Vikan sem leið, annar hluti.
Norrænir höfundar á tröppunum ...
Miðvikudagur 15 febrúar 2006
Í Folkets hus eða Alþýðuhúsinu niður við Járntorg er veitingahús sem heitir Trappan.
Þangað lagði ég leið mína í kvöld þegar fjórir norrænir höfundar kynntu verk sín, allir tilnefndir til norrænu bókmenntaverðlaunanna í ár og því allir álíka ofarlega í tröppunum til þeirra. Það var kalt og ég nældi á mig kanínuhúfuna sem ég útvegaði mér í Reykjavík veturinn 1999-2000, áður en ég tók bláa expressvagninn. Rithöfundarnir fjórir voru Audur Jónsdóttir, Edvard Hoem, Claus Beck-Nielsen och Fredrik Lång.
Finnski heimspekingurinn Fredrik Lång lagði út og kynnti sig með eigin spakmælum; las svo kafla úr bókinni Mitt liv som Pythagoras, (2005) kynnt sem “Roman” en hugsuð sem heimildaskáldskapur held ég. Næst kom okkar Auður og kynnti sig og Fólkið í kjallaranum með beittri frásögn af því sem vekur ótta í dagsins Danmörku með sérstakri vísun í lífið á Nörrebro þar sem hún býr og hún sagði frá muslimum og öðrum brosmildum dönum ... sem og óttaslegnum. Fólk sem hefur þó voða lítið með brennheitar Muhammeðmyndir að gera. Og hvað hefur það með Fólkið í kjallaranum að gera? Jú, sú bók snýst um ótta.
Norðmaðurinn Edvard Hoem sagði Mors og fars historie, (Roman, 2005) sem hann kynnti sem sanna skáldsögu. Sagðist byggja hana á atburðum sem hafa gerst, skriva um fólk sem var til. Hann las kafla þar sem sögumaður er ungur drengur og spyr móður sína hvað það sé að elska. Og svarið opnar honum sýn inn í nýjan og dularfullan heim. Með leyndarmálum sem hann leitast við að ljúka upp: Móðirin var ófrísk að sínu fyrsta barni þegar hún giftist föður hans ... og smátt og smátt skýrist myndin af konu sem bar barn þýska hermannsins sem yfirgaf hana; og af trúuðum norðmanni í ástarsorg sem sá og sá aumur á “tysktösen”.
Frásagnaraðferð Edvards var mögnuð og ríghélt athyglinni. Hann lagði út með "sanna skáldsögu" og endaði með brot af mannkynsögu sem fjallar um ástir manns og konu á ákveðnum tíma; gaf í skyn að þegar fram líða stundir verður sagan eins og víðtækari, minna persónuleg og um leið líkari skáldskap. Loks kom Daninn Claus Beck-Nielsen fram og kynnti bókina Selvmordsaktionen. Beretningen om försöget på at indföre Demokratiet i Irak i året 2004 (Roman/prosa, 2005). Öfugt við Edvard Hoem sem skrifar lifaðan raunveruleika þannig að úr verður sönn saga sem tíminn og lesendur geta gert að skáldskap ... þá setur daninn líf sitt á svið til þess síðan að skrifa um það. Og raunar einnig dauða sinn; hann er sagður hvað þekktastur fyrir að hafa lýst yfir dauða sínum fyrir nokkrum árum og mun hafa þurft að skipta um nafn til að geta skrifað um sig látinn ...
Ferðin til Irak sem hann lýsir, er byggð á ferð sem hann fór þangað og bloggaði um til að byrja með; bókin mun að miklu leiti vera bloggið.
Óhætt að dansa
Fimmtudagur 16 febrúar 2006
Uppúr hádeginu tók ég lest og sporvagn til Maríu í Mölndal, tannsérfræðingsins míns við odontologen Mölndals sjukhus.
- Dansarðu ennþá, spurði María.
- Já. Jaa. Jú.
- Hvernig var það með Onkologen, ertu byrjuð í geislameðferð?
María gaf sér tíma bæði til að spjalla og gera tennurnar mínar eins hreinar og fínar og hægt er að hugsa sér. Hún hrósaði mér líka fyrir heimavinnuna síðasta hálfa árið. Lofaði að láta samstarfskonu sína athuga hvort einhverjir sérsamningar væru í gangi hjá eða við Jubileumsklinikken á Sahlgrenska. Gaf mér resept uppá sterkt fluorskol sem hún sagði að væri mikilvægt að taka einu sinni í viku fram að meðferð og svo á hverjum degi meðan á geislameðferð stendur. Og algert bann við sykri og sætindum þær vikurnar. Munnvatnið er heilsubætandi fyrir tennurnar svo þegar það er ekki til staðar er voðinn vís, karias myndast auðveldlega svo það er um að gera að vinna á móti því útskýrði María fullkomlega í takt við það sem ég hafði lesið mig til um ...
- En María, ég er búin að lesa eitt og annað óskemmtilegt á netinu eins og að fólk sem vinni með fólk með krabba í hálsi eða höfði sé undir sérstöku álagi, og þurfi held ég samtalsþerapíu og allt, því við breytumst og ljókkum og svo kemur vond lykt og kannski erum við líka bara yfir höfuð leiðinlegir sjúklingar alla vega ...
- Það er nú óþarfi að trúa öllu sem maður les á netinu. Það er hægt að skrifa hvað sem er á netinu, sagði María strax með viturlegri tortryggni.
- Jú, en þetta var ... ég hef lesið ... hver heldurðu ... ég las eitthvað fyrir fólk sem vinnur við Karólínska sjúkrahúsið held ég hver fer að skálda 100 síðna doðrant. Ég meina það er kannski ekkert skrýtið að þetta sé álag að horfa uppá mann og ef maður angar þar að auki.
- Veistu það, ég þekki fólk sem vinnur á krabbameinsdeildinni, hjúkrunarkonur sem eru bara mjög ánægðar og vinna þar áratugum saman og það gera læknarnir líka. Þetta sagði hún María mín í Mölndal blátt áfram; ákveðið og án þess að stynja.
Orð hennar voru eins og smyrsl á auman blett á sálinni.
Þegar hún var búin að bogra yfir mér í nærri klukkutíma sagði hún: Og ég get sagt þér at það er engin vond lykt út úr þér.
- Í alvöru!
- Alls engin.
- Svo mér er óhætt að dansa!
- Já, pottþétt, þér er óhætt að dansa ...
1 Comments:
Mikið hefurðu frábæran tannlækni-já- þeir eru alls staðar "englarnir" í kring um okkur- bara að maður nái að koma auga á þá!
Hanna frænka.
Post a Comment
<< Home