Hulduher á fótum og annað fínerí
Myndin er tekin á vetrargöngutúr í Botaniska, af Johan og Charlotte þegar þau heimsóttu mig á Jubileumskliniken; það eru þau sem sjá um milonguna síðdegis á Laugardögum: Las Tardecitas.
Í gær tókst mér að finna bol sem náði næstum upp í háls og ég dansaði enn einn laugardaginn! Hitti tangófólkið og var í enn betra fomi en síðast ... lít svo vel út segir fólk og botnar ekki neitt í neinu :-).
Enda er blóðið í mér víst meira rautt en hvítt ...
Ég er að vanda mig. Það var hvítu blóðkornunum mínum að þakka að ég komst á Laugardagsmilongu í stað þess að vera í næstu sjóferð... Ég fór á spítalann á miðvikudaginn var eins og gert var ráð fyrir; lét sækja mig eins og fín manneskja með ferðatösku til að vera þar í viku; var innrituð og lét dekra við mig og svo í miðjum hádegismatnum kemur læknirinn og vill fá að útskrifa mig í hvelli! Ástæða: hvítu blóðkornin mældust of fá eða veimiltítuleg til að byrja á nýrri sexdaga lyfjagjöf. Svo ég lét keyra mig heim eins og fín manneskja.
Mætti í undirbúningstíma á geisladeildina daginn eftir til að láta móta á mig einhvurskonar geimferðabúning úr plasti (sem nær reyndar bara oná axlir) sem á að halda mér við efnið eða réttara sagt í ákveðnum skorðum þegar þar að kemur ... best ég hafi myndavélina með í næsta undirbúningstíma.
***
Það kvöld þ.e. fimmtudagskvöld var leshringsfundur á fallega bjarta heimilinu hjá séra Ágústi og Þórdísi konu hans sem er læknir og eins og venjulega þegar Íslendingar koma saman voru fleiri læknar á staðnum svo ég spurði hvern lækninn á fætur öðrum: hvað gerir maður til að fjölga í sér hvítu blóðkornunum? Eina þjóðráðið sem ég fékk var að hlægja og skemmta mér. Það var auðvelt því þetta er skemmtilegur hringur, svo ég notaði kvöldið vel; hláturinn kom í sínum rokum eins og óbeðinn ... þótt umræðuefnin væru háalvarleg. Og aðalsagan sem við ræddum hreint ekkert grín, heldur sænskt hunang fyrir hugann: En Herrgårdssägen, frá árinu 1899 eftir nóbelsskáldið frá Värmlandi, Selmu Lagerlöv (1858-1940). Stutt meitluð og mögnuð saga, þar sem m.a. herragarðsþemað kristallast á nýjan leik, en það birtist áður í Gösta Berlingssaga sem hún sló upphaflega í gegn með, fann sinn tón í sorginni þegar fjölskyldan neyddist til að selja bernskubæinn Mårbacka. Eftir að Selma Lagerlöv hlaut nóbelsverðlaunin árið 1909 keypti hún Mårbacka og flutti til baka inní sögusvæði Gösta Berlings. Landamæri lífs og dauða og landamæri sturlunar og heilbrigðis eru þrædd af innsæi og beggja megin við í En Herrgårdssägen (og síðar í Kejsarn av Portugallien) þar sem hinn geðveiki herragarðseigandi Gunnar Hede vekur Ingrid úr dauðadái með sinni tónlist, og þar sem ást hennar reynist honum síðar læknandi máttur.
