My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, July 20, 2007

Æviágrip 5

Það var kolniðamyrkur kvöldið sem ég kom fyrst í H.C.Andersens bæinn og bað leigubílstjórann að finna fyrir mig farfuglaheimili sem næst leikhúsinu. Daginn eftir fann ég áfangastað minn í jaðrinum á Kongens Have. Leikhúsið stóð við Jernebanegade og að götunni snéru auglýsingakassarnir með risastórum svarthvítum ljósmyndum af leikurum í hlutverkum sínum, fleiri en ein með titlinum Lille Claus og store Claus. Ekki um að villast að eitt ævintýrið eftir son skósmiðsins danska var á fjölunum um þær mundir. Bakdyr voru út í konungsgarðinn með dramatískum trjám á ýmsum aldri. Eitt þeirra breiddi undarlega úr sér, með sveigðum greinum sem leituðu til jarðar og inn við stofninn skuggsælt skjól.


*

Leiklistarskólinn var innanhúss í sjálfu leikhúsinu - Odense Teater - næst elsta starfandi leikhúsi í Danmörku, stofnað fyrir aldamótin 1800. Það fannst mér lokkandi frá upphafi, að fá að fylgjast með æfingum og horfa á leikarana líka utansviðs ...

Þar fann ég rektor, frú Grethe Holmer sem tók á móti mér í allri sinni morgundýrð. Hún hélt stuttan fyrirlestur - fyrir mig eina - um Önnu Borg sem hún elskaði og dáði, talaði um hana sem vinkonu sína. Frú Holmer var konunglegt balletbarn og fékk líka sína leikaramenntun í skóla Konunglega Leikhússins í Kaupmannahöfn þar sem Anna Borg starfaði, íslenska stjarnan sem hafði brillerað þar í hlutverkum eins og Margrét í Faust og Anna Boleyn i Cant eftir Kaj Munk. Hún fórst í flugslysi eins og Carlos Gardel, bara átta árum áður en ég byrjaði að fikra mig inn fyrir þröskuldinn í dönsku leikhúsi. Leiðið hennar var á Maríubjargi, kirkjugarði í Gentofte, þar hvíldi hún nú við hlið lífsförunautarins Poul Raumert.

Líkt og Anna Borg sem var leikarabarn þá var frú Holmer fædd inní leikhúsheiminn, dóttir leikhússtjóra að nafni Einar Linden, en Holmernafnið hafði hún frá móður sinni. Á stríðsárum byrjaði hin unga Grethe feril sinn; útskrifuð úr Det kongelige Teaters elevskole 1943 og lék sama ár í sinni fimmtu kvikmynd. Nú nálgaðist hún fimmtugt og var fyrrverandi kvikmyndastjarna með minnst tuttugu kvikmyndahlutverk að baki. Ég átti eftir að dást að því á hverjum virkum morgni í þrjú leikár hve glóandi upplögð hún gat verið þegar flestir aðrir mættu með stírur í augunum. Hún mætti geislandi fögur, virtist vakna með málaðan munn og auk þess mælsk. Hún var gift leikhússtjóranum Kaj Wilton en það hlaut að vera aukaverkun dýrðarinnar fremur en ástæða. Frú Holmer var raunar alls ekki hætt að leika, hún hægði bara á sér um tíma, tók þátt í upphafi leiklistarkólans sem var stofnaður árið 1963 og tók við stjórn árið eftir.

Frú Holmer skyldi þérast og hún þéraði til baka, það var gagnkvæmur virðingarvottur. Þéringarnar höfðu þannig uppeldisgildi skildist mér og ég þóttist heppin að hafa æft þéringar hjá Hildigunni í leðurvörudeild Hljóðfærahússins, mínum allra fyrsta vinnustað í Reykjavík. Þegar skólinn byrjaði var frú Holmer einatt nærverandi, hélt morgunnfund í skóladagstofunni dag hvern með hverjum bekk fyrir sig. Hún lýsti skoðunum sínum og áformum, markmiði kennslunnar hverju sinni og hlustaði á óskir nemenda, álit og gagnrýni. Hennar mottó var: Vi har ikke Demokrati, vi har det der er bedre!

Hans Bay einn af þrem bekkjarbræðrum mínum, vitnaði oft sposkur í mottóið og var með orðaskýringu í lagi: ”det der er bedre” end demokrati, vad er så det? Jú, sjáiði til, það sem er betra en lýðræði í huga frú Holmer, það er Einræðið!


*

Það kom ljósmyndari frá Fyens Stiftstidende daginn sem skólinn var settur, rauk upp á svalir og tók loftmynd af okkur nýliðunum. Mín tilvonandi systkini slógu hring um mig og þar stend ég enn á myndinni í miðju littla hringsins á minni víðu felulitaskirtu og góni upp í loftið eins og miðdepill heims í gömlu ljóði.



***

Grethe Holmer (f.1924 - d.2004)

Kaj Wilton ( f. 1916- d.1980)

Anna Borg (f.1903 - d. 1963), dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu.

Poul Raumert (f.1983 - d.1968)


6 Comments:

Blogger Elísabet said...

já skemmtilegt, mann langar í meira, og meira um leikhúsið og þetta tré situr eftir, maður sér þig stíga beint úr silungavatninu og að þessu tré.

skrifa meira á morgun, ég er þreytt, en þetta er svakalega skemmtilegt hjá þér.

gallabuxnapían þín, þín elísabet

ps. dó annaborg í flugslysi???

4:30 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Já tréð er tengt svo merkilegum minningum ... ég þyrfti að gá hvort það stendur enn, það var komið svolangt niðurávið síðast ...

Sofðu, sofðu vel, elsku nátttröll og takk fyrir að kommentera

4:40 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Anna Borg omkom ved en flyveulykke ved Fornebu lufthavnen. Hun var ombord i et passagerfly fra Icelandair som styrtede ned ved Oslo. Alle 12 ombordværende omkom.
sjá: http://www.danskefilm.dk/index2.html

4:48 AM  
Blogger Elísabet said...

eins gott maður hafi ekki verið að flækjast neitt til osló,

ég er hinsvegar í einhverri dómkirkju í noregi, niðarósi já.

alltígóðu, ekj

2:41 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Jæja blíða blóm,hvernig ertu þar? í hvaða efni eða anda?
(=ég var að spá í að fara sjó eða landleiðina þangað og þá væri gaman að finna þig)
K

3:34 PM  
Anonymous Anonymous said...

þegar ég kom í kirkjuna í lundi vissi ég að ég hafði verið þar áður en samt ekki þar, þá var mér sagt að það væri tvíburakirkja í niðarósi og ég hafði verið þar.

skemmtileg sagan að frú holmer.

og þér sem miðdepli alheimsins.

gaman líka að segja hryllingssögur og sögur af önnu borg þegar maður tekur á móti nýnema.

valta yfir með gamalli leikkonu.

og gott niðamyrkur í upphafi þegar birtustelpan kemur af íslandi.

eljússabetsí

7:37 PM  

Post a Comment

<< Home