My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, December 22, 2007

Skammdegissögur, fyrsti hluti

Ætti ég nú að blogga í bloggátt eða vera trú Krónonsi gamla og segja frá krónólogiskt?
Bloggáttin er þegar atriðin eru rakin afturábak inn í fortíðina og má segja að það sé sama átt og dansátt sem er einatt rangsælis um dansgólfið þegar pörin dansa í hring. Svo er hægt að snúast í allar áttir í kringum hvort annað ...

Ég þarf að sættast við samvisku mína og slaka á tjáningatauginni með því að blogga nokkra hápunkta úr síðastliðnum mánuði. Samkvæmt bloggátt ætti ég að byrja á síðustu tangóhelgi fyrir jól: Tangomarathon á Grenibakka á Skáni Granbacken i Löberöd 14 - 16 desember. Þá kom Lára Valentino frá Íslandi og tók fullt af myndum sem hún sýnir HÉR. Ég sem hélt hún hefði dansað allan tíman. Á loftinu í Málmey miðaði hún svo á MIG!
Meðalaldurinn var kannski nær 30 en 60 og það fannst mér fínt meðan ég var á staðnum, en að sjá mig og örfáa aðra aldurshöfðingjana
á mynd svona eftir á fyllir mig aldursótta við fyrstu sýn, samt veit ég að ég verð aldrei eldri en mér fannst ég vera þegar ég varð fertug. Ég hélt ég hefði orðið níræð og rétt við það að steypast í gröfina.

Það þarf meira en tvo í tango skrifar Karin Thunberg í Sænska Dagblaðið þann áttunda des.


Önnur krukka og túnið sem hvarf

Nei annars, ég held ég byrji í hinn endann, þar sem frá var horfið síðast enda er ég mikið að spá í að kaupa mér aðra krukku og að þessu sinni mun ég setja einlita seríu í krukkuna, sú marglita er truflandi til lengdar hugsa ég svona rauð og blá og græn upp um alla gúmíplöntu sem sýnist þá of jólatrésleg til að hafa allt árið og ég vil hafa ljósin mín allt árið. Hinsvegar er það mér ráðgáta að ég skuli kaupa útiseríur til að hafa innandyra og það inní krukku a.m.k. að hluta til, eins og ég kunni ekki að lesa í búðinni eða ætli að leika útigangsmanneskju heimahjá mér en kannski verða allar krukkurnar uppseldar áður en ég ákveð mig og þá get ég hengt einlitu seríuna úti, ég hef aldrei hengt neitt svoleiðis á húsið mitt og nú er eins útiskrautið blómakassinn minn á svölunum hrokkinn uppaf.

Ég heyrði mikla skruðninga dag nokkurn í desember og þá var kraninn sem hefur verið að djöflast á túninu hjá mér undanfarnar vikur kominn í svalarkassann, lyfti honum upp og burt með skruðningum! Ekkert tún og engin svalarkassi. Ég öskraði og benti kranaköllunum með heyrnarskjólin að gjörasvovel og settja blómakassann minn við bæjardyrnar og þar fann ég hann svo mölbrotin, en með mold og eitthvað af dánum blómum. Ég er að hugsa um að biðja um skaðabætur. Já, ekki bara fyrir blómakassann og túnið sem hvarf heldur eiginlega fyrir að fá að búa hér. Soldið absúrd kannski! Ha? Maður er orðin svo háður því að ætla sér eitthvað (svo sænsk ætti ég kannski að segja), reikna með að rafmagnið virki, hitinn ljósin og talvan og vatnið, tevatnið tannburstavatnið baðvattnið og þvottahúsið. Þegar ég sé kolmórautt vatnslíki í baðkarinu verð ég móðguð og sár. Ekki nóg með að vatnið sé tekið af útaf breytingum heldur er það næstum svart þegar það kemur. Að bjóða manni í civiliseruðu þorpi að búa við svona vatn sem minnir á það sem silaðist stundum úr leiðslum frá dýinu í flóanum heima fyrir fimmtíu árum!

Eftir að ég missti túnið get ég bara skammast yfir smáatriðum eins og þegar gröfustrákarnir grafa óvart í sundur rafmagnsleiðslur og ég þarf á næsta bæ (= á Partille Bo skrifstofuna, þeim sem ég leigi hjá) til að þurrka dúnjakkann minn sem ég var að jólaþvo. Og þakkað fyrir að þurfa ekki svo mikið sem ýta á takka til að afþýða frystirinn, og fyrir að fá tækifæri til að nota ennisljósið sem ég er svo montin af að geta látið tolla á höfði mér yfir þriðja auganu og látið lýsa beint þaðan. Og fyrir hver vel ég hef sloppið við alvarlega hvirfilvinda jarðskjálfta, stríðástand eða skyndilegan heimilismissi af öðrum ástæðum fram að þessu.


En ég skildi ekki hvað var að gerast, skildi ekki teikninguna sem ég fékk senda með lýsingum á yfirvofandi framkvæmdum, ekki fyrr en daginn eftir að Mats kom í heimsókn í nóvember og spurði hvað ætti að fara að byggja á grasflötinni milli húsanna hér ... Byggja! það er ekki hægt að byggja hér, þetta er túnið mitt! Mikilvægur þáttur í mínu lífi með litlum trjálundi ...


Svo komu þeir með gröfurnar rifu allt, tré og gras allt sem er grænt. Það á að breytast í bílageymslu. Það kemur gerfigras á þakið er mér sagt. Það geta víst vaxið blóm á gerfigrasinu sagði mér stúlkan hjá Partille Bo. Megum við þá vera úti á þaki eins og í Buenos Aires? Nei, við vorum soldið að spá í það þegar við skipulögðum, en hættum við. Gerfigrasið verður mjög viðkvæmt alla sína tíð, verður að fá að vera í friði til að blóm geti vaxið ...

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Svo þú getir vaxið...

ekj

3:11 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

ha?

2:01 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

já, akkúrat!

3:43 PM  

Post a Comment

<< Home