Það kvöld þ.e. fimmtudagskvöld var leshringsfundur á fallega bjarta heimilinu hjá séra Ágústi og Þórdísi konu hans sem er læknir og eins og venjulega þegar Íslendingar koma saman voru fleiri læknar á staðnum svo ég spurði hvern lækninn á fætur öðrum: hvað gerir maður til að fjölga í sér hvítu blóðkornunum? Eina þjóðráðið sem ég fékk var að hlægja og skemmta mér. Það var auðvelt því þetta er skemmtilegur hringur, svo ég notaði kvöldið vel; hláturinn kom í sínum rokum eins og óbeðinn ... þótt umræðuefnin væru háalvarleg. Og aðalsagan sem við ræddum hreint ekkert grín, heldur sænskt hunang fyrir hugann: En Herrgårdssägen, frá árinu 1899 eftir nóbelsskáldið frá Värmlandi, Selmu Lagerlöv (1858-1940). Stutt meitluð og mögnuð saga, þar sem m.a. herragarðsþemað kristallast á nýjan leik, en það birtist áður í Gösta Berlingssaga sem hún sló upphaflega í gegn með, fann sinn tón í sorginni þegar fjölskyldan neyddist til að selja bernskubæinn Mårbacka. Eftir að Selma Lagerlöv hlaut nóbelsverðlaunin árið 1909 keypti hún Mårbacka og flutti til baka inní sögusvæði Gösta Berlings. Landamæri lífs og dauða og landamæri sturlunar og heilbrigðis eru þrædd af innsæi og beggja megin við í En Herrgårdssägen (og síðar í Kejsarn av Portugallien) þar sem hinn geðveiki herragarðseigandi Gunnar Hede vekur Ingrid úr dauðadái með sinni tónlist, og þar sem ást hennar reynist honum síðar læknandi máttur.
***
Á föstudagsmorgni lét ég enn sækja mig heim eins og fína manneskju og mætti á fínu deildina mína með mína fínu ferðatösku. Nema hvað, það náðist ekki einu sinni að innrita mig áður en svarið kom: hvítu blóðkornin enn veimiltítulegri en síðast!
Þegar ég kom heim byrjaði ég að lesa mig til því ég hef ekki haft neitt vit á blóði hingað til. Las að séu rauðu blóðkornin of fá þá megi bæta úr því með járni og B12 vítamíni, en fann engin ráð á prenti til að bæta þau hvítu. Las hinsvegar að þau eru alvöru frumur með veggi og sum með fætur svo þau geti trítlað hingað og þangað og farið í stríð ef þarf hvar sem er í líkamanum og alveg útí húð. Svo ég býst við að megnið af mínum hvíta hulduher hafi bara trítlað í felur, hreiðrað um sig sem leyniskyttur einhverstaðar og gefi því engar mælanlegar upplýsingar um sig. (Vonandi léðrétta læknarnir mig ef þetta er óhugsandi hugsun.)
Til öryggis held ég samt áfram að hlægja - um leið og ég hef einhvern að hlæja með - og elda grænmetissúpuna hennar Önnu Pálínu (sjá Ótuktin bls.126) sem hún nefnir "Gulrótarsúpan hennar Gyðu". Ég nota grænar linsur í staðinn fyrir sæta kartöflu.
Ég er að vanda mig. Vanda mig við að súpa seyðið þrisvar á dag ... ef eitthvað dugar fyrir mitt hvíta varnarlið með sínum bakteríuátvöglum með fætur (neutrofila granulocyter) og án fóta; morðingjafumum og minnisfrumum (lymfocyter) að ógleymdu ræstingateyminu (monocyter), þá er það seyðið.
Á morgunn, mánudagsmorgunn mun ég leggja á stað með fínu littlu ferðatöskuna; láta sækja mig eins og fín manneskja ...
10 Comments:
Ef hláturinn fjölgar hvítu blóðkornunum þá hefur minn hvíti her stækkað við lestur þessa bloggs! Þarf annars að lokka þessi hvítu blóðkorn í herinn, er ekki herskylda enn við lýði í líkamanum. Ég er annars afskaplega ófróður um hvítu blóðkornin og hafði ekki gert mér grein fyrir að þessum hvíta varnarher væri skipt upp í herdeildir eins og öðrum herjum, sem hver hefði sitt hlutverk. Kannski er herinn til staðar, liggur bara í leyni eins og þú segir, en þá vona ég vona að hulduherinn þinn fari að koma úr felum, þannig að mælitækin taki mark á honum.
Kæra frænka, gott að heyra að þú getur tekið góða skapið í lið með þér, óska þér ótalins fjölda "hvítra hermanna" og alls góðs, ekki veitir af í þessari baráttu. Held að þú bara vinnir á með bjartsýni þinni! Haltu henni sem lengst.
Baráttukveðjur frá þinni móðursystur, Páleyju Jóhönnu.
