My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, July 10, 2007

Æfiágrip 2


Og áður en ég veit af er ég komin á bólakaf í leit að lífi mínu eins og það lagði sig á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar. Þegar Glaumbær brann var ég löngu hætt að ganga í grænu heimasaumuðu ballfötunum mínum og hjúfra mig að Sálfræðinema í sumarfríi. Hrifning mín á Troskíistum útrunnin en ég gekk í felulitafötum árum saman, stórum hermannaskyrtum og öðrum víðum fötum líkt og Marilyn á ljósmyndum frá Milton-Greene tímabilinu.

Sumarið sjötíu og eitt var síðasta sumarið mitt heima á Íslandi um langt skeið, ég vann hjá Sölusambandi Íslenskra Fiskiframleiðenda þar til ég fór út og bjó hjá Ásgeiri, vini mínum úr næst næstu sveit fyrir norðan. Hann var að ljúka íslenskunámi og var með aukaherbergi undir súð ofarlega á Laugavegi. Þar fékk ég inni gegn því aðalega að hlýða honum yfir. Ég var mjög hissa eitt sinn á sunnudagsmorgni þegar hann mundi ekki neitt. Hann með heiftarlegt glóðarauga og mátti vart mæla, svo bólginn eftir nótt með vinunum. Undarlegt því þessi maður var aldrei nema ljúfmennskan og kunni að segja þjóðsögur af ýmsum gerðum, oft um leið og hann samdi þær.

Við fórum saman austur fyrir fjall síðsumars og einhverstaðar á grasafjall. Fjallagrös hafa alltaf heillað mig og ég held það sé útaf hvað þau sjást illa á jörðinni frekar en útaf Jónasi. Maður heldur að þau séu jörðin sjálf sérstaklega ef rignir og rótleysið eitthvað svo ótrúlegt. Áður en ég fór til Danmerkur í ágústlok laumaði ég grösum í flestar dollur og ýmsa bauka sem ég fann í eldhúsinu, allt sem var með loki, svo þau kæmu honum á óvart en ekki öll í einu. Líklega hefur mig langað til að vera eitthvað um kyrrt í lífi hans þótt ég færi. Hann var sá sem las mín allra fyrstu ljóð, ástarsorgarljóð úr Reykjavíkinni, eitt til Sálfræðinemans og annað til Fótarins. Þú skalt gera meira af þessu, sagði Ásgeir. Ha? Gerðu meira svona, sagði hann og rétti mér ljóðin alvarlegur eiginlega án svipbrigða. Ég var hreint ekki viss hvað hann meinti, hafði ekki hug á að eyða lífinu í ástarsorgir og það var nú átak útaf fyrir sig að sýna honum mitt hjartans mál. Hann sagðist meina að ég ætti að ég ætti að gera meira af því að skrifa ljóð. Það var það fallegasta sem hægt var að segja við mig og ég svaraði með fjallagrösum.

Þetta sumar var ég hætt að hitta fólkið í Sörukommúnunni við Laugaveg, frumlegi og síbrosandi Diddi fiðla sennilega fluttur og Fóturinn ekki lengur minn, en hann hafði ekki bara gefið mér nýjan sjóndeildarhring, hann hafði líka gefið mér Shakespeare í tveim bindum, þessar fínu þýðingar á íslensku. Ég var sérlega upp með mér af þeirri gjöf, hún var bæði viðurkenning á leiklistaráhuga mínum og ástarjátning. Um leið vissi ég að mér hafði pottþétt tekist að leyna Fætinum því að ég kynni ekki að lesa leikrit, gæti sjaldan séð nokkuð fyrir mér útfrá replikkum, ég þyrfti að fá söguna sagða á annan hátt til að vita um hvað fólkið væri að tala. Það var alveg eins og í lífinu. Orðin sem komu úr munnum fólks sögðu mér ekki mikið annað en: nú talar hún eða nú talar hann og svo í hvernig skapi hin talandi manneskja var, það gat heyrst á tóninum. En ég gat sjaldan hengt orðin upp á einhvern raunveruleika. Þess vegna lá leið mín inn í leiklistina.


***

Ásgeir var Ásgeir S. Björnsson (f. 12.des. 1943, d. 20. ágúst 1989). Höfundur og meðhöfundur ýmissa rita, m.a. um frásagnarlist undir titlinum "Eitt verð ég að segja þér ..."


4 Comments:

Blogger Elísabet said...

jæja vinan elskuleg, þetta er skemmtilegt, rennur vel, falleg þessi fjallagrasasaga, svona nútíma fjallagrasasaga, og um stelpu sem veltist milli manna í ástinni og er með hendur að leita eftir einhverju föstu og hefur fundið það í leiklist en skilur bara sögu og auðvitað er leiklistin saga.

cero. skemmtilegur myndrænn flæðandi texti og mann langar að heyra meira, jafnvel úr bókinni hans Ásgeirs. en það koma semsagt myndir.

líka svona myndir sem flökta... af ungu fólki.

mig langar í gosdrykk. ;)

2:54 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Súpertakk fyrir komment!
já flest er saga, bara ef húner lesin - meira að segja stærðfræðin er saga segja stæðfræðingarnir - Takk fyrir að lesa mín kæra!!! mér fannst þetta alltíeinu vonlaust klassísk ævisaga og kannski er það bara meiningin. Gott þú sérð myndir bæði flöktandi og heilar.

ætla að fá mér hjónabandsælu með kaffilattinu ;)

3:56 PM  
Blogger Elísabet said...

Klassísk ævisaga er þegar Napóleon vann stríðið og tapaði öðru.

Get ég fengið meira um að stærðfræðin sé saga.

fékkstu lukkubangsaíemil frá mér.

4:40 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

búin að svara lukkubangsameili!
hm sko, ég er ekkert að huxa í stærðfræði; hann Jökull þinn getur hinsvegar örugglega komið með góða dæmisögu, þ.e. annað hvort búna til úr dæmi eða dæmi í sjálfu sér.

9:11 PM  

Post a Comment

<< Home