrópskum borgum, því tangóbylgjan síðari frá Argentínu er það ný. Það var undir lokin að ég náði athygli roskins tangóara með tagl og sem hafði vakið athygli mína fyrir fallegt faðmlag og lipran stíl. Ég sá hann aldrei sitja. Hann hafði dansað í nærri áratug og verið í BsAs oftar en einu sinni. Hljómaði írskur. Það er innileikinn, hinn orðlausi innileiki tangósins sem virkar eins og lífgjafi í dansinum. Ég er ekki viss um að nokkur geti séð það utanfrá. Sýningartangó er allt annað mál ... Salurinn, The Pillar Room, tilheyrði Gate Theater sem ég áttaði mig aldrei á hvort einnig var innbyggt í Sjúkrahúsið.

Daginn eftir hitti ég svo argentínsku Veronicu, þegar ég var búin að túristast, líka í Temple Bar og villast soldið viljandi, þá mæltum við okkur mót við spíruna The Spire sem er auðveldara að rata á en nokkuð annað í Dyflinni. Veronica hafði ekki verið á vetrarballinu mikla, þótt margir nemendur hennar væru þar og bað mig að segja sér allt ... Hún hefur dvalið langdölum í borginni við að kenna tangó, og ferðast raunar um allt Bretland og víðar sem tangókennari. Hún var soldið óþolinmóð fyrir hönd Dublinarbúa, þótti þeir flækja málið um of með pælingum um klassiskan tangó og tangó nuevo, en í Limerick þar dansar fólk tangó!


Leshringsvinir


Miðvikudaginn eftir Írland var eitt hinna ljúfu leshringskvölda. Þá var meira en ár síðan við í íslenska leshringnum höfðum hittst heima hjá mér; í fyrra fann ég ekki bragðið af matnum ég þóttist vera að elda og vissi ekkert hvað ég var að gera þegar ég var að krydda pottrétt, varð að biðja um aðstoð. Núna virkaði eigin bragðskyn og pottrétturinn pottþétt ókey fullyrtu allir sem einn. Við sátum við borð úr kirsuberjatré og ræddum snilldarverkið Sumarljós og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman Stefánsson, en líka um Huldufólk og heimana ýmsu sem ekki eru alltaf til sýnis. Leshringsfundirnir virka soldið eins og helgistundir - enda er presturinn okkar hann Ágúst með ásamt læknunum Vigdísi, Elínu og Guðnýu Ásu og hjúkrunarkonunni Helgu - þar sem tal um tilfinningar kafnar ekki í menningarmúr heldur vex eins og blóm á vel ræktuðu grasþaki þar sem þau verða helgisögur.

