My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, May 21, 2006

Ljómandi og skröltandi í vorinu

Þegar "geimferðabúningurinn" minn var tilbúinn fékk ég að taka mynd. Hann er mótaður eftir mér úr plasti sem var lagt á mann glóðvolgt og lagast svo að höfði og herðum meðan það kólnar.
Gloppóttur búningur sem slíkur ... :-)
Þetta er gert til að halda manni í skorðum meðan á geislun stendur og það í nákvæmlega sömu skorðum í hvert skipti svo hið persónulega prógram passi, þa.e. lendi rétt á manni. Og svo er kannski kostur að hægt er að teikna merkingar á búninginn í staðinn fyrir á húðina.

Svörtu rendurnar neðst eru til að setja festingar í, manni er hneppt niður á bekkinn - og koddann sem er pumpaður upp - hverju sinni í þessar mínútur sem geisluninn tekur og tækin sem minna á sneiðmyndatæki, ferðast sína leið til að geisla úr ólíkum áttum. Tekur bara fáeinar mínútur, og eftir fyrstu skiptin (þegar ég lá stíf og las bænirnar mínar lon og don) þá reyni ég ekki einu sinni að ímynda mér að ég finni fyrir því, hvað þá að nú verði geisluð sundur raddbönd, skjaldkyrtill og annað sem er í uppáhaldi hjá mér ...


Hver sjúklingur er inni c.a. 15 mín og mestur tími fer í að koma sér fyrir og annan undirbúning.
Ég mæti tvisvar á dag með 6 - 8 tíma millibili, flesta virka daga og er nú þegar held ég búin með 24 skipti af í allt 38.
Posted by Picasa Síðan er bara eftir Brachyterapy, (geislun innan frá) um miðjan júní.

- Ljómandi -

Så då blir du aldeles strålande! Sagði Riku Kotiranta þegar ég romsaði upp geislaprógramminu mínu, sem á að ljúka um miðjan júní. Geislameðferð heitir strålbehandling á á sænsku svo orðaleikurinn virkar ekki alveg á íslensku því þá verður setningin: Svo þá verðurðu orðin alveg ljómandi.

- Fer skröltandi til dyra -

Þeir bönkuðu uppá um hádegisbilið í gær laugardag tangóvinirnir Ralph og Riku, og þegar ég kom til dyra með statífið sem ég fékk lánað til að halda uppi vellingnum mínum meðan hann rennur gegnum sonduna sem ég fékk í vikunni, þá var mér tilkynnt góðlátlega að skröltið í mínum fylgifisk heyrist útá stigagang!

Elegant að fá herra sem svo stökkva til og hjálpa manni með þvottinn, uppdataera MP3 puttann og huga að öðru praktísku ...

Vona þeir sæki mig á síðdegismilongu í dag ... þeir eru undirbúnir, þora kannski að bjóða mér upp í varlegan Tangó. Skröltandi hjólastatívið þarf að sjálfsögðu ekki með, en ég með útvortisplastæð út um alla kinn og bakvið eyrað; plástur á nefinu og víðar sem flestir taka eftir sem taka eftir mér.


- Har du gjört dig illa? -

Þegar ég kom heim svona límd við sonduna á föstudaginn var þá spurði nágranni minn spontant hvort ég hefði meitt mig! Har du gjort dig illa? Spurði hann. Svo ég byrjaði að útskýra ... ég er í geislameðferð sem beint er á hálsinn og þá skemmist slímhúðin í hálsinum - það er dæmigerð aukaverkun bara - og mín var orðin flakandi sár svo ég gat hvorki borðað né drukkið lengur og ákvað að kvarta áður en liði yfir mig og var þá lögð inn í þriggja daga sondunæringarnám. Svo nú lifi ég lúxuslífi, helli í mig matnum án þess að finna fyrir því (í staðinn fyrir sviða og uppköst) og dópa mig með stífum verkjalyfjum.

Síðdegis í gær tók ég extra æfingu í því í að fara á mannamót með sondið því mér bauðst far á vortónleika Íslenska kórsins í Gautaborg sem tróð upp engilfríður í Frölundakirkju. Vissi að ég kæmi ekki flatt uppá alla með útlitsbreytinguna, því leshringurinn góði hittist í vikunni sem leið og það kvöldið fékk ég orlof frá Spítalandum/Jubileumsklinikken. Annars hefur það óneitanlega ollið mér vangaveltum þetta að bera hættulegan sjúkdóm, án þess að bera þess nein ytri merki... en það er annað blogg ...

Í dag er 15 stiga hiti og rigning. Hæpið fyrir bryggjutangó!

10 Comments:

Blogger kristian guttesen said...

Elsku Kristín, mín, að standa í þessu, þetta er nú samt ekta foríðumynd og aumingja þú að geta ekkert borðað, en ég er viss um að mamma þín heitin tekur röddina úr þér og geymir hana í lófanum á meðan þú ert í geislunum, svo setur hún hana aftur í, með slætti úr hömrum Önundarfjarðar og blíðum tónum úr húnvenska vatninu. Kannski stekkur upp einn og einn silungur. Takk fyrir þetta. Elísabet. Sjálf er í þunglyndi en er samt að skrifa leikrit og ætti kannski að blogga um það.

