My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, July 09, 2007

Æfiágrip

Svo margir horfnir frá þessum árum. Danmerkurárunum mínum. Og ég sem lofaði Auði að senda æfiágrip ásamt yfirliti yfir greinar eftir mig, greinar um dans á sænsku sem ég ætla líka að senda henni. Hvernig æviágrip? Og hvernig að muna æfina mína nú þegar ég er orðin ein með svo mörgum augnablikum í henni. Ég er að hugsa um augnablikin sem ég átti með þeim sem horfnir eru og kannski öll augnabikin sem ég átti án þess nokkurntíma að lýsa þeim. Án þess að þýða þau yfir á mannamál. Hvað man ég?

Mér skilst að nú sé meira að segja Christiania að hverfa. Hún byrjaði árið sem ég flutti til Danmerkur og byrjaði í leiklistarskólanum í Óðinsvéum, Odense teaters elevskole. Það var árið 1971 og Dísa vinkona mín frá Eyri við Ingólfsfjörð hafði komið sér fyrir í kommúnu á Amager; örstuttur göngtúr frá henni yfir í Loppen á Christianiu.

Hvað man ég og hver er ég sem man? Goðsögn, útskýrði eiginmaður minn númer eitt löngu eftir að hann hætti að vera eiginmaður minn og þá varð ég hissa. Hafði ekki hugsað svo skýrt. Þú varst líkt og Merilyn Monroe fórnarlamb goðsögunnar um kvenlega fegurð. Það var goðsögnin um þig sem karlmenn voru að leita að, og héldu sig stundum finna; þeir sáu þig ekki, þeir voru yfirleitt blindir af hugmynd.

Þessi túlkun á lífi mínu sem ung og áhugaverð, útskýrði auðvitað af hverju mér gekk oft illa að tolla í lífi annara, þrátt fyrir eigin hrifnæmi. Ég hélt þetta hefði verið tíðarandinn, þetta með að byrja á ástarsögum sem maður kunni ekki að enda og lét bara enda í lausu lofti, án afbrýðisemi án loforða án þess að gera kröfur; ást í anda Eriks Fromm. Ég hélt það strax þá, las “Kunsten at elske” spjaldanna á milli.

En fyrstu jólin mín í Danaveldi notaði ég til að heimsækja Dísu og Ikram indverska manninn hennar sem eldaði indverkskan mat og sauð panbrauð á aðfangadagskvöld. Jólanótt eyddum við svo á Loppen, borðuðum gráfíkjur og hlustuðum á Jazz. Það hentaði mér, það lá eitthvað í loftinu sem hentaði mér. Hafi heimaræktaða teið hjá nágrananum í kommúnunni verið dóp einsog hann fullyrti, þá það. Ég fann ekkert á mér af því. En mér leið vel í Christianiu.

http://www.christiania.org/

Fann eftirfarandi klausu annarstaðar á netinu:

”Christanias Fødsel:
Christianias historie har været broget og lang med sejre og nederlag. Mange af de mennesker, der var med til at bygge fristaden op, er der ikke mere. Det startede i 1971, hvor en gruppe Christians-havnere væltede et plankeværk, der stod på hjørnet af Prinsessegade og Refshalevej lige ved den grå hal. De ville have en legeplads til børnene i kvarteret og lidt grønt at se på. Det interesserede mange unge, og de kom fra nær og fjern, og senere fik de opbygget et minisamfund baseret på fællesskab og frihed.”

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Já, skemmtilegt, heldur manni, sterk unduralda og magnaður tónn, maður veit líka þú ert einhverstaðar frá silungsvatninu en veit ekki að Dísa er frá undarlegum firði lengst norður á Ströndum,

en kynþokkafull skrif, - og mann langar að vita meira.

hvað þýðir að tolla ekki í lífi annarra.

helsti kostur hvernig þú blandar skáldskap við raunveruleikann einsog þetta með augnablikin,

besta kveðja í bili, nývaknaði lukkubangsinn

2:37 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Takk takk kærar þakkir lukkubangsi! sem þekkir þessa undarlegu firði ... Góð spurning, hvað þýðir að tolla ekki í lífi annara ... ætla að spyrja höfundinn, sem langar bersýnilega svona til að festast í lífi annarra!!! hahah.

2:49 PM  
Anonymous Anonymous said...

Kannski vill sögukonan bara vera þar um kyrrt í hvert sinn sem hún verður ástfangin, en þó vera frjáls, líkt og í Tangó.

2:50 PM  

Post a Comment

<< Home