My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, August 27, 2007

Ég dansa sósu, segir fiskurinn


Ég var að reyna að svindla við heimaverkefnið, soldið sendibréf á spænsku, með því að láta fiskinn - altavista babelfish - þýða fyrir mig. En þegar ég bið um þýðingu á ensku til að gá hvort ég hef skrifað eitthvað skiljanlegt á spænskunni um dans einsog tangó og salsa, ja þá þýðir fiskfíflið einfaldlega salsa yfir í sósu. "Ég dansa helst tangó og sósu", segir hann. Mér þótti þetta ósvífið. Jafnvel orðabækur ættu að vita að maður breytir ekki dansi yfir í sósu sama hvað hann heitir.

Í kvöld sunnudagskvöld dansaði ég á Polketten á nýjan leik og var svo hlýðin og fylgin í "sósunni" að ég fékk eftirfarandi tilkynningu hjá hávöxnum Frakka eftir einn dans: - Ég er búin að dansa við minnst tíu í kvöld og þú dansar betur en nokkur þeirra.
Ég hafði aldrei heyrt annað eins og þótt ég vissi ekki hverjar hinar tíu væru, þá þorði ég ekki að dansa meira við hann af ótta við fipast útaf hrósinu og þá héldann að sér hefði skjátlast ...


Þetta var síðasta salsakvöldið á Polketten í ár og braselíska Adriana Mendes, sýndi samba ásamt þrem öðrum velvöxnum konum og Aldo bróður sínum, öll með metershátt fjaðrafjall á höfði og í glitrandi búningum ... konurnar með berar rasskinnar léku hitabylgju í síðsumarkvöldinu sem var vindasamt, náði ekki tuttugustiga hita svo notalegur svalinn þaut í fjöðrunum.

*

Eftir vonbrigði mín með sænska tjúttið og tilheyrandi refadans, þann Foxtrott sem ég bloggaði um seinast er ég búin að sjá mér til mikillar skelfingar á sænskri síðu sem kallar sig “Dansmafían”, að fólk bloggar og skrifast á um Foxtrott í svipuðu orðalagi og við tangófólkið tölum um argentínskan Tangó! Talar um að foxið sé eins og dóp og hvernig maður verði háður foxinu og svona.

Og nú veit ég raunar að Foxtrottinn - sem fyrst var dansaður við ragtime tónlist (1900 - 1918) og þótti auðveldari hér en Tangóinn (sem kom nánast samtímis til Svíþjóðar c.a. 1912) - á sér ýmis nöfn. Eitt það nýjasta hérlendis er "Gnuss" sem á upptök sín á svæðinu við Sundsvall og Hudiksvall, samkvænt bókmenntaprófessor Birgitta Holm. Svo er líka talað um Dirtyfox. Á bloggi hjá “dansmafíunni er togast á um hvort sé “mysigare” (sem er sænska og þýðir kósíara á góðri íslensku), Dirty fox eða Gnuss og eftirfarandi innlegg lýsa soldið hvað gnussið gengur útá.

”Likställ inte gnuss med dirtyfox, det är två skilda saker. även om man gnussar halvt som halvt mun mot mun skulle jag inte kalla det dirty. De riktigt bra killarna som gnussar är Sundsvallarna, de är outstanding på det!”

”Dirtyfox, exakt vad är det egentligen? Är inte det då man mest står still och åmar sig mot varrandra er einn sem spyr og í svarinu er vísað á heimasíðu danskennara nokkurs.

Og hér er vídíó þar sem Dirtyfox danskennarinn Odd i Umeå reynir að slá í gegn með sitt fox í danskeppni! Ég sé ekki betur en að dómararnir þurfi að stilla sig smá um að fordæma ekki faðmlagið. Sjá hér.

*

Einn dans langar mig að læra. Hann heitir Balboa. En ég þekki engan hér í bæ sem kann hann enn. Það væri helst að finna einhvern hjá lindy hoppurunum.

Balboa er pena útgáfan af Lindyhopp sem poppaði upp í Harlem á sínum tíma. Mér skilst Balboa hafi verið fundinn upp svo fleiri kæmust á gólfið og dansaður við sömu tónlist en engin hopp og engin köst né flikkflökk, þvert á móti sést varla hvað maður gerir með fótunum, bara að parið snýst í hringi dansar nálægt en aldrei að flétta sig saman með fótunum heldur líður í hringi eins og fínasti Ferrari að elta skottið á sér. Ég hef séð ýmsar útgáfur á netinu (you tube) . Ef Refadansinn minnir á finnskan tangó þá getur Balboa getur jaaaaafnvel minnt aaaaðeins á argentínskan tangó. Tangó tjúttaranna.

Foxið og Lindyhoppið, Jitterbúggið (hvíta nafnið á Lyndy)Charlestonið Tjúttið Rokkenrollið Twistið og Djævið, já allir þessir sveifludansar ólíkra kynslóða gegnum rúma öld eru ættingjar. Snemma dansað við ragtime blues og djass með rætur í afrískum söngvum.

og bera að sjálfsögðu með sér hina merkustu músik og menningarsögu, svo nátengt ragtime blues og djass.


P.S.

Var að leita að góðu balboadæmi á vídíó og sé svo margar útgáfur af þeim dansi að það stenst ekki nein lýsing stundinni lengur ...

Hér er vídió frá balboakeppni í Amríku. Minnir mig helst á tjúttið í Húnaþingi um 1960 þegar Biggi vetrarmaður og Inga frá Siglufirði dönsuðu í Skólahúsinu á Sveinsstöðum.
Til samanburðar má sjá bút með dæmigerðum Lindy köstum hér.

Og
Groovie moovie 1944 funny jitterbug instuctional video

Ég ætlaði að fullyrða að fólk hefði verið miklu betur klikkað áður fyrr en þá sá ég þetta!

Og engan veginn leiðinlega Lindyhopp keppni frá 2006 hér


*

6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

já, búin að horfa á heilmikið, fann samt bara æskumyndir af fjaðraskúfskonunni, kom beint inná heimasíðu, ég er algjör nörd í svona málum, en horfði á tvo eða þrjú lindyhopp en bilboa keppnin í amríku fór ekki í gang.

er tangó dóp?

annars fær maður fiðring og langar til gautaborgar að dansa við þessa lýsingu hvað sem allri sósu líður,

bestu kveðjur úr septembersól, elísabet

9:48 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

fjaðraskúfskonan er æskan sjálf! og þú sérð mynd af henni og bróðurnum blasa við á heimasíðunni, vídíóin þeirra held ég séu horfin af síðunni ...

12:07 AM  
Anonymous Anonymous said...

já, mér sýndist hún eiga marga bræður, algjör ella stína.

2:03 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

jebb. heil hjörð af bræðrum mætir alltaf hjá Adriönu. en braselíski litti bróðir hennar er pínulítill og sætur maður, svo þegar hann dansar við konurnar þá verða þær að tröllkonum.

12:06 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

"Er tangó dóp?"
"dóp" er kannski metafór í þessu samhengi útaf að tangó er dans sem margir verða háðir, og hinir háðu tala gjarna um fíkn. Þetta stafar örugglega ekki minnst af öllu því oxytocíni sem leysist úr læðingi við dansinn og á það kannski sameiginlegt við aðra faðmlagsdansa um leið og hlýja og nærgætni er með í leiknum.

12:17 PM  
Anonymous Anonymous said...

Oxytocin mætti hugsanlega kalla dóp (sbr. drugs), það er efni sem hefur róandi áhrif og læknandi. S

12:18 PM  

Post a Comment

<< Home