My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, July 25, 2007

Æviágrip 9

Lene átti kærasta sem hét Troels. Þau höfðu flutt frá Árósum og keypt heilan bóndabæ tólf kílómetra frá Óðinsvéum, þegar Lene komst inn í skólann. Þau bjuggu í nýuppgerðum hluta íbúðarhússins og þegar ég yfirgaf farfuglaheimilið fékk inni í óuppgerða hlutanum sem var heill rangali með mörgum herbergjum. Ég þurfti nú bara eitt en það var fínt að hafa prívat æfingaaðstöðu. Ég var alltaf að vona að það væri ekki hljóðbært nema aðra leiðina gegnum vegginn sem skildi húsakynni ungu hjónanna frá mínum. Á morgnana söng Lena jazzlög í baðinu og svo hjóluðum við saman milli akranna og lífið var milt og blítt. Tókum lestina saman. Þutum yfir slétturnar og það var eins og að sigra heiminn. Stikuðum stígana gegnum morgunsvalann í Kongens Have á leið frá járnbrautarstöðinni, mættum saman í skólann og ég var uppmeð mér eins og ég hefði strax eignast vinkonu. Lene var svo flott, hrein og bein og hláturmild, frekknótt með sítt hnetubrúnt hár sem glóði í sólskininu og með seigar tígulegar hreyfingar. Það var einhver dans í öllu sem hún gerði.

Troels var ljós og svolítið lægri en hún. Honum kynntist ég ekki að ráði en öfundaði þau bæði af að eiga sinn sameiginlega heim sem gerði mig meira en eina þegar dyrnar lokuðust á kvöldin. Það bjuggu ekki fleiri á bænum en við þrjú.


*

Svo kom að því að við áttum ekki samleið heim úr skólanum, Lena þurfti eitthvað með Troels þann daginn en var samt komin á undan mér heim. Þau voru á sportbíl fyrir tvo. Það var þá sem ég viltist milli akranna. Allt varð eins engar áttir í þessu sléttlendi og sólin horfin en skildi eftir sig molluna í haustkvöldinu. Ég hjólaði hingað og þangað og loks fann ég símaklefa bara hringja ef ég lendi í vandræðum hafði Lene sagt. Ég hringdi og flugurnar suðuðu yfir höfði mér fleiri og feitari en ég hafði getað ímyndað mér, ekki eins og mýflugnamergðin við Hópið sem stundum mynduðu svart ský. Þar var hægt að loka augunum og hlaupa gegnum skýið. Þessar voru stærri, óhugnanlega litríkar, eitur myndarlegar og margar og auk þess lokaðar inn í klefa með mér! Engin okkar vildi út fyrr en ég var búin að ná sambandi við manneskju og láta vita af mér. Lene!!! Halló. Nei ég er ekki á járnbrautarstöðinni ég í símaklefa ég veit ekki hvar það er svo mikið af flugum og fullkomið myrkur núna getiði ekki sótt mig nei ég veit heldur hvert hvað á ég að gera ég get ekki verið hér lengur ég þori ekki að fara héðan það er ljós í klefanum ég get ekki verið hér ...

Mér er ómögulegt að muna hvernig ég komst til skila. Ég gæti spurt Lene. Kannski man hún það. Afturámóti man ég að eftir þetta þoldi ég æ verr skorkvikindin í óuppgerða rangalanum sem ég bjó í. Meira að segja hinar vingjarnlegustu köngulær uxu mér í augum þegar þær heimsóttu mig í bólið sem var dýna á gólfinu og stutt að fara fyrir dýrin á bænum sem voru aðalega svona
smákvikindi.


*

Eftir mánuð í sveitalælunni flutti ég til Fruens Bøge. Til Hansemanns og Betu konu hans.

Hans hafði lýst því yfir að í þeirra húsi væri þakherbergi laust! Það hljómaði vel. Og hægt að hjóla alla leið í skólann bara þrír fjórir kílómetrar. Já, laust innan skamms. Þangað til gæti ég fengið kjallaraherbergi fyrir lítið.

Það var vel hlýtt í kjallaraherberginu. Það var miðstöðvarherbergi og stundum viltist ég í þvottinum sem þau hengdu til þerris á rörin. En þetta var bara til bráðabirgða.


2 Comments:

Blogger Elísabet said...

falleg saga, nýtt sjónarhorn, svona á serstakar manneskjur einsog lene, verulega skerí þetta í klefanum með flugurnar,

þvílik örlög oghitaveiturörið, þetta er allt jafnspennandi,

er að fara á víkingsleik og að sækja barnabörn, var að vinna í þyðingu í dag og kynlífskafla, og
bjó til skemmtilegt blogg sem kemur í kvöld.

ást og knús, myndrænn, flæðandi, dramatískur texti, keep up the good work,

elísabet yndisfagra

7:02 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

ástarþakkir yndisfagra!

7:27 PM  

Post a Comment

<< Home