4:15 PM  
Blogger Kristinn og Stella said...

Gott að lesa bloggið þitt og þótt ég hafi áður fengið að heyra ýmsa búta frá ferlinu, þá er svo gott að fá að lesa þetta í samhengi, og þú segir svo skemmtilega frá. Varðandi röddina þína, þá var ég eimitt að hugsa um það á föstudaginn eftir að ég talaði við þig, hvað það er ótrúlegt að röddin skuli hafa sloppið, þrátt fyrir áhrif geislanna á hálsinn. Gangi þér vel áfram.
Kveðja, Stella

5:14 PM  
Blogger kristian guttesen said...

Búin að vera hálflasin, kvefuð í sófanum í dag og lesa Míkael Foucault sem segir að sálin sé búin til í réttarsölum með fulltingi geðlækna og sálfræðinga og annarra sérfræðiálita, sálin er fangelsi líkamans, ansi skemmtileg grein hjá honum Fúgó litla, ég er nefnilega að skrifa leikrit sem gerist í réttarsal, og ég sé fyrir mér heilan hóp af sálfræðingum sem hópast inní salinn á tilteknu augnabliki, einsog grískan kór, fyrir réttinum er hún Ella Stína litla. Enginn veit samt hver glæpurinn er eða hvort glæpur hefur verið framinn, enda skiptir það ekki máli, kannski þarf bara að komast yfir sálina úr henni. Fúgó skrifar að eftir líkamlegar píningar lögðust af hafi þessi ofuráhersla á sálina lags með þunga yfir réttarsalina,... og svo er líka spurt um persónuleika, meðvitund. Er persónuleikinn uppfinning valdsins? Gæti verið gaman ef einhver gæti svarað því. Fúgó myndi örugglega segja já, en bara stutta stund, og svo aftur stutta stund, þvi hann segir líka að valdið hreyfist til og frá, og þannig viðhaldi það sér, frekar en "með yfirráðum", kannski er hann að meina blikkljósin, einsog við börnin höfum svo gaman af, valdið er blikkandi ljós. Jæja, en sálin er allaveg ekki búin til í kirkjum, fjölmiðlum, vísindum, skáldskap, ...neitakk, hún er búin til í réttarsalnum. Hvað segir Hjördís við þessu?

10:51 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Leitt þú skulir vera lasin Ella Stína litta og gaman að þú skulir vera að lesa hann Fúgó ... og sviðsetja sálfræðigakór í verkinu þínu; en já hvað skildi hún Hjördís segja við þessu?

11:44 PM  
Blogger Freyja said...

Sæl elsku frænka. Rosalega finnst mér gott að þú sért byrjuð að blogga aftur. Nú er ég komin aftur á Frón og það er svo sem ágætt. Samt svo langt síðan ég sleit rótum hérna, að mér finnst eitthvað erfitt að festa þær aftur. Sjáum til hvað ég endist lengi. Gangi þér vel í restinni af geislunum og vonandi getur amma passað upp á röddina þína á meðan.
kveðja, Freyja

7:41 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Já þetta var falleg og snjöll mynd sem hún Elísabet bjó til ... og til hamingju elsku frænka mín með að vera orðinn dýradoktor á Fróni;vonandi að þú hittir einhverja rót að hnýta þig í.
Bara verst ef ég fæ ekki að sjá þig neitt í sumar, ætlaði nefnilega að fá hjá þér persónulega tilsögn í mexíkönskum salsatílum! en þú kannski heldur þeirri þekkingu við þar til við hittumst síðar :-)

4:43 PM  
Blogger Kristinn og Stella said...

Til hamingju með afmælið elsku systir. Vonandi áttu ánægjulega kvöldstund með gestinum og Kronikken, eftir geislandi byrjun á deginum.

5:00 PM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með afmælið elsku frænka. Við fylgjumst með blogginu hérna á suðurlandinu.
kveðja Lena

4:44 PM  
Blogger kristian guttesen said...

Kristín snillingur og afburðagreind og skáld og dansari og drottning yfir Silungsvatninu, ... fór á fætur í gær, af því einhver blaðamaður sagði að ég yrði fara á fætur ef ég ætlaði að skrifa svona mikið, já það eru komnar BJARTAR VORNÆTUR, bláminn er soleiðis ótrúlegur á nóttunni að ég fæ sting í hjartað og sársaukastreymi af því að lifa eitt vor enn, einsog venjulega á vorin, hin síðari vor, KEMUR ÞESSI BLOGGSÍÐA EKKI Á GOOGLE????

ANNARS allt í góðu, ég elska þig og fara ná í bodylotion af einskærrrri sjálfsást og regnbogaþrá.

Elísabet kveður að indíanasið og fer ánþess að kveðja. Ha ha ha.

8:38 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sæl og takk fyrir hamingjuóskirnar og gangi þér vel.
Kveðja, Árný Rún og fjölskylda
Drangshlíðardal.

11:13 AM  

Post a Comment

<< Home