My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, February 12, 2006

Ég dansaði í gær! Settist í Bláan Expressvagn; brunaði eftir snjóprýddum bökkum Gautafljótsins og niður á Járntorg. Mátaði ný TwistandTangó föt; fannst ég betri í þeim gömlu og á þriðja tímanum var ég mætt á síðdegismilongunni hjá Johan og Charlotte, Las Tardecitas við Esperantoplatsen. Sat og spjallaði við tangóvini og vinkonur, dansaði við Johan (sem ég dansa við á myndinni, frá því fyrr í vetur) og fleiri uppáhalds tangóara. Drakk kaffe latte með Lisu sem var ár í Buenos Aires, kom heim í sumar sem leið en tók sér þá hlé frá argentínskum tangó! Spjallaði við Maríu ljósmyndara og við Ann Elkjär flautuleikara sem vonast til að komast til Íslands í október með sýninguna Suzannah. Fékk faðmlags og fegurðarþörfinni fullnægt þann daginn ... og líka daginn áður því þá kom Inga Huld til Partille!

Hún kom með Allingsåslestinni og ég hitti hana við sporin. Við horfðum saman á tré sem hún tók eftir þegar við gengum um brúna fyrir ofan gömlu kirkjuna; það speglaði sig svo fagurlega og djúpt í ánni sem rennur hér í gegn. Säveåen. Áin er lítilfjörleg sem slík og líklega ekki djúp en hugsuð sem lækur er hún tignarleg. Þreytt og magnað breiddi tréð sig yfir ána; varð svart oní vatninu sem streymdi kyrrlátt og tréð - með rætur á blábrúninni - gerði vatnið líklega dýpra en það gat orðið.


Horfðum á himnabreytingar gegnum fíngert net hengibjarkanna við kirkjuna. Stilltum okkur þannig að lafandi greinar þeirrra síuðu birtuna, bláa og hvíta og bráðum logandi rauða ...

Inga Huld með brúnu derhúfuna á höfðinu, hlaðin gjöfum og sögum, búin að njóta sín á velsóttri Menningarvöku hjá íslenska Söfnuðinum í Frölunda og Leshringnum. Skapa stemningu með sér og fróðlegri frásagnagleðinni ... ég sé það fyrir mér.

Hún talar fallega um móttökurnar og um gestgjafa sína. Inga Huld talar vel um alla sem hún talar um og fallega um flesta og ég var svo heppin að hitta hana fyrir tæpum tuttugu og níu árum. Þá var vor. Þá var Kaupmammahöfn heimaborg okkar beggja.

Við borðuðum lunch á hvunndagslega veitingastaðnum með góða tælenska matnum við littlu ána ... hún valdi borðið og þannig gerðist það að við sátum við sama borð og ég sat með Ásu Ólafs bara sex dögum áður. Ég heppin með vinkonur!!!
Posted by Picasa

0 Comments:

Post a Comment

<< Home