Ef hlýjar hugsanir á Íslandi fjölga hvítum blóðkornum í Svíþjóð, þá sendi ég þér nokkur núna - bæði með og án fóta.
Gott að sjá að þú hefur farið að dansa með skrúfur og brunn (þetta hljómar eiginlega eins og spor í tangó).
Bestu tangóbaráttukveðjur.
er herskylda í líkamanum??????
ég er nefnilega með mikinn áhuga á því sem kallað er "military minded"
skemmtileg blogg, ég sé bók á leiðinni, sjúk ljóð, ... er annars að spila sidney o connor sem er loksins komin með nýjan disk, hún er frá írlandi en er með hljóðfæraleikara frá jamaica, ég hlýt að vera undirlögð af engum hvítum blóðkornum, ég fer aldrei út að skemmta mér en fór að leika í gær, og sló kærastann minn svoleiðis utanundir þegar hann sagðist vera fara og hafa planað það í marga daga ánþess að láta mig vita eða gefa mér færi á að kveðja, svo ég gaf honum þennan fína löðrung og ég er að segja það satt: Löðrungurinn var einsog víti á Heimsmeistarakeppni í fótbolta.
Jamm. Og svo gerðist ýmislegt fleira, en við lékum sirkus barnæskunnar þegar einhver tekur frá manni barnæskuna svo maður neyðist tilað búa hana til aftur og aftur því það var svo stórkostleg lífsreynsla, svo bíður maður bara og vonar að einhver vilji taka hana frá manni aftur.
Hitti Ingu Huld, við töluðum um þig, ég er ein um páskana og á afmæli á páskadag, var að taka til og yrkja í allan dag, verður maður að græða á þessum ástinni, hvort sem hún var ímynduð eða ekki ímynduð,
ég er í smávarnarstöðu, svo hissa eftir þetta víti, og jafnhissa yfir að einhver sagði ég væri á rangri hillu og ætti að vera í leiklist, en mikið á tangóinn gott að þú skulir ætla að tangóa þig í gegnum þetta, tangóinn verður glaður, og guð elskar þig,
ástarkveðjur frá mér og tunglinu og mínu tóma hjarta sem vill ekki hleypa sálinni að því sálin getur ekki hætt að elska, en sál á vergangi er það versta sem til er, sérstaklega á fullu tungli, svo
búmps, ég opna, þín Elísabet
leiðrétting: já, það var svo stórkostleg lífsreynsla að einhver skildi taka hana í burtu, svo maður vill upplifa þessa stórkostlegu reynslu aftur, sest á koppinn tilað búa hana til aftur og aftur....
þú ættir að kaupa þennan disk, það er gleði í þessari reaggie-tónlist
barnæskuna auðvitað!!! hana hverja, barnæskuna. þetta er síðasti koppurinn, ég lofa, ég lofa, þetta er síðasti koppurinn, bara einn kopp enn, segir barnæskudjönkarinn.
Ástarþakkir fyrir öll fallegu og skemmtilegu kommentin, með baráttukveðjum, sögum og tónlist og barnæsku .. Ég var að koma heim, komin heim komin heim, var sótt á spítalann af ekta tangópari á silfurlitum bíl eftir sex daga sæla .. og nú eru páskar
Já hvítu blóðkornin eru sko mögnuð, og líkaminn í heild sinni ef út í það er farið. Og lýsing þín á hvítu blóðkornunum sem hermönnum með hendur og fætur, er ekkert smá fyndin en í rauninni ótrúlega sönn. Þetta minnti mig á teiknimyndaþátt sem ég sá þegar ég var lítil. Hann gerðist innan í líkama, og allar frumurnar voru einvherjar persónur, og hvítu blóðkornin voru einmitt lögreglan sem handtók (og át..) bakteríurnar. Mjög skemmtilegt. Ég vona að íslenska lúpínuseyðið hafi tekist að fjölga hvítu hermönnunum þínum. Ég kem með aukaskammt til Danmerkur næstu helgi.
kveðja frá Freyju litlu frænku
Elsku doktor Freyja litla frænka mín; takk fyrir kommentið og að þú skulir leggja á þig að ná í seyði handa mér og burðast með það áleiðis; ég er voða heppin með systkinabörn eins og svo margt annað!!!
Post a Comment
<< Home