Danskúltúr á Polketten
Það er ekki bara ein menningarnótt hér í bæ heldur ein vika. Vikan sem leið. Tónleikar á öllum torgum miðbæjarins og boðið uppá eitt og annað í menningarstofnunum Gautaborgar. Á Liseberg var ókeypis aðgangur öll kvöld vikunnar og danshljómsveitir að troða upp í löngum bunum - minnst fjórar á kvöldi - og dansað á tveim útidansgólfum. Polketten er annað þeirra (þar er dansað öll kvöld á sumrin) það er undir þaki og þangað flýr fólk af bráðabirgðadanspöllum ef rignir. Sænsk Dansbandsmusik eins og hún er kölluð, býður helst upp á þetta skandinavíska tjútt sem er sjaldan fallegt að horfa á en góð þjálfun fyrir fætur og snúningsvitið. Og svo foxtrott. Alltaf til skiptis, tveir af hverjum. Og þetta er kallað að dansa modernt (!) er mér sagt af þeim sem kunna sig í svona samhengi.
Mér finnst frekar óþægilegt að horfa á þann foxtrott sem flestir dansa á Polketten. Haldið er líkt og í amerískum polka eða ef til vill sænskum polskadans, báðar hendur hans á baki hennar og hún með sínar báðar á herðum hans. Þetta er venjulegast. Einstöku konur láta aðra höndina lafa niður með eigin líkama og þá veit ég ekki hvort hún er að hvíla sig eða sýna að hún komist af án hennar. En svo eru til karlmenn sem halda annari hendinni bak við hnakka konunnar, stundum á þann hátt sem hlúð er að höfði hvítvoðungs með hendinni og stundum eins og til að vernda höfuð hennar í umferðinni á gólfinu, með olnbogann útí loftið til að ota þá öðrum höfðum frá. Það getur verið sjarmerandi að sjá, en minna sjarmerandi að horfa á læraflétturnar með tilheyrandi mjaðmarúlli. Í salsa getur mjaðmarúllið verið sætt og sensuelt, en hjá foxtrottfólkinu á Polketten finnst mér það meira klúrt - sumir eru einsog fastir í hver öðrum jafnvel milli laga - eitthvað sem fólk ætti bara að stunda heima hjá sér hugsa ég þá og sárnar það skuli trufla mín fínfínu augu með því sem ætti að vera heimavinnan þeirra!
Í gær gerði ég aðra tilraun í þessari viku til að aðlaga mig þessum danskúltúr, en ég verð svo miður mín í foxtrottinu, hvort sem ég er á gólfinu eða fyrir utan, að það þarf mjög góða og blíðhennta tjúttara til að koma kökknum uppúr hálsinum á mér eða norður og niður. Fyrra kvöldið var ég heppin, en í gær var lítið um bjargvætti fyrir mig. Til að enda ekki með kökkinn einn, fann ég þó einn músikalskan til að snúa mér áður en ég flúði úr skemmtigarðinum og rölti gegnum hljóðveislu miðbæjarins.
En í kvöld er salsa á Polketten. Ég ætla að hjóla í bæinn skoða rósirnar í Trädgårdsföreningen með vinkonu minni Anna Mattson. Og svo sé ég til!
6 Comments:
Vonandi verður "lærafléttan" huggulegri í salsanu.
Skemmtu þér vel við garðaskoðun og að dansa salsa.
Þín Bogga
Takk takk. Við gleymdum okkur í garðinum! Rósirnar voru svo fínar enn og fullt börnum og barnaleikhúsi ... með drekum og æðrum dýrum. Ég hjólaði og hjálaði heim til að ná fyrir myrkur svo 25 km hjólreiðatúr verður að nægja mínum lærum í dag!
...og öðrum dýrum, meinti ég! Það er æ undir öinu á mínu lyklaborði þegar ég skrifa á íslensku og ég ruglast æ oftar
"hjálaði" veit ég hinsvegar ekki hvort þýðir hjólaði eða hjólaði með hjálm.
textinn þinn um dans er alltaf að verða safameiri og endar sjálfsagt sem dans.
ekj
já, það er víst líka til tyrkneskur Fox trot. Og ragtime þarf ég að skoða betur og alla swingdansfjölskylduna sem slíka, en ég er búin að finna dans sem ég ætla að dansa i ellinni og hann heitir "balboa". Það er tangó tjúttaranna eða réttara sagt Lyndy-hopparanna.
Post a Comment
<< Home