My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, May 04, 2005

Átta dagar í Stockhólmi

Átta dagar í Stockhólmi 23.apríl til 1. maí

Ég fór með fulla tösku af vetrarfötum og þá kom vorið. Var á frumsýningu á Dramaten í boði eiginmanns míns númer eitt - Jan Maagaard - sem setti upp alvarlega Noel Coward kómedíu, Blithe Spirit (frá 1941) sem á sænskunni nefnist Min fru går igen og sem ollið hefur miklum deilum, um hvort eigi að leika gamla gamanleiki með vofum ... minna deilt um t.d. um hvort og hvernig beri að leyfa látnum að lifa með okkur eins og verkið fjallar um ...

Í kvöldverðarboði vegna frumsýningarinnar sat ég til borðs með frægum ljósmyndara - Urban Jören - sem sagði tangósögur; hann var í Buenos Aires fyrir nærri tuttugu árum að leita að "sálinni" í tangó og ljósmynda hana. Ég var í gráu síðu silkipilsi frá árinu 2001 og í öðru silkipilsi yfir því, í brúnum lit og svörtum, með hvítu og blágrænu blómamynstri og með smekk sem ég braut innaf og faldi á maganum; að ofanverðu var ég í svartri gisinni hörpeisu sem ég var líka í í perlubrúðkaupspartíinu okkar Jans í fyrra, efviðhefðumennveriðgift-veislunni. Ég er nýbyrjuð að kalla hana prinsessupeisu, því hún er hönnuð af Mariu Westerlind, sem hannar líka fyrir Vicktoriu prinsessu.

Ég var með annan fótinn í leikhúsinu og hinn í tangó, svo einni viku og þrem milongum síðar sat ég aftur á Dramaten og horfði á Stinu Ekblad brillera sem Portia í Shakespeareverkinu Kaupmaðurinn í Feneyjum. Það er Mats Ek sem stendur fyrir leikstjórn, ballettmeistarinn og kóreógrafinn sem skv. Stínu er haldin fullkomnunar áráttu sem hún segist kunna vel að meta; enga hreyfingu, enga ögn af hreyfingu sem ekki hefur ákveðna merkingu, kemst maður upp með að gera. Allt þýðir eitthvað. Allt sem sést er magnað ... Það er tvíburasystir leikstjórans Malin Ek sem leikur sjálfan kaupmanninn, gyðinginn Shylock. Melinda Kinnaman leikur Jessiku dóttur hans og það sem náði að hrífa mig verulega - auk Stínu sem brillerar eiginlega öll sín augnablik - var þegar Melinda dansaði við sinn Lorenzo (Jonas Malmsjö). Hún liðaðist í ástarsenu inn og út um gluggann, unnustinn varð rennibraut og leiðangur hennar um líkama hans minnti á sirkusdans hjá barnabarni sjapplíns. Svo vel saminn dans.

Eftir sýninguna skoðuðum við Södergrantexta í dönsku þýðingunum hennar Marianne. Hvernig endar maður best hið fræga ljóð Dagen svalnar á dönsku: du föler dig snydt, eða du er skuffet. Getur það orðið jafn ótrúlega sterkt og finnlandsænskunnar blátt áfram: du är besviken.
Þegar við komum útúr leikhúsinu meira en klukkutíma eftir að sýningunni lauk, biðu þolinmóðir aðdáendur Stínu enn við bakdyrnar og báðu um eiginhandaráritun. Svo tók hún ferjuna til Granholmen og ég tunnelbanan til Söder. Það var Valborgsmässoafton.


Það kom mér á óvart að sjá tangó hjá Edvard Much. Fyrsta maí fór ég á þessa stóru og merkilegu Munchsýningu á Moderna Museet, á Skeppsholmen. Ein myndin frá 1905, nefnd Kinn við kinn, er hinn magnaðasti tangó; birtist í brjóstmynd af pari; hún við hans hægri kinn með hálfopin munn, dáleiðsluleg og drífandi í senn og hann á sömu leið ...

Pelé kom mér líka á óvart. Sem tangóstaður. Líklega þökk veri Elínu sem flutti til Stockholms í fyrra, komin í uppáhald hjá einum og öðrum ...og orðin aðstoðarkennari hjá Andrea á Pelé. Og Bristol-milongan í Sundbyberg á föstudagskvöldið var hreinasta hunang. Milonga í gömlu sætu leikhúsi, dansað á sviðinu, stóru trégólfi í miðjum sal; fallegur staður. Anna - lítil stúlka sem segist vera að læra á vörubíl - kom frá Málmey til að vera tangótekari, byggði kvöldið skemmtilega upp með hæfilegum skömtum af elektrótango inn á milli. Fólk kom frá Örebrú og Uppsala, Kaliforníu og Stockhólmi já flestir skörpustu dansarar miðsvíðþjóðar mættir... meira að segja finsk-ítalski Pino og gríska konan hans Natalie - sem hlýtur að vera komin minnst 7 mánuði á leið - þau birtust og dönsuðu.

ÉG kom heim að kvöldi áttunda dags og vorið elti mig.

Það er Pino-parið sem sér um Tangocamp, á vestuströnd Svíþjóðar og í Grikklandi og vel á minnst: ef einhver er að spá í að hita upp fyrir síðsumarið og haustið (=Sitges og Reykjavík)strax í júní, þá veit ég að enn eru fáein pláss laus á Svíþjóðarströndinni fyrir pör og e.t.v. staka herra. En hafið þá hraðan á, um miðjan mánuðinn gæti það verið orðið seint eða a.m.k. dýrara ...sjá Tangocamp

0 Comments:

Post a Comment

<< Home