My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, July 23, 2007

Æviatriði 7


Fyrsta árið átti að vera einhvurskonar spunaár og það var að gera útaf við mig. Mér tókst ekki að spinna fyrr en á þriðja ári. Þá hafði frú Holmer loks komist í kynni við Johnstone hjónin, Keith og Inger og lokkað til sín sem gestakennara. Þegar þau komu gerðust galdrar í spunatækni og lífið var lauflétt og leikandi bæði á sviðinu og utan þess. Áðuren ég vissi af var ég jafnvel farin að brillera í ósýnilegu leikhúsi - þ.e. láta saklausa vegfarendur óafvitandi taka þátt í mínu spunaplotti – og hafði furðu gaman af.

En svo ég haldi mig við fyrsta árið og upphaflega áherslu á spuna, þá var það einn af okkar föstu kennurum sem tók að sér spunalátbragðskennsku sem ég botnaði aldrei í og sem því miður var fullkomlega fastur liður allan veturinn. Kennarinn sem var leikari við húsið eins og flestir okkar fastakennarar hét Benny Poulsen tæplega þrítugur fyrrverandi balletdansari sem gerðist leikari og var með fína upphitunartíma á morgnana sameiginlega fyrir allan skólann og árvökulustu leikarana. Það var ákveðin stemning í þeirri morgunleikfimi og sport í að gjóa augunum á aðra í fyrstu jafnvægis og lipurlegheitatilraunum dagins.

Í látbragðsspunanum þutu félagar mínir hinsvegar orðlaust eftir leiðum sem voru mér fullkomin torfæra. Engar stemningar engar tilfinningar en samt að segja sögur með sjálfum sér án orða. Hvernig sögur? Teikna í loftið með líkamanum og vera hugmyndaríkur var ekki mín deild. En það var kallaður látbragðsleikur. Hálfhugsuð og hálf spunnin sólóatriði ... ég fann engar reglur til að laga mig að og gat engar sögur lesið úr látalátunum. Aðrir virtust skilja til fullnunustu skilaboð sem ég hvorki heyrði nér sá. Ég skildi aldrei hvað var um að vera né hvað ég átti af mér að gera. Mér leið mér svo illa í þessum tímum að stundum fékk ég flog. Eða einhver flogalík köst sem báru mig burt og sem ég vaknaði loks uppaf, dúnmjúkt og einsog löngu seinna - yfirleitt á bekknum í dagstofunni sem einnig var fundarherbergi skólans - með minnst eitt bekkjarsystkin mér við hlið, Lene og Judith eða Hans og kannski Jannie eða Torben. Mér leið aldrei betur en í móðunni þá, sem minnti á ský eða dalalæðu og hægt að svífa þar í alvörunni án þess að finna til, komin úr myrkri. Mér leið undur vel til ég vaknaði alveg. Og þegar ég fékk að vakna svona rólega með umhyggjuna allt í kring hélt mér áfram að líða vel og meira var ekki ætlast til af mér þann daginn. Ferðin virkaði eins og endurnýjun. Þegar upp var staðið úr mókinu var ég orðin hrein og tær á líkama og sál rétt eins og ég hefði verið að leika heilaga Jóhönnu, búin að kasta mér á bálið og brenna upptil agna og komin til baka úr þeim heimi og inn í lífið sem líður.

Óskýrar línur, eða línur sem ég gat ekki lagað mig að, urðu þvílíkt eitur í mínum beinum.

*

Benny reyndist mér gáta öll skólaárin, ekki bara látbragðsaðferðin. Hann hafði dansað opinberlega sem balletbarn við það konunglega, sjö ára gamall og yfirgefið dansinn tuttugu og þriggja ára til að læra leiklist í Óðinsvéum! Allir elskuðu Benny nema ég, þótt ég finndi ekkert að honum nema hvað hann var óþægilega langur og mjór. (Ég var enn ekki laus við komplex út af eigin hæð, þótt Lene bjargaði mér með því að vera álíka há eða jafnvel hærri!). Benny lék seinna aðalhlutverk í söngleiknum Cyrano de Bergerac og dívurnar féllu fyrir Benny. Þegar en ein dansmærin í Tívolís Pantomimeteater yfirgaf Tívolí og gerðist leiklistarnemandi við Odense Teaters Elevskole, þá leið ekki á löngu þar til Benny og ballerínan- sem var lítil eins og skopparakringla miðað hann- voru orðin par! Eiginlega horfði ég þá á konuna hans Benny verða einstæða móður á einni nóttu og mér fannst það vond nótt og gátukend. Ég átti sjálf hálfsystur sem ég hafði ekki séð nema á mynd. Hún var skilnaðarbarn einsog barnið hans Benny var að verða. Þegar frú Holmer varð síðar ekkja eftir Kaj Wilton beið hún hinsvegar í sextán ár með að giftast honum Benny!

