My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, July 18, 2006

Endurhæfing, sólskinsdagar og sorgarfregn


Salsa á Liseberg


Í gær hélt ég áfram að dansa mig fríska ... fór í hvítu fötin mín; setti á mig græna derhúfu og arkaði út í sólina og til Liseberg í félagsskap Anitu vinkonu - sem byrjaði að dansa ballet um fimmtugt og mjókkar hraðar en ég - .
Á Polketten á Liseberg (tívolí gautaborgaranna) sér Adriane Mendes frá Braselíu um fjörið; stendur á sviðinu með herra sér til aðstoðar og leiðbeinir fyrst byrjendum i salsa og síðan framhaldsnemendum ... Ég ákvað að æfa stjórn og hélt nokkurnveginn út byrjendatímann en spottakorn inni í framhaldinu tók ég mér hvíld og sparaði mig þar til frálsi dansinn tók við; dansaði við nokkra sem ég kannast við frá fyrri árum ...og naut þess að horfa og hlusta þess á milli, örugglega nokkur hundruð manns á hringlaga dansgólfinu. Ljúft kvöld fullt af lífi og heitri tónlist sem er auðvelt að smitast af.

Ég hef ekkert bloggað um síðustu viku, svo ég ætla að rifja upp nokkur atriði, nokkurnveginn í krónólógískri tímaröð í þetta sinn.

Vinkonuheimsóknir og fleiri sólskinsferðir:

Sunnudaginn 9. júlí dreif ég mig loks á bryggjuna við Rauða Stein, við Gautelfur (um það bil undir ystu brúnni Älfsborgsbrunni). Það er alltaf gaman að koma þangað í góðu veðri og ég hafði mælt mér mót við Jóhönnu vinkonu sem var að koma frá Brussel, tók ferjuna í Belgíu og brunaði svo í land í Gautaborgarhöfn og beint á bryggjutangó!
Þegar byrjaði að rigna snemma kvölds þustu allir burtu (ekki hægt að snúast á blautri bryggju) og heim til sín eða eitthvað annað að horfa á lokaleikinn í fótboltanum. Vinkona mín - Jóhanna - bjó svo hjá mér fram á miðvikudag og sídegis sama dag kom Nína Elías brunandi frá Kaupmannahöfn og ég naut félagsskapar hennar fram á laugardag. Þannig að ég hef ekki haft tíma fyrir neitt óyndi í vikunni sem leið ... leiðin lá um stíga meðfram ánni, niður á strönd við Fiskebeck og uppað næsta sólskinsvatni.

Heimsókn á Sahlgrenska:

Þriðjudaginn 11. fór ég í heimsókn á Jubileumsklinikken á Salgrenska til dr. Jan Nyman. Hann var hinn glaðlegasti enda á leið í frí, ekkert að gefa mér á tilfininguna að hann væri að flýta sér þótt hann væri soldið seinn fyrir. Ég fékk fínar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að minka verkjarlyfin sem ég tek og önnur lyf við aukaverkunum: fyrst að minnka Diklofenakið - og þá líklega Ranitidinið við aukaverkunum af Diklofenaki; hætta með Fluconazol eftir tvær vikur þótt svampurinn geti tekið sig upp seinna, þá byrjar maður bara aftur; minka morfínið smátt og smátt þegar ég er farin að geta borðað, fara t.d. niður í 20 mg á dag af Dolcontíninu (með langtímaverkandi morfíni) .... en halda áfram með fullan skamt af panódíl, hætta með það seinast ...

Og ég fékk að vita að eðlilegt þætti að ég þyrfti að nota sonduna í c.a. mánuð í viðbót, fyrr er ekki trúlegt ég geti borðað nægilega þessa venjulegu leið gegnum munninn. Eitt sem kom mér á óvart var að ég á ekki að fara í sneiðmyndatöku fyrr en um miðjan september, því gert er ráð fyrir að geislameðferðin haldi áfram að virka í um þrjá mánuði eftir að meðferð er lokið!

Á móti vildi dr. Nyman fá að vita hvort meðferðin hefði verið erfiðari eða auðveldari en ég hafði gert ráð fyrir. Og ég gaf held ég dágóða skýrslu, allt frá því að ég var álíka hrædd við meðferðina og við sjúkdóminn og hingað til, með aðeins einu tímabili þar sem fór að spá í hvað myndi gerast ef ég gæfist upp og sleppti bannsettum geislunum sem ég hélt að ég væru að murka úr mér allt líf eftir fyrstu vikurnar, en mætti þó í læknaviðtal með tannbursta og bækur og lét leggja mig inn til að nærast. Þegar upp er staðið má segja að meðferðin hafi verið mun auðveldari en ég ímyndaði mér upphaflega því ég er enn á lífi ... og vel það.

Þú varst á 54! :

Doktorinn sendi mig í blóðprufu til öryggis vildi ganga úr skugga um að blóð mitt væri á réttri leið þar sem rauðu blóðkornin höfðu dottið niður undir hundrