My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, March 30, 2005

Frá sjöttu stundu í Páls kirkju til Bellmansgötu í Gbg

Á þriðjudagsmorgni lauk tangóhátíðinni í Málmey. Það var fimmta nóttin með milongu auglýstri til klukkan fimm að morgni og ég hafði gert ráð fyrir að lenda á götunni svo sem eins og klukkutíma áður en morgunlestin x2000 byrjaði að renna manni til Gautaborgar ... en ónei, norðurevrópskir tangóarar og argentínsku kennarapörin Nancy & Damian og Pablo & Dana voru aldrei hressari ... og á sjötta tímanum voru allskonar spunasýningar í gangi á gólfinu: Damian dansaði við Aldo - tangókennara í Kaupmannahöfn - lyfti honum og lét fljúga í léttum stökkum svo jafnvel atvinnudansararnir sem á horfðu gripu andann á lofti og stundu af létti í hvert sinn sem Aldo lenti aftur á gólfinu ...; Komala - kennari í El Corte skólanum í Hollandi - dansaði við Maríu sem er helmingurinn af öðru heimaparinu og kennir með sínum Páli við tangóakademíuna í Málmey. Þær svifu um kyrrlátar, þreyttar og hávaxnar í fallegu faðmlagi ... meðan karlarnir hoppuðu og skoppuðu.

Það sem var þreyta á þriðja tímanum breyttist eftir það ýmist í galsa eða kyrrláta kveðjustund hjá þeim sem voru um kyrrt, síðustu hátíðarnóttina í tangókirkjunni hans Pauls. Eða ætti ég að segja fyrrverandi kirkju? Hann festi nefnilega kaup á gamalli kirkju við Aðmírálsgötu fyrir nokkru og hún er nýi staður Tangóakademíunnar sem hann stofnaði fyrir nokkrum árum; flott hús með hátt undir loft og heppilegt hátíðarsvæði. Hátt svið eins og í Iðnó kom sér vel fyrir tangódívu Susana Rinaldi og Pauls eigin hljómsveit Gotango; svalir á þrjá vegu í aðalsalnum og í kjallaranum minna dansstúdíó með parketgólfi sem reyndist ljómandi svefnpokapláss ...Paul og María eru stofnendur hátíðarinnar ásamt hálf-argentínsku systkininum Daniel og Jessicu og Önnu kærustu Daniels.

Silvía valdi tónlistina og var "la vitrolera" þessa seinustu nótt eftir að hljómsveit hátíðarinnar lauk leik sínum ... Silvía sem yfirleitt dansar við Tete en hann varð óvart eftir í heimalandinu Argentínu útaf passaleysi! Því var bjargað í snatri með því að ráða Constantín frá Berlín sem kennara á móti Silvíu ...

Eitt flottasta kveðjunúmerið fæddist seint á sjötta tímanum þegar Pablo og Dana dönsuðu við elekrónískan tangójazz. Þau voru hið nýja par hátíðarinnar sem vann hug og hjörtu flestra með gjafmildri nærveru sinni og hæfni í dansi og í kennslu. Nancy og Damian hafa hinsvegar verið tíðir og vinsælir gestir í Skandinavíu í fleiri ár; m.a. á Tangocamp. Og vonandi væntanleg til Íslands í haust.

Í Gautaborg var Abrazogengið nýlent frá Argentínu, svo Milongan þeirra El Abrazo við Bellmansgötu beið með opin faðm þriðjudagskvöld! Í "Abrazogenginu" eða faðmlagsgenginu eru reyndir þremenningar: sálfræðingurinn Åke, geðlæknirinn Mats og flautusólistinn Ann Elkjär Hansen. Og mikið rétt, þau höfðu orðið vör við dansandi Íslendinga í Buenos Aires, nánar tiltekið á Kossinum El Beso!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home