Stokhólmur í endursýn ... bráðadeild tangósins á Södermalm og 1.des í Vesterås

Þann 29. nóvember þaut ég til Stockhólms hélt ég en var minnst 7 tíma í lestinni útaf bilun og bið. Þá var orðið dimmt og ég var með lykil að fínu garðhýsi nálægt "tangoakutten" á Hornsgötunni á Södermalm, gistitað sem mér var hætt að lítast á að leita að í myrkrinu. Svo Sasha tangóvinkona frá Pétursborg bjargaði mér með ákveðni sinni þegar hún SMSaði: Koloistuga! Ertu galin, komdu hingað í staðinn. Þar með voru þau búin að taka mig að sér hún og Tommy tangóari sem búa í Kista og ég ætlaði fyrst að ónáða daginn eftir eftir heimsókn á bráðadeild tangósins sem er sérstök praktika opin síðasta föstudag hvers mánuðar á undan andfélagslegu Milongunni "antisocial tangoklub" sem Peter Bengtson tónskáld og tangóportalstjóri stjórnar á sama stað. Þá reynir hann að fá fólk að fylgja hefðbundinni reglu cortínunnar sem heimtar að fólk skipti um dansfélaga á fjögura dansa fresti, og óskar þess að gestir klæði sig soldið extra tangófínt.
*
Helgin rann í mig og með mér rétt einsog rjómasúkkulaði hjá nöfnu minni í Garðabæ; ég fann Stinu Ekblad heima á föstudeginum og horfði á hana baka Lúciuketti - sem við og sonur hennar Adrian borðuðum dáldið af - og þegar hún fór til Uppsala um kvöldið á skólasýningu frænku sinnar við leiklistadeild þar, þá fór ég beint tangóbráðadeidina. Eins gott því það vantaði kavaléra, ég bauð mig fram sem slíkur, og dansaði við konu sem ég hef aldrei séð fyrr en hinsvegar kvikmynd eftir hana: Mitt namn var Sabina Spielrein/Ich heiss Sabina Spielrein, sem Helgi Felix framleidddi 2002. Merkileg mynd um merkilega konu sem var fyrsti sjúklingur C.G. Jungs og sálfræðinemi, konu með framtíðardrauma og sterkan vilja sem ekki dugði til í gjánni milli vísindakonunnar og borgaralegs fjölskyldulífs; milli Frauds og Jungs, Stalíns og Hitlers .... "Meðan á meðferð stóð var sjúklingurin svo óheppinn að verða ástfangin af mér" er haft eftir Jung. En daman mín skrifaði kvikmyndahandritið og heitir Yolande Knobel.

Fullt af dansævintýrum gerðust þessa helgi, með fleiri fínum endurfundum en ég átti von á og ferðalagi til Vesterås, á hátíðamilongu þann 1. desember með hljómsveitinni Tangarte. Tangófólkið í Vesterås hélt uppá 10árin sín undir áhrifum.
Tangarte var betri en nokkurn tíma og með glænýjan CD á boðstólnum. Og skelfing er notalegt að búa hjá fólki sem líka þarf að hvíla sig eftir milonguna ... ég borðaði morgunnbat á miðjum degi með Söshju og Tommy og við horfðum á tangóupptökur ... mér fannst ég ansi röggsöm að taka lestina áleiðis í heimsókn inni í miðbæ fyrir kl. fjögur síðdegis. Við Medborgarplatsen var eins og höfuðborgin skryppi samna þegar ég heyrði nafn mitt kennt við Ísland rétt fyrir aftan mig. Þar stóðu Riku og Elín, á leið út að borða, Riku var ráðinn DJ á nýlegri sunnudagsmilongu, sem reyndist full af sjarma og góðum dönsurum ...

Konunglegur Mánudagur í Stockhólmi.

Á mánudagsmorgni mætti ég hjá Stínu á Dramaten. Hún hafði boðið mér í hádegismat, var annars á fullu að undirbúa kvöld með leiklestri á verkinu Final, "skådespel i tre akter af
Ernst Ahlgren och Axel Lundegård", sem þýðir nokkuð síðbúið leikverk eftir Victoriu Benedictsson(1859 - 1888). Og ekki bara það heldur var konunglega leikkonan samtímis að skipuleggja heilmikla dagskrá um Dorris Lessing á konunglega sviðinu í vikulokin, rétt fyrir nóbeldaginn 10 des.

Stina finnur staði sem ég finn aldrei ein, við sátum alltí einu í annað sinn á þvílíkum unaðs kaffiketti í gamaldags og heimilislegum stíl uppá annari hæð í húsi uppí klettabrekku bak við Dramaten ... sátum þar og hlógum og grétum. T.d. yfir hvernig það er öðruvísi að vera ekki alveg ung lengur, hverskonar einmanaleiki það er sem getur þá laumast í mann eins og ný tegund af tilveru þegar horft er fram. Og þegar litið er til baka hvernig hinar ótrúlegustu gjafir lífsins láta; bíða á öruggum stað eftir að þeim sé pakkað upp og deilt með öðrum sem muna eða muna ekki með manni. Undarlegt annars hve sjaldan ég heyri eldra fólk beinlínis lýsa tilfinningum sínum gagnvart fröken elli, ég var fertug þegar ég heyrði í fyrsta sinn þeytta konu segja það hreint út: Jag tycker inte om att bli gammal. Og svo heyrði ég frú Lessing orða það eitthvað á þessa leið í sjónvarpsviðtali: It is a hard work being a writer, but believe me, being old is harder, that is a very very hard work.


