My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, July 22, 2007

Æviágrip 6

Vi vorum sjö. Allir með stúdentspróf nema ég og hugsanlega Jannie sem var poppsöngkona frá Kaupmannahöfn. Ég var gagnfræðingur frá Íslandi, skrifstofustúlka með nokkrar sjóferðir að baki, meðmælabréf frá prófastinum heima og svo frá Ævari Kvaran sem leiddi mig gegnum dramatíska og ljóðræna texta í tvö ár áður en ég heimsótti menntamálaráðherra til að fá skýr svör við því hvort alvöru leiklistarskóla yrði komið á laggirnar Reykjavík eða ekki. Og svarið var skýrt nei það árið.


Mitt hyldjúpa sjálfsöryggi bakvið feimnina hafði fest alvarlegar rætur í tímum hjá Ævari og Guðmundu Elías. Það voru einkatímar og svo skólinn hans Ævars frá tvö til sjö alla laugardaga... Ég efaðist ekkert um að ég gæti orðið best þar sem ég var hverju sinni, bara ég væri með réttu verkefnin, þá átti ég eldsneytið og aðgang að öllum mögulegum blæbrigðum. Svo það að gera textann að heim til að kasta sér inní, með eitt auga fyrir utan, það var spurning um að gera heimavinnuna sína. Mér fannst undarlegt þegar gert var lítið úr slíku sem fyrir mér var vinna og aftur vinna, ég þurfti tóm í einrúmi til að komast að því hvað ég var að gera og vildi gera. Ég varaði mig ekki á að það voru eintöl sem ég hafði lært að njóta mín í; að samspil við meðleikendurna var allt annar galdur.

*

Og nú var móðurmálið ónothæft. Svo ég þagði. Að tjá eitthvað að gagni orðlaust reyndist mér lengivel útilokað nema hjá Peter Marcell. Hjá honum gat ég framkallað stemningu í öllum líkamanum eftir pöntun. Stemningar sem þau hin lásu auðveldega úr þögulli tjáningu minni. Aðrir kennarar voru með látbragðsleik og alskyns hamagang sem ég réði ekki við og gat ekki tjáð mig gengum ... nema þá í dansinum hjá Nini Theilade! Spunadans og allir í einni ævintýrakös. Nini var kapítuli útaf fyrir sig og ekki vissi ég þá hvurslag stjarna hin hálfsextuga ballerína hafði verið.

En bekkjarsystkini mín þoldu ekki kennarann sem ég naut mín best hjá í byrjun, Peter Marcell. Ekki sem kennara. Það lék óstaðfestur grunur á að Júdith þyldi hann sem ástmann en í tímum var hann að biðja um eitthvað sem var þessum nýju systkinum mínum á móti skapi, eða þá aðferðin við að biðja um það. Hann var lærður í Konunglega leiklistarskólanum og sótti eitt og annað í Stanislavskij sýstemið.

*

Hans Bay var ljónið í bekknum og hafði gjarna vit fyrir okkur hinum í alvarlegum og faglegum málefnum, hann hafði lesið dramatúrgíu eða leikhúsfræði við háskólann í Árósum og heillað dómnefndina með epískum Verfremdung stíl, sínu heiðbláa gáfulega augnaráði og texta eftir Bertolt Brecht í inntökuprófinu. Hann var með ljósar krullur eins og Nonni bróðir en skrýtnar skakkar tennur og hefði að eigin sögn ekki fengið skólavist nema gegn loforði um að láta laga þær allar saman, svo hann yrði tilbúinn í Hollywoodleikarabros fyrir lokaárið. Reyndar var það alls ekki hann heldur konan hans sem hafði ætlað í leiklistarnám. Þess vegna höfðu þau flutt, drifið í að kaupa hús útí Fruens Bøge í útjaðri Óðinsvéa sannfærð um hún myndi fljúga inn. Hann fór með eins og hver annar kavaljer, skellti sér í prófið svona uppá grín. Hún komst ekki inn og sat nú með fætur í kross og beið í sóffa einbýlishússins, meðan Hans úðaði fróðleik yfir okkur skólasystkinin um pólitískt leikhús og absúrd leikhús, epískt leikhús, raunsæisleikhús og staðnað leikhús. Hann var frá Silkiborg norður á Jótlandi og sá sem ég kynntist líklega best af mínum þrem nýju bræðrum. Peter Vincent var frá höfuðborginni, fallega vaxinn, með vel mótað andlit og ágæta rödd, hefði við fyrstu sýn getað verið sjarmör bekkjarins en hann var mér jafnan lokuð bók, sama þótt við lékum saman, ég var engu nær. Torben Zeller var nærverandi á sinn hátt, hann var jóginn og kamelljónið gat komið sér í mjúkinn hjá flestum var iðinn við það og félagslega lipur. Hann var fæddur og uppalin í borg ævintýraskáldsins og gott ef hann bjó ekki enn heima hjá foreldrunum.

