My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, July 24, 2007

Æviágrip 8

Frú Holmer vildi nemendum sínum allt það besta, geistist um heiminn fann frumlega gestakennara og sendi okkur svo í leiðangra sem hétu studierejser á enn frumlegri námskeið strax á fyrsta ári.

Og áður en það ár var liðið vorum við meðal annars búin að fá tékkneskan gestakennara sem hún hafði fundið í skóla Labans í London. Við kölluðum hann Ferró og hann fékkst við hreyfisálfræði, heilt heimspekikerfi eða hugmyndabygging fyrir sviðslistafólk og átti að gera manni kleyft að skapa á annað hundrað karaktera bara með því að breyta samsettningunni á nokkrum grundvallareinkennum, einsog hraða og takti í hreyfingum; flæði, tregðu og mótþróa, afstöðu til rýmisins og öðrum takmörkunum svo og takmarkaleysi. Við vorum teygð og toguð til að aðlaga okkur hugtökunum, áttum helst aðlengjast eða fara úr liði fannst manni stundum við tilraunirnar og allur þessi fjöld karaktera voru markmiðið. Til að gera gáfulegt sýstem gáfulegra var það klippt út í pappa - bókstaflega - og nokkrum pappaspjöldum raðað saman eins og gestaþraut og með orðum á hverju horni, eiginleikanöfnum leiðbeinandi fyrir karakterana sem svo var hægt að laða fram með hliðsjón af pappasýsteminu. Það yrði bara spurning um sjónarhorn, þ.e. úr hvaða átt var horft á módelið.

Þegar Ferró fór sátum við uppi hvert með sitt hálfkláraða pappamódel. Þetta var víst bara byrjun á nýjum aðferðum þess tíma, eða þá að laban-nemandinn var ekki kominn lengra í námi. Það varð úr að frú Holmer ákvað í samráði við okkur að fá hann aftur þegar kerfið væri komið betur áleiðis og við gætum kannski lokið við hálfnuð í pappamódelin og fengið meiri glóru í þau.

Hans var í varnarliði hreyfisálfræðinnar og væri verið að gantast með kerfið eða gera lítið úr því sagði hann með auðheyrilegri virðingu í rómnum: Þetta er náttúrlega heilt heimspekikerfi sem enginn lærir á tveim vikum. Og sannleikurinn er sá að eitt og annað síaðist í mig og átti eftir að fylgja mér gegnum árin. Ferró var ekki bara með módelavinnu og teygjur í kyrrstöðu, hann demdi líka á okkur spurningarlista sem við áttum að spyrja sjálf okkur og leita svara við helst á hverjum degi, stórar spurningar um markmið eins og Hvað viltu með lífi þínu? Hvað viltu með list þinni? Hvað viltu á sviðinu?

Vitanlega var ekki heldur galið veganesti að fá hugmyndir um hvernig hægt var að vinna karakter út frá skilgreindum hreyfingum, í stað þess að láta hann mótast út frá tilfinningum sem komu af að lifa sin inn í ákveðnar krigumstæður.

Ég er ekki frá því að við höfum verið eini bekkurinn sem ekki fordæmdu kenningarnar einróma – eða kynninguna á þeim - enda akademískur andi í meirihluta í mínum bekk, þótt innlifunarhugmyndir Stanilawskij og bein samskipti við eigin orðlausu undirheima, ættu ekki uppá pallborðið nema hjá hverfandi minnihluta (jafnvel mér einni)*. Útávið vorum við hinn pólitískt meðvitaði hópur, með Hans í öruggum meirihluta.

*

Frá París kom annar gestakennari - ekta mímari - látbragðsleikari í anda Jacues Lecoqs og Marcel Marceau. Hann var ekkert að orðlengja sína list, það voru konkret æfingar í jafnvægislist og einangrun hinna og þessa líkamshluta og stakra vöðva; bara nota það sem þurfti og búa til hreyfingar sem í dag tilheyra danslistinni ekki síður. Að segja heilar sögur með líkamanum, búa til vængjaðar verur og samtöl með eða án orða þar sem hoppað er milli hlutverka tilheyrði þeirri látbraðslist var vissulega hélt áfram að vera eitt mitt veikasta fag, en einn aðalkosturinn við gestakennara var að þeir töluðu ekki dönsku. Frakkann kölluðum við Séra með áherslu á ainu og hann var alger andstæða Ferrós, hér var nákvæmnisvinnan sýnileg í öllum líkamanum og engin gestaþraut. Auk þess streymdi stöðug birta frá Séra þannig að í endurminningunni finnst mér alltaf sumar þegar hann kom, enda bjó hann oft til fiðrildi sem flögruðu frá honum og þó ekki alla leið, hann gat handsamað þau án þess að klessa vængina.

Það var stanslaus sýning í gangi og það var heillandi. Þótt maður réði ekki við nema bara brot af því sem var takmarkið hverju sinni, þá var það í lagi hjá Séra, alltaf var eitthvað sem tókst þótt ekki væri nema kippa til augabrún útaf fyrir sig, eyra eða eins og einum nýfundnum lærvöðva. Í stað pappamódels hjá Ferró varð skilduverkefnið hjá franska látbragðsleikaranum að leíka Cólumbínur og Harlekína, taka til sín hlutverk í klassískum suðurevrópskum kómedíustíl -Commedia dell´arte - og spinna leikinn saman án þess að detta út úr hlutverkinu.

*

***

Skýring:

“Laban skólinn” er kenndur við Rudolf Laban (1879-1958), sem talinn er einn merkilegasti hugmyndafræðingur hreyfilistarinnar á síðusu öld. Hann einbeindi sér m.a. að ritþma og rými, og mynstrum í rými, jafnvægi í ólíkum myndum. Hann vann útfrá hreyfingum í rituölum og dansi og skoðaði einnig sálfræðileg árhrif hreyfingar. Og hann skapaði kerfi til að skrá dans: Kinetography Laban.

http://members.shaw.ca/laban_for_animators/laban.htm

http://www.laban.org/

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

merkfilegtr, égþarf nú að lesa þetta aftur, önnur andvökunótt, og var að vakna, en gaman að lesa og sérstaklega þegar menn eru að reynda búa til kerfi,

og spurningar.

keep it real, hef samband, ekj

2:51 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

jebb ... það er skringilega skemmtilegt að skrifa þetta; ætti samt kannski að skoða kerfið betur. Ha?
Leitt þú skulir andvaka ... áttu ekki meðul?

ástarkveðja/kb

3:06 PM  
Anonymous Anonymous said...

jú, ég tók svefntölu um miðja nótt, svo er ég heví þunglynd núna og líkaminn einsog kassi eða klettur og bullandi sjálfsvorkun,

las þetta aftur, þetta er gott hjá þér, tveir menn svona sem koma inn til krakkanna, pólitísku krakkanna og eins innlifunarkrakka.

okeibæekj

3:39 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Tak takk, elsku klettakrakki!

4:37 PM  
Anonymous Anonymous said...

liggur við ég sakni þín, ha ha ha. komið myrkur, kannski get ég sofið í nótt, alexía og jóhanna eru á leiðinni, gleði gleði gleði, linda á að hafa komið í dag, hún fær smá svefnfrið. skrifaði hálfan kynlífskafla í dag. sendi þegar hann er búinn. er á leið í háttinn. þín elísabet.

1:43 AM  

Post a Comment

<< Home