Ég flutti nær aðaljárnbrautarstöðinni þennan mánudag til Mats leiktjaldahönnuðar á Söder og tók svo lestina heim þriðjudaginn 4. desember. Heimsótti garðhýsið - kolonistugan - við Zinkensdam í björtu og setti á hita fyrir eigandann sem var væntanlegur á svæðið. Sjarmerandi með svona garðsvæði inni í miðri borg, örugglega fínn staður að búa á að sumarlagi.


Endurfundir og ættleiddur makki!

Tangovinurinn Ralph kom til Gautaborgar frá Munchen helgina 9. - 10. desember svo ég bjó til "jólaboð" með fiskisúpu og heimabökuðu brauði og fór í heimsóknir með Riku og Ralph; ekki bara á La Tardecita, síðdegismilonguna á Språkcaféet - þar sem ég komst að því að ég gat vel dansað á hælaháum skóm nonstop í klukkutíma og vel það við Ralph sem er kraftmikill dansari - en líka í sunnudagste til þriðja drengsins, Johans í gamla sjómannahverfinu Majorna. Johan Järlehed var tangókavaljérinn minn 2003 - 2004, áður en hann fann þýska kærustu á síðustu Carpe Diem hátíðinni í Skáni - sögulegur tveggjavikna sumartangó í ágúst 2004 - og flutti til Berlínar. Nú býr hann aftur hér, búinn að doktorera í spænsku í ár og eignast sitt fyrsta barn, Lonu Stellu, með yndislegu Charlottu sem er sálfræðingur og búin að læra sænsku á mettíma. Ég var vön að kalla þessa þrjá drengi lillpojken, storpojken og stora lillpojken, þeir eru á þeim aldri að geta verið synir mínir. Stundum ruglaðist ég í hver er minni en annar og þá tekur Charlotta snaggaraleg til í kollium á mér með sinni sálfræðilegu uppbyggingu. Við höfðum ekki hittst öll saman síðan hjá Ralph þegar hann bauð okkur Gautaborgarvinum sínum til Munchen í apríl 2005. Ég fékk að ættleiða gömlu fartölvu stóradrengsins, makkann hans Ralphs. Kemur sér vel, t.d. fyrir næsta sumar þegar ég verð í vinnudvöl í litlu rauðu húsi á Íslandi. Jamm nú ætti fartölvuleysi ekki að hindra mig í að sitja og vinna á fleiri völdum stöðum í heiminum, né heldur að fara að æfa mig sem tangó Dj! Skringilega tímafrekt að sortera tangótónlist, mér endist ekki þetta ár til að koma mínum diskum í aðgengilegt kerfi ...


3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Mér sýnist að runnið hafi á þig bloggæði, nottla langskemmtilegast að lesa um mig, sem var að koma úr borgarfirði, þarsem ég hef bloggað um það, eitthvað dömm í fingrunum, og vantar buxur. en þetta er bráð skemmtilegt, líka einhver nýr still, ætti eiginlega að vera á bók, ætti ég ekki að giftast prentara og áðan hringdi Jökull og vantaði skauta og ég er hérna að bíða eftir að gestirnir á heimsveldinu verði 3.400 ég veit ekki hvaða fólk þetta er, svo já já ja´, ég elska þig og knús, takk fyrir að segja svona fallegt um mig.

Elísabet,

ps. ég sá það. ég hafði ekki augun af ykkur og ég sá það. unforgettable.

6:56 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

hvad med svørtu buxurnar?
kem heim theagar thu ert komin med prentarann ...

9:43 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

p.s. merkilegt! thu hefur horft med tridja auganu.

9:44 PM  

Post a Comment

<< Home