My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, February 09, 2006

Eins og mér líður núna. Óþekkt stefna.

Ég er farin að dauðskammast mín fyrir að vera með þessa krabbadruslu á hælunum ... sem sér til að aðrir hafi áhyggur af mér og sjálf lendi ég sennilega í því að biðja læknana að eitra fyrir mér og það sem fyrst! Að sjálfsögðu útfrá nýustu tækni og vísindum; en sé ráðist á meinið lendi ég einsog með ...

Finnst ég heigull: dauðlangar á leshringsfund í Páfalundi; mér er boðin bílferð fram og aftur en afþakka á síðustu stundu! Þróttleysið eftir svæfinguna fyrir tveim sólarhringum; hræðslan við hitabreytingar og sýkingar, er bara hluti af ástæðunni. Það rennur upp fyrir mér praktísk paradox: ég tími ekki að skemma umræðufund um bókmenntir og sögu með einhverju krabbameinshjali og treysti mér ekki heldur til að sleppa slíku hjali! Ekki eins og mér líður núna. Fullkomlega fáránlegt þó, því "leshringsfólkið" er einmitt fólk sem er í því að styðja mig á hugmyndaríkan og raunhæfan hátt!

Eins og mér líður núna er framhald af því þegar ég villtist á Sahlgrenska á mánudaginn var.
Þá kom mér á óvart hvernig ég brást við því að finna ekki réttu leiðina til baka frá svæfingarlækninum og heim á herbergi númer 7 á deild 125. Stúlkan sem fylgdi okkur þangað - mér og ungri stúlku sem fékk skrúfu bak við eyrað daginn eftir (til að festa heyrnartæki í) - benti okkur á gulu sporin í rangalanum milli okkar deildar og skurðdeildarinnar í annarri byggingu. En eftir samtalið við svæfingalækninn og læknanemann sem æfði sig í viðtalstækni á sænsku, æddi ég í vitlausa átt. Örugg tók ég nýja og óþekkta stefnu þar til rangalinn endaði án þess að ég sæi eitt einasta gula spor. Hvar var ég nú? Og hvernig var það, einhverstaðar tók maður lyftu til að skipta um hæð, eina og hálfa hæð upp á við. Á krossgöngunum var nóg af lyftum. Getur skipt sköpum hvaða lyftu ég tek? Tekur allt annað skipulag við fyrir ofan?

Við þessar kringumstæður treysti ég ekki á að ég myndi "villast rétta leið" og fékk panik þegar ég komst að því að starfsfólk sem var á ferð á þessum slóðum gat ekki sagt mér til vegar. Enginn vissi leiðina á deild 125. Farðu í þessa átt og niður í aðalinnganginn og út svo spyrðu til vegar í Information sögðu raddirnar og spítalinn var orðinn að risavölundarhúsi; ég farinn að haga mér eins og krabbinn sjálfur; gat ekki hugsað mér að fara út en læsti klónum í bygginguna innanfrá með æðibunugangi og ekka og fannst að enginn sæi mig lengi vel þar til ég hafði villst inn á ortopedröngtendeild; enn í dúnúlpu og stórum gönguskóm og ekkert nema plastarmbandið með nafni og númeri til marks um að ég væri einhvurskonar sjúklingur og innrituð á háskólasjúkrahúsinu. Ég fann klósett á deildinni mér til mikils léttis - enda ein af þessum víðu og vinalegu snyrtingum sem ég hefði komist inn í á hjólastól - og þegar ég kom þaðan út fann húkrunarkona uppá því að spyrja hvort hún gæti hjálpað mér. Hún bauðst til að kalla á Vaktmästare til að fylgja mér þangað sem ég ætti að vera og gaf mér stóran miða með hvert ég vildi, þ.e. númerið á deildinni sem leitaði að. Mér leið strax betur með að fá að vera eins og ofvaxið barn, en velti því fyrir mér hvort Vaktmästaren væri nokkuð heyrnarlaus. Ég settist niður með miðann og beið. Róaðist og beið. Svo kom Vaktmästaren eða gangavörðurinn og leiddi mig á réttan gang milli bygginganna. Útum glugga sá ég að fínu snjóflyksurnar frá morgninum voru orðnar að slabbi á götum sjúkrahússvæðisins. En Gulu sporin á sínum stað og Gröna Stråket líka.


Samt: sama hvað ég hugsa mér völundarhúsið vingjarnlegt eftir þetta, þá var eins og vantaði "góðan daginn" í það hús daginn eftir.

- Það er hrollur í mér, bæði andlegur og líkamlegur, tókst mér að viðurkenna fyrir Guðnýju Ásu í Páfalundi, þegar ég hringdi og staðfesti ákvörðun mína um að vera heima í kvöld.
- Ég skammast mín svo ... fyrir að geta ekki þegið þetta fína boð ..., viðurkenndi ég líka.
- Nei heyrðu: Þér má þykja það leitt, en að skammast þín, það máttu ekki gera, hljóðaði hið ákveðna og viturlega svar úr Páfalundi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home