My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, July 26, 2007

Æviágrip 10


Ég hringdi í Lene. Hún segir að það hafi ekki verið neinir símaklefar á svæðinu! Svo ég hlýt að hafa farið eitthvað lengra. Hún heldur nefnilega að þau hafi samt komið og sótt mig - kannski í næsta þorp - og fullyrðir að það hafi einmitt verið smá smuga fyrir þriðju manneskjuna í rauða sportbílnum. En hvernig þau fundu mig og hvar mun tíminn tæplega leiða í ljós.

16. október 1971 lýsi ég tilverunni í bréfi heim:

... ég hef fengið tækifæri til að sýna skólasystkinunum að ég er ekki heldur hér að ástæðulausu og fá kennarana til að álíta að ég hafi hæfileika og það ekki svo litla. En hvernig ég á svo að fara að því að sannfæra þá um að þeim hafi ekki skjátlast hef ég enn ekki fundið út, en til þess hef ég líka nægan tíma.

Ég hélst nú ekki við í sveitinni nema mánuðinn út, þá flutti ég inn í úthverfi Óðinsvéa og þaðan er öllu ódýrara og fljótlegra að komast í skólann. Ég bý hjá einum skólafélaganum, sem er nýgiftur og búinn að kaupa hús. Þar borga ég 175 danskar krónur á mánuði.

Það var svo gaman að fá bréfið frá þér mamma og heyra hvað er að ske hjá ykkur, en það er nú alllangt síðan og sjálfsagt aðrir hlutir að gerast þessa dagana. Ég vona bara að þið hafið það gott og ég bið kærlega að heilsa öllum heima.

Kær kveðja,

ykkar dóttir ....

*

Það var óþolandi að vera þriðji aðilinn í húsi Hans og Betu, sérstaklega um helgar. Hér var engin sér álma engin víðátta heldur götur og hús og flóknir skógarstígar í nágrenninu. Í húsinu var alltaf verið að kyssast, hjónin og gestirnir allt í pörum. Ég yrði að finna einhvern að kyssa ef ég ætti að lifa veturin af!

Kannski Ulrich gæti komið og kysst mig eins og eina helgi?

*

Ulrich var söngvari sem ég hafði kysst í fluginu Keflavík – Kastrup þegar ég yfirgaf fósturlandið í ágúst. Hann var frá Hamborg og ég týndi fermingarúrinu mínu um leið. Það var dálítið vesen að kyssast svona á flugi enda varð bláa myndin af pari fljúgandi yfir byggðinni eftir Marc Chagall í miklu uppáhaldi hjá mér æ síðan, engar sætisólar og matarbakkar þar. Úrið kom aldrei í leitirnar en Ulrich lagði á sig fimm klukkustunda lestarferð og kom í heimsókn til Fruens Bøge fljótlega eftir að ég flutti úr miðstöðvarherberginu og upp undir súð, í hið langþráða þakherbergi.

Hans varð yfir sig hrifin af söngvaranum og eftir helgarheimsókn númer tvö spurði hann hvar ég hefði fundið hann. – fyrir ofan ský og austan við Ísland sagði ég og hann hristi hausinn: Kristín sagði hann með löngu íi í sínum elskulega aðfinnslutón. Man plejer at møde mennesker på jorden … Maður finnur fólk á jörðinni, í loftinu búa fuglarnir.

7 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Magnaðar lýsingar á námi og starfi ásamt lífsmunstrinu á þessum tíma.
16. okt. 71 var ég með dæturnar þrjár í kringum mig allar innan skólaaldurs fæddar 65,67 og 68.
Takk fyrir að fá að njóta upprifjunarinnar með þér. Þín Bogga.

5:36 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

þetta var sætt ... og ártöl sem ég ætti auðvitað að muna! Takk kærlega fyrir að lesa og láta vita af þér!!
knús og kveðja/kristín

6:53 PM  
Anonymous Anonymous said...

Í kvöld var West Side Story í sænska sjónvarpinu! Kvikmyndaði söngleikurinn frá 1961, með Romeóog Júlía þemanu.
Það er eina kvikmyndin sem ég man eftir að við systkinin fórum að sjá á Blönduósi! En við brunuðum örugglega út á Ós á jeppa að sjá West Side Story. Kannski 1962 .. kannski 1964?

2:28 AM  
Anonymous Anonymous said...

skemmtilegt kristín, bréf og símtöl, smá sveigja í þessu, skemmtileg.

ekj

3:22 PM  
Blogger Elísabet said...

gaman líka þegar ævisagan er LEIÐRÉTT.

VERÐUR EINSOG LEYNILÖGREGLUSAGA, fá alltaf einhvern tilað leiðrétta,

hver hefur rétt fyrir sér?

símaklefinnn.

4:51 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

já ævin kemur semsagt ekki í leitirnar fyrr en búið er að skrifa hana, og þá er voða gaman að komast að vitleysunum vitleysunum.

Takk Elísabet, ég var einmitt að bíða eftir græna og bláa ljósinu þínu, flott af fá svona fíd bakk, þá held ég smá áfram með líf mitt í ástum og listum!!

Var að koma úr bænum, búin dansa á polketten á Liseberg
Knús og Kram

11:12 PM  
Blogger Elísabet said...

Græna ljósið er alveg stöðugt hjá mér.

ekj

12:21 AM  

Post a Comment

<< Home