Jannie Faurschou var tvíburi eins og ég og var að slá í gegn sem poppsöngkona einmitt þetta fyrsta ár í skólanum. Hún settist að við Sønderboulevard ásamt gítaristanum sem var hennar maður. Þar lögðu þau undir sig rúmgóða yfirgefna íbúð við ána og þegar ekki var verið að æfa bauð söngkonan öllum heim. Hún var nettvaxinn og ljós, með augu sem lágu undarlega nálægt hvort öðru, og alger akróbat á sál og líkama. Hún var svo hiklaust opinská að maður tók varla eftir því. Nema Hans.

*


Peter Marcell (f. 1932 - d. 1996)

Nini Theilade (f. 1915 í Indonesíu)

Stanislavskij, Konstantin (f. i Moskvu,1863 d. 1938)
Rússneskur leikari og leikstjóri; einn kunnasti hugsuður leiklistarsögunnar.



6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta er magnaður texti sem rígheldur, þéttur en mann langar fullt meira að vita á mörgum stöðum, svo er það er meira stöff þarna, einsog með að fara inní heim, auga fyrir utan, meðleikendur, afhverju maðurinn var lokuð bók, hvað gerði þessi kennari sem hinir þoldu ekki, og allskonar svona skemmtilegt.

annars er merkilegt útaf fyrir sig að þér takist að bregða upp mynd úr bara skóla, sérhæfðum líka, en þér tekst það, manni er ekki sama um þetta fólk og fattar þú ert að skrifa örlagasögu.

elísabet

1:49 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Váá gaman! Elísabet, kommentin þín eru gullmolar.
Jess, ég þarf að koma aftur að herra Marcell og hvað við gerðum honum... muna það.
Og elsku Sanislafvkij hleypur ekki úr sögunni héðanaf!

2:11 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Veistu að Nini er enn að kenna dans!
Ef þú smellir á tengilinn við nafnið hennar neðst í þessum kafla sérðu hana rúmlega níræða.

2:14 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Jan var að frumsýna í gær Glade Dage á Grønnegårds Teatret, leikrit eftir Beckett, um hana Winnie sem "elsker, venter og håber", hun talar held ég mest allan tímann, en maðurinn mjög svo þögull.

Það væri gaman að vita hvort það er til á íslensku. Nokkur sem hefur séð hana Winní þar?

2:25 AM  
Blogger Elísabet said...

ert þú ennþá vakandi.

happy days, jú held það hafi verið flutt hér,

fattaði mig vantaði skapið. nota það á Róbert, hann er asshole fattaði ég alltíeinu þakkar ekki fyrir matinn. einfalt. ég ætlaði að verða blíð og góð eina ferðina enn, já þetta er magnaður

texti hjá þér, magnaður, samúð í textanum og þessu nærðu án þess að segja neitt mjög mikið, samt þolir textinn meira, einsog ég segi,

Og alveg frábær lýsingin á sjálfstraustinu,

ekj

2:30 AM  
Blogger Elísabet said...

TAKK FYRIR ALLAN LESTURINN Í DAG MÍN KÆRA VINKONA.

ég ætla skríða í háttinn. fallega húmið sem er hérna núna.

dansidansí, elísabet

2:45 AM  

Post a Comment

<< Home