Lokatörn; miðsumartango og aðrar læknandi aðferðir
Svo dæmalaust ljúft að hitta íslenska tangófólkið, Bryndísi og Hany, Dísu og Daða; Völu og Jens; Þorvarð og Önnu Kristínu, Láru, Ólöfu, Atla, Valdemar og ... Stellu og Kristinn að sjálfsögðu og ... já í allt yfir tuttugu tangóara að heiman sem brugðu sér á hinn sænska Tangocamp í ár! Og sænska tangóvini, finnska og danska ... sem ég hafði ekki séð lengi. Argentínsku kennararnir voru að sjálfsögðu hoppandi af gleði þá nótt eftir að fótboltaliðið þeirra vann leik kvöldsins í heimsmeistarakeppinninni.
Sonduna sem sést á myndinni, þ.e. litla leiðslan sem liggur inn í nefið (og oní maga) held ég áfram að vera með, til að taka til mín næringu sem enn er fyrst og fremst vellingur úr apótekinu. Það hefur ákveðna kosti að vera með einhver sýnileg merki sjúkdóms ... t.d. tók fólk allt í einu uppá að standa upp fyrir mér í sporvagninum þegar fullt var á morgnana. Það hentaði mér vel því ég varð þreytt af ferðalaginu í geimferðirnar(=geislameðferð eða radioþerapíu). Og fólk sem þekkir mig en sem ég hef ekki hitt í lengri tíma þorir betur að spyrja í hverju ég hafi lent ... En ég er síbreytileg, nú er ég t.d. komin með nýja húð á hálsinn begggja megin, líka undir umbúðunum þar sem voru sár úr síðustu geimferð þegar ég lagðist inn í lokatörnina. Myndin er tekin á öðrum degi í þeirri törn, 13. júní sl. Áður en ég segi frá þeirri viku kemur lítil ferðasaga úr síðustu viku.
Saga úr vikunni sem leið:
Í vikunni sem leið heimsótti ég sérfræðinginn minn á tannlæknasháskólanum dr. Bodil Molin Fagerberg og Carinu aðstoðarkonu hennar, sem hafa fylgst með mér og minni munnheilsu síðan fyrir geislameðferð.
- Hvar finnurðu til spurði doktor Fagerberg..
- Hvergi svaraði ég.
- Nehei?
- Ég er á morfíni. Annars finndi ég til.
- Ah, já auðvitað.
- Mér var sagt að áhrifin af lokatörninni yrðu verst tíu dögum eftir meðferð.
Hún skoðaði munninn á mér og ég tautaði eitthvað um þreytu í öllum líkamanum. Hún huggaði mig og hélt því fram að fyrstu vikurnar eftir meðferð væri full ástæða til að vorkenna mér, ég mætti og ætti að eiga bágt ... - en heldurðu þá að ég geti ekki dansað "midsommarnatten eller natten därpå", það er á níunda degi ... spurði ég.
- Dansað! HM. Það held ég varla.
- Nei! Óóó. Og því ekki það? Ef ég fer varlega. Hvað getur gerst?
- Kannski oggulítið og varlega. Mjög varlega.
- Usch. .. bara lítið og varlega! Ég er ekki að meina þjóðdansahopp kringum maístöngina, ég er að tala um argentínskan tangó alla nóttina.
- Heyrðu mig nú, á okkar aldri dansar maður ekki alla nóttina! fullyrti doktor Fagerberg sem er jafnaldra mín.
- Jú það er nú akkúrat það sem kemur með aldrinum, maður þarf auðvitað ekki að dansa stanslaust og svo er argentínskur tango blíðasti dans í heimi, ætti varla að vera hættulegur.
Ég var komin í unglingshlutverkið áður en ég vissi af eða barnið að brekast við valdhafana til að fá aðfara á ball.
-Ekki dansarðu með sonduna? stundi dr. Fagerberg sem var þó hálfpartin farin að skríkja af hlátri yfir þessu óvænta samtalsefni.
- Að sjálfsögðu, ekki fer ég að rífa hana úr, þá hyrfi ég nú fljótlega öllsömul! Ég hef prófað það; tvisvar sinnum hef ég farið á tangó hér í bænum með sonduna, seinast nú í byrjun júní rétt fyrir lokatörnina. Ekkert mál, ég þarf bara að fá fylgd á staðinn til að hafa mig í það.
(Hitt skiptið hef ég ekki bloggað um heldur en það var í maí þegar Ralph og Riku komu og sóttu mig á sunnudagsmilongu í Borgarleikhúsi Gautaborgar!).
- Jahá, og buðu herrarnir þér upp, spurði doktor Fagrabjarg undrandi og hálfhlægjandi.
- Að sjálfsögðu, svaraði ég og var ekkert að orðlengja það að "herrarnir" væru góðir vinir mínir.
- Ahahaha... auðvitað, þeim finnst þú náttúrlega bara sérlega intressant með svona útbúnað! Og doktor Fagerberg hló og hló og var farin að semja sögur handa framtíða sjúklingum:
- Þetta þarf ég að segja þeim, að sé maður með hálsinn í geislameðferð þá dansi maður tangó, -bara si svona hvort sem maður kann það fyrir eða ekki- og þeim sem eru fyrir alla muni að þráast við fá sondu segi ég að hún sé upplögð til að fá athygli bæði á dansstöðum og í sporvögnum ... ahaha makalaust ...
Lokatörnin gengt ljóðaherberginu:
Ég var búin að kvíða svo fyrir lokatörninni - sem byrjaði með svæfingu þann 12. júní sl. - að mér er ekki stætt á öðru en að segja örlítið frá þeirri viku.
Ég fékk einsmansherbergi með myndavélarauga efst í einu horninu og tvöföldum dyrum - með bæði brunahurð og blýhurð - beint á móti "Diktrummet" sem í mínum huga þýddi auðvitað ljóðaherbergið, en í huga starfsfólksins var herbergi fyrir læknana að "diktera" í þ.e. tala inn skýrslur um sjúklinga.
3 Comments:
þú ert hetja, ég elska þig, skrifa meira seinna morfínkrabbameinsdansari sem verður bara dansari,
magnaðar lýsingar á heimsmælikvarða, gjöf til mannkynsins einsog þú,
Ekki veit ég hvernig þetta sigurborgarnafn komst inn.Ha,ha
Þín Bogga
haha ég náði að velta því fyrir mér augnablik hvort ég hefði eignast nýja systur eða hvort einhver ykkar hefði lumað á aukanafni ...
Hjartans þakkir fyrir kommentin sigurborg og Bogga og prellaprina og Ella Stína öræfablóm.
Post a Comment
<< Home