My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, July 28, 2007

Æviágrip 11


Var ég að verða hrifnari af Hans en Ulrich? Mér fannst Hans skringilega ólánlegur í útliti, nema bláu augun gáfulegu, ljósu krullurnar og ótrúlega nettar hendur og fætur. Handarbökin mjúk og með spékoppa í stað hnúa, fínleg eins og á lítilli konu ... og svo var samt eitthvað mjög máttugt við hann. Einsog þegar hann þóttist ávíta mann og lét það hljóma eins og ástaratlot.


Það breytti því ekki að þegar skólasystkini mín voru í óða önn við að kyssa maka, kærustur og kærasta um helgar, þá bjargaði söngvarinn frá Hamborg mér stundum frá annars kossalausri helgi, myndarlegur sem hann var með sín háu kollvik og rauðan munn eins og hann hefði kysst umbúðir utnanaf kaffibæti og ekki mig (= rauða bréfið utanaf Ekta Lúðvíks Davíðs staukunum sem heima var notað til að lita munninn á snjóköllum ... !).

*

Ulrich söng gelding þennan vetur - fékk kontratenórhlutverk við frægt leikhús í Hamborg - og ég þoldi það ekki. Hann kom og söng í falsettu svo bergmálaði um öll heilög hús í borg ævintýraskáldsins og nærliggjandi byggðarlög. Heila helgi gengum við milli kirkna á Fjóni, hann alltaf með tónkvíslina og syngjandi, sagðist þurfa að prófa hljómburðinn. Hann var bara að æfa fyrir þetta leikrit frá byrjun sautjándu aldar, Volpone eftir Ben Jonson samtímamann Shakespeares. Hann var með flotta rödd en einhverstaðar hreiðraði mitt eigið vanþakklæti um sig.


Og ég fór í heimsókn til Hamborgar en varð ekki meira hrifin fyrir það og þótti kalt í húsi fjölskyldu hans. Hann átti sætan hippabróður með sítt hár og þeir bræður buðu mér í bíltúr um alla borgina og ég fékk að sjá allt aðra og virðulegri Hamborg en þjónarnir á Gullfossi höfðu sýnt mér - þegar ég var þerna í tveim túrum á unglingsárunum - en það dugði ekki til. Hlutverkið fannst mér hreint og beint neyðarlegt og jaðra við að vera persónuleg móðgun! Ég sagði það ekki upphátt en gat ekki þáð að halda þýsk jól þennan vetur. Raunar ekki heldur jósk með Hans og Betu sem ætluðu til Silkiborgar og buðu mér með; svo mín fyrstu jól í Danaveldi urðu frekar indversk í kommúnunni hennar Dísu vinkonu á Amager og með flögrandi karakterum á Loppen.

*

Söngvarinn var orðinn heimilisvinur í húsi ungu hjónanna í Fruens Bøge og hélt áfram að heimsækja þau eftir að ég flutti, vorið 1972.

Þá var Jens kominn inn í líf mitt. Jens með klarinettið. Brúnu augun svarta þykka hárið og klarinettvarirnar. Músikalska blásaramunninn sinn.

Jens Schou sem varð fyrsti sambýlismaður minn og obinber kærasti um það bil þar til ég giftist Jan.


***

Kaffibætir var unnin úr rótum jurtarinnar sikkoría (Cichorium intybus)

sjá nánar um Konur og kaffibætir á síðu Kaffitárs hér


12 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Gaman ad lesa aefiágripin. Rigningin er greinilega hvetjandi til skrifta! Hér skín sólin stodugt og vid gefum okkur lítinn tíma til ad skrifa.
Stella og Kristinn

10:06 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Já um leið og sólin kemur eins og í dag verð ég alveg rugluð get hvortki farið né verið heimahjámér ...

takk fyrir kveðju og kommet úr spænskri blíðu ...

7:43 PM  
Blogger Elísabet said...

glæsileg og sársaukafull karlamál og flókin, þvílík dramatík, úff.

þetta virkar allt einsog sér skóli,

skemmtilegt aflestrar og samfélagið að móta ævisagnaritarann svo hún þolir ekki kontratenór, eða hvað.

ég er að missa jafnvægið. ekki þér að kenna, ég er bara að missa jafnvægið. sofnaði áðan og sá arnold svartsnegger blasa við þegar ég vaknaði. kalt hérna í sólinni.

nei, þetta er semsagt mjög gjöfult og skemmtilegt. eitthvað ólýsanlegt þarna á ferð, sem ég festi ekki hendur á, ástin, og svo langar mann í gullfossaþjónasöguna, bless, elísabet sem er búin að missa jafnvægið.

12:47 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Æ elsku ekki detta ekki detta ...

hjartans þakkir fyrir örlát komment ... held það sé of seint að hringja = vona þú sért sofnuð aftur.
Knús/kristín

2:32 AM  
Anonymous Anonymous said...

Er enn að spá í hvað þú meinir með línunni "þetta virkar allt einsog sér skóli,"

ætli ég hafi verið í þeim skóla eða ekki haha??

1:04 PM  
Blogger Elísabet said...

svo skemmtileg orð einsog blásaravarir, klarinettmunnur og handarbökin, mergjuð lýsing,

ekj

5:27 PM  
Blogger Elísabet said...

virkar einsog sérskóli,

að því leyti að athyglisgáfan er sú hin sama þegar þú lýsir skólanum og ástinni.

o love,

sóleyjarvöndurinn er 3 eða 4 ára gamalt leikrit, er með hausverk og sviða í augun, verð að sjá fjöllin,

Daníel kom hingað í kaffi, hann var að koma úr Flatey, haði siglt þangað á þrettán tímum takk fyrir.

5:29 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Hann er heppinn hann Daniel siglingagarpur að þú skulir búa svona við sjóinn!

6:17 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Já takk fyrir athyglisverð komment, þegar þú nefnir samsvörun í lýsingu á ást og skóla, þá dettur mér í hug hvað Jens sagði einhverju sinni um ástina: Ást er fyrstogfremst spurning um einbeitingu.

Ég valdi leiklistarnám af því það var eina námið sem ég ímyndaði mér að ég gæti einbeitt mér að.

6:26 PM  
Anonymous Anonymous said...

Já, þetta er allt, lífið, spurning um einbeitingu, þessvegna höfum við þráhyggjuna, til að detta út.

Var að koma af fundi um ástar og kynlífsfíkn.

Þakklát fyrir það.

Búin að pússa leikritið.

ekj

9:40 PM  
Anonymous Anonymous said...

já, ég er með littla bryggju hér fyrir neðan, og einn bryggjusöng.

ég þoli ekki þetta endalausa stafarugl.... gives me the kreeps.

12:23 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Stafarugl.Hvað eigið þér við Frú Blóm? Uglarstaf eða svoleiðis isknnak?

3:45 AM  

Post a Comment

<< Home