***

Johnstone sjá heimasíðu: http://www.keithjohnstone.com/

Benny Poulsen (f.1942 - d. 2004)


9 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Já Kristín, þetta er safaríkt með spunann og flogakastið, og enn langar mann að heyra meira, bara einsog hvað eru skýrar línur og hvað eru óskýrar línur,

hver er munur á spuna og spunalátbragði.

merkilegt heilagt flog.

og maður sér allt þetta fólk fyrir sér.

skemmtilegur texti líka, myndrænn, orðafallegur og flæðandi. takk frá elísabetu

6:19 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

þar varstu snögg! ég var einmitt að breyta smá í lokin og nú kom komment ...

hm ekkert einfaldar spurningar sem þú spyrð!

6:22 PM  
Anonymous Anonymous said...

þetta er auðvitað soldið þráhyggjukennt með systkinin sjö, tilhneiging manns tilað raða, stafla, hafa miðju.

þú getur tekið það þannig. eða öðru vísi.

tókstu því þannig þá?

við verðum að fá vita meira um hálfsysturina ef þú ert hún, þeas. þig.

farin að bulla. en manni sýnist þú ein af hópnum, þótt þú primmir soldið með flogakastinu sem er heldur ekki primm, en mjög athyglisvert, einsog þu komir frá annarri plánetu.

enn meira bull, ég er farin í sund.

já, það væri gaman að fá svona sálfræði í tengslum við flogakastið,

var þetta allt hið óvænta, eða var þetta kennarinn, leiddi þetta niður í undirmeðvitund þarsem voru silungar að stökkva í sumarnóttinni, barnið af íslandi, hálf kona, hálfur selur,

því þannig er það víst.

heitir daimons. sem kristnin þróaði í demon en er ekki demon heldur daimons.

bulli lokið. ég elska þig, örþreytt fröken Flores hnígur niður og knúsast.

6:50 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Vubbs! þar hittirðu naglann!
Nei þetta er eftiráhugsað!

sem barn hugsaði ég mest um að vera umskiptingur,
en ég er svona miðjusystkin sem þurfti að primma ...

Takk fyrir örlát komment, örþreytta fröken Flores og ekki synda langt ...

7:11 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Tilkynning: af því ég hef þau forréttindi að geta breytt textanum, hef ég notfært mér það hvað eftir annað í dag! Get ekki lofað að hætta að breyta ...

8:08 PM  
Anonymous Anonymous said...

það er líka gott að breyta seinna.

merkja stjörnu. breyta seinna.

halda áfram. gripinu.

synti 20 ferðir og fór í marga potta. allt annað líf.

ekj

10:00 PM  
Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir þessar frábæru frásagnir
frá Óðinsvéum. Mér finnst eins og tréð í leikhúsgarðinum sem þú lýsir hafi samsvörun við steininn okkar niður við Hópið.
Þín Bogga.

11:19 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Og norðurlandið að lesa mig beint í gegn! þetta var skemmtilegt, að frá kveðju frá "steininum". Ég hafði ekki hugsað út í þessa samsvörun Bogga... en héðanífrá verður henni ekki neitað; tveir magnaðir griðarstaðir sem gátu þagað yfir leyndarmálum ...

já og ég er rétt að fatta að ég hef kannski ekki sagt svo mikið frá þessum árum áður.

12:00 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Og til hamingju með nýja lífið, fjallablómið ekj ... og kafla nr. 10 sem ég las í kvöld!!! með kveðju frá hálfum selnum og hálfri konunni.

12:15 AM  

Post a Comment

<< Home