My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, July 30, 2007

Æviágrip 12 - til Kafkanistan


Fræðilegir tímar voru fáir, áherslan lá á dansi og söng auk ýmiskonar sviðstækni fremur en analýsu enda var markmiðið að þjálfa leikara tilbúna fyrir söngleiki.

Einusinni í viku var setið við borð í kyrrlátu aflöngu hornherbergi á annari hæð við hlið æfingasalanna og rætt um leiklistarsöguna og strauma og stefnur í leiklist nútímans. Lene og Hans sem höfðu lesið dramatúrgíu saman við háskólann í Árósum og lögðu alltaf eitthvað til málanna töluðu um leikhúshugsuði eins og Meyerhold, Jan Kott, Grotowski, Peter Brook og fleiri líkt og þeir væru góðkunningjar sem þau hittu annað slagið.

- Kott lítur á leikhúsið sem aðferð til að takast á við lífið, eitthvað annað og meira en listgrein sagði Lene og Hans kom strax með snjallar tengingar í fátæka leikhúsið hans Grotowskis í Póllandi, vitnaði í verk hans Towards a Poor Theater frá 1968 sem áður en yfir lauk var gert ráð fyrir að við læsum rétt eins og The Empty Space eftir Brook (frá1969) enda enn nýjabrum af þeim bókum.


Kennarinn sat oftast vi innri enda borðsins og þá með síðustu kvöldmáltíðina yfir höfði sér, listaverkið fræga stór innrömmuð mynd af því. Við vorum látin lesa dramatíkina í myndinni afstöðuna manna milli, hvaða postuli hallast hingað og hver þangað og hverskonar klíkuskapur er eiginlega í gangi! Við fengum ábendingar um lestrarefni út frá eilífðarspurningunni hvað er leikhús en ég man ekki beinlínis eftir neinni skyldulesningu. Stundum fengum við þó heimaverkefni og einhverju sinni var heimaverkefnið að velja hver sinn texta til að segja frá, verk sem hafði haft persónuleg áhrif á okkur og sem við tengdum tilveru okkar og því ... að við völdum leiklist.

*

Ég fékk panik þar til ég fann Hamskiftin á dönsku á bæjarbókasafninu. Hvort ég hafði lesið þýðingu Hannesar Péturssonar eða var að lesa þessa stórkostlegu nóvellu eftir þýskumælandi Franz Kafka í fyrsta sinn á dönsku veit ég ekki, veit bara að ég var uppnumin og fannst höfundurinn þekkja mig út og inn. Það var óhugnanlegt í sjálfu sér og ég fékk nýja panik yfir hvernig ég ætti að kynna þetta verk og tengja það sjálfri mér fyrir framan mín mælsku skólasystkini og kennara. Hvað var hægt að segja. Maðurinn breytist. Og búið. Mér datt ekkert í hug.


Ég beið þar til hin voru búin að kynna sín verk, Kóng Ubu eftir Alfred Jarry; Aldous Huxleys Brave New World og fleira sem ég fékk á tilfinninguna að allir hefðu lesið nema ég. Leikritið Ubu varð uppspretta samtals um hið absúrda í lífi og listum. Í svoleiðis samtalsheimi var ég lost og þráði það sem ég með sjálfri mér kallaði “hið absoluta” og kom bara þegar ég lét mig hverfa inn í texta á sviðinu þar sem sorg varð höll. Eða þegar ég horfði á stjörnurnar með Kirkegaard í huga og eilífðina í augnablikinu.

*

Jannie sem kom einatt með leikandi óvænta vinkla á tilveruna laus við akademísk hugtök gæti hafa samið sitt verk á staðnum kannski var það draumur sem hún svo rammaði inn hún var svo fljúgandi frumleg. Lene kom með Jordisk Lykke eftir kínverska höfundinn Lin Yutang, minnst fjögurhundruð síðna doðrant um að vera manneskja og kunna að njóta þess! Um táknrænu pílviðarins, bambustrjánna og plómutrésins ...

“Bambustræet beundres særlig for sin fine stamme og for sine fine blade, og da det er et mere sart væsen, trives glæden over det også allerbedst i den mere tvangfri og intime atmosfære, der råder i den lærdes hjem. Dets skønhed er mere typen på en smilende skønhed og den lykkefølelse det skænker os er mild og ...”

