My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, July 17, 2007

Æviágrip 4


Júdith var sú sem tók að sér að túlka leikritin fyrir mig. Segja mér sögurnar sem samtölin spruttu úr eða inní. Júdith Rothenborg. Við vorum sjö bekkjarsystkinin. En þegar ég gúggla mig fram til að sjá hvar þau hin eru í heiminum í dag, villist ég inn á heimasíðu skólans og sé að þar eru bara fimm nöfn. Eins og ég hafi ekki verið þar! Eins og búið sé að svifta mig þrem árum úr lífi mínu! Þetta er óskiljanleg ósvífni og ég skrifa leikhúsinu strax í dag, sama þótt það sé sumar og flestir nokkuð örugglega í fríi. Það vantar ekki bara mig á listann, það vantar líka nafnið Lene Theiss. Lene sem var fimleikagarpur bekkjarins og dreif mig með sér heim - með ferðatösku og allt - fljótlega eftir að skólinn byrjaði svo ég þyrfti ekki að búa veturlangt á farfuglaheimili. Lene sem seinna lék tungl með glitrandi brjóst þegar ég lék titilhlutverkið í Bag ved stigen blomstrer en rose.


Það var á Verkstæðissviðinu; mitt fyrsta stóra verkefni í atvinnuleikhúsi, lokárið í skólanum og um leið ein af fyrstu sýningunum sem Jan Maagard leikstýrði við Óðinsvéaleikhúsið, að frátöldum nemendasýningum. Ég lék rósina Rose með mjallahvíta hárkollu og í sirkusfötum. Ég var hlekkjuð við sirkusheim í bókstaflegri merkingu sem aðstoðarkona töframanns. Hans Bay lék kryppling en fleiri skólasystkin voru ekki með í þessari frumlegu og ljóðrænu sýningu sem fékk fína dóma í fjölmiðlum. Höfundur leikritsins lék trúð og lagði stundum höfuð sitt í kjöltu mér og við horfðum saman á tunglið. Hann hét Arne Bjørk og var í alvörunni leikari að lesa guðfræði. Hann langaði burt frá leikhúsinu sagði hann. Ég held hann hafi aldrei komist lengra burt en listin sem hann var hlekkjaður við.

Lena lék margt annað en heimsins kynþokkafyllsta tungl, áður en hún gerði myndlist að aðalstarfi nokkrum árum eftir skólann. Og hún kom til Íslands og var svaramaður Jans þegar við giftum okkur, hljóp um allt Sæfellsnes með mér það sumar blíndi með mér á sólarlag og sofnaði með mér á mosaþúfu undir morgunn. Við vöknuðum með hroll og bönkuðum uppá hjá bónda nokkrum sem gaf okkur glóðvolga mjólk í morgunsárið...

*

Þetta verður að leiðrétta, það ætti ekki að vera hægt að stela þrem árum úr sögu manns og gera hana ósýnilega með því að breyta sjö í fimm.

Kæri skóli skrifa ég:

Jeg ser på den ellers fine hjemmeside att det savnes navne i Elsvskole Historien.
Jeg kan ikke tro det er med vilje, det må være et mistag.
Åren 1971 - 1974 står: Jannie Faurschou; Peter Vincent; Judith Rothenborg; Torben Zeller; Hans Bay. Dette er kun 5 af oss 7 elever under samma period. De navne som saves er:
Lene Theiss og undertegned ... Vi tog begge to avgansexamen fra Odense Teaters Elevskole 1974 efter tre års elevtid. Det må finnes dokumenteret, det er viktigt selv om vi ikke arbejder med teater i dag.
MVH Kristín Bjarnadóttir