*

Ég fékk enn smá frest meðan Lena sagði frá og las upphátt smákafla. Allir sammála um að bókin væri dæmigerð fyrir hvernig Lene var inréttuð, afstöðu hennar til lífsins og lukkunnar. Bókin sem var andskynsemiseitthvað gaf ekki bara grænt ljós á tré og nautnaefni nátturunnar svo sem te og reykelsi heldur líka tóbak og vín og það kunnu félagar mínir flestir að meta, ég átti hinsvegar enn eftir að læra slíkt og varð minni og minni eftir því sem leið á tímann og meira og meira kvikindisleg einhvernvegin eftir því semég hugsaði meira um nóvelluna sem ókunnur beinaber og heillandi þjáningabróðir hafði skrifað um Gregor Samsa og ef ég segði frá honum þá kæmi ég upp um mig og hann líka og ef ég já sérstaklega ef ég segði ekki neitt og ef þau höfðu nú ekki einu sinni heyrt um þennan tjekkóslóvakíska höfund sem var fyrst gefinn út að honum látunum og sem ég hafði fundið fyrir tilviljun eða ekki ... ég skammaðist mín fyrir þessa skelfilegu umbreytingasögu sem ég vildi óska að ég hefði ekki hrifist svona af þetta var neyðarlegt ég var í huganum skríðandi undir borðinu og kannski í alvörunni líka hver veit enginn tók eftir því þvílík heppni ég er svo heppin í mínu lífi svo óstjórnlega heppin að ég hef aldrei vitað annað eins nema í sögum ég þoli eiginlega hvað sem er get næstum dáið og lifnað strax aftur bara meðþví að breyta mér það er málið og ég þarf velja texta til lifa eftir ...

*

- ÉG held ég skilji þig, sagði kennarinn. – Hvad beha? Ég var orðin pödduþykk með skél sem hefði þurft að mölva til að komast að mér líkari risaskjaldböku en járnsmiði eða bjöllutegund ég var misheppnuð útgáfa vildi fá að sofa í friði allan veturinn eins og skjaldbökurnar hans Ragga kennara á Reykjaskóla en skelin var svo þykk og hörð að ég gat ekki sofnað ...

- Ég held ég skilji hvað þú ert að fara.

Hann hét Anker (= Akkeri) og ég vissi ekki hvað það var sem hann skildi en hann gerði einhverja tengingu við leiklistina sem ég gat ekki gert. Ég man ekki til þess að ég hafi sagt neitt, nema titilinn og höfundinn. Forvandlingen af Franz Kafka.

Og þegar ég fann að þau fordæmdu ekki val mitt - að akkeri kennslustundarinnar hafði bjargað mér frá allri hugsanlegri háðung - varð ég góð aftur eins og rauðglóandi maríuhæna bara vængbrotin í bráð og komst því ekki upp til guðs að biðja um gott veður áfram. Sat þarna eins og saklaus depill.

*

7 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Bráðfyndið og spennandi,

maður hlær og reynir að "fletta" áfram, maður er svo spenntur,

ótrúlegur vanmáttur í öllum textanum, fólk með bækur að reyna að segja eitthvað um lífið og leikhúsið,

og svo þetta brill eftir allar diskusjónirnar:

ÉG HELD ÉG SKILJI ÞIG.


Einmitt þetta, manneskjan að reyna að skilja eitthvað, reyna að orða hugsun sína,

Þegar allt kjaftæðið er búið og maður er kominn undir skelina.

takk fyrir þetta. ekj

3:14 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Ó, þar varstu sneggri en mig grunaði! Og svona jákvæð hahah eins og þú skiljir ...
þenx a lott

5:04 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

kommentið þitt er sjálft brill!!!

5:07 PM  
Blogger Elísabet said...

ég held ég skilji þig.


ha hahahahahhahahaha....

5:48 PM  
Blogger Freyja said...

Gaman að hverfa svona aftur í tímann, frá því áður en ég fæddist. Ég veit ekki hvort ég gæti sagt svona nákvæmlega frá háskólaárunum mínum í Kaupmannahöfn.... og það er nú frekar vandræðalegt þar sem ég útskrifaðist fyrir tæpum 2 árum haha.
Skemmtilegast finnst mér að heyra um ástarsögurnar... bíð spennt að heyra meira um Jens klarinettuleikara, eða Jan... og svo alla hina?!!

8:04 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

því var ég búin að gleyma! finnst að einmitt að þú hafir alltaf verið til.

Takk fyrir kommentið! Enn gaman Freyja að þér skuli ekki leiðast mín mannamál. Þá fer ég að svipast um eftir ástarsagnaframhaldinu ... er enn bara á fyrsta ári og Jensemann hlýtur að gera betur vart við sig bráðum ...

En veistu ég held það sé auðveldara að eiga við fortíð sem er ekki ný og á hælunum á manni heldur eldri og einsog búin að taka til í sjálfri sér ... bíddu bara þegar þú ferð að horfa á háskólaárin eftir þrjátíu ár!

10:37 PM  
Anonymous Anonymous said...

ég er ógeðslega lasin, reyndi að hringja en þú svaraðir ekki, uhu.

reyni aftur. uhu. uhug. ekj

4:12 PM  

Post a Comment

<< Home