*

Júdith er með í sögunni. Hún var alltaf í fötum sem pössuðu. Litríkum en í þvílíkri harmóníu frá toppi til táar að tekið var eftir. Aldrei eins og hún færi í vitlausa sokka við síðbuxurnar, allt var í stíl og virtist þaulhugsað. Eins og stúdentauppreisnir og hippatímabil hefði ekki snert hana nema þá með litríkinu. Hún hafði verið þula við Danmarks Radio, var með djúpa rödd og fullkominn framburð. Landsþekkt rödd í Danmörku en sagði upp til að verða leikkona. Og það kom sér vel fyrir mig, hvernig hefði annars farið með Hómer og hans hexameter í mínum haus! Júdith endursagði söguljóðin, Illíonskviða og Ódysseifskviða komu til mín á skýru nútímamáli og hún heklaði hugmyndaríkar orðaskýringar þegar danskan mín reyndist orðaforðalítil. Allt með sinni djúpu svolítið hásu rödd meðan hún prjónaði eða reykti. Þegar hún hætti að reykja þá prjónaði hún í sífellu, litríkar flíkur á sig og pólska kærastann sinn með feimnu augun. Sama með harmleikina grísku, hún las þá og útmálaði fyrir mér og ég komst upp með að læra bara fáeinar replíkkur og láta mig blómstra í þeim. Eða kannski var það svo að ég blómstraði ekki beinlínis nema ég fengi sæmilega langan og dramatískan mónológ að springa út í?

Tveir kennarar höfðu sérstök áhrif á mig í þeim efnum, hver með sitt svar: Leikkonan og kabarettsöngkonan Lulu Ziegler (1903 – 1973), sem tilkynnti mér að ég væri einsog gerð til að standa ein á sviði og Jan Maagaard sem var fljótur að sjá hverskonar samtölum ég gæti notið mín í og með hvaða leikurum. En fyrsta árið mitt í skólanum var hann enn víðs fjarri.

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ég var gerð til að standa ein á sviði.. þetta er nú efni í heila bók, eða leikrit, ótrúlega fallegt og margrætt,

og sváfum saman á mosaþúfu, þetta er einsog skáldsaga, sjö líf, vantar tvö líf, og þetta er einsog skáldsaga að því leyti að þetta er um fólk og sagt þannig frá því,

allt verður spennandi, líka svona leikhús-mál, sem gæti virkað sérhæft en þú gerir aðbgengilegt og maður getur aldrei hætt að lesa um rósina sem horfði á tunglið og þá sögu og vildi bara fá meira,

SKEMMITLEG, TAKK, og gaman að fá heyra um þessa fortíð, þú hefur verið hörkukvendi og dugleg,

ekj

5:53 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

TAkk ... ég fer hjá mér!

en já ég er einmitt að gúggla mig inn í þessi líf ... og búin að fá svar frá leikhúsinu!

6:41 PM  
Blogger Elísabet said...

mér fannst einmitt sniðuggt að hafa bréfið með.

ég er hérna í reiðileysi heima, bara gefa kaffi og yrkja ferskeytluer og var að fara yfir textann minn, sé að þetta lengra komið en ég hélt,

stundum eru þessar pásur nauðsynlegar, en hlakka tilað heyra frá þér með kaflana þrjá humm og ha, húllíbúllíkrúllikrú.

8:05 PM  
Anonymous Anonymous said...

Gott hjá þér að gera athugasemd við að fella ykkur Lene niður og þar með þrjú ár úr lífi ykkar, engum á að líðast svoleiðis.
Þín Bogga.

8:52 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Jess, og nú er komið svar ... ég sýni ykkur bráðum, og loforð um að laga um miðjan ágúst! svo það er bara að fylgjast með á síðunni þeirra: http://www.odenseteater.dk/
+ 3 stig: skoler - skuespillerskolen og elever.
Annars er varla snefil að finna úr leikhússögunni á svona síðu, bara hvað er í gangi á líðandi leikári og kannski næsta. þá stendur Leikfélagið á Hólmavík sig betur!!!Er með á hreinu hvað var sett upp hvert ár. (Raunar soldið styttri saga).

11:03 AM  

Post a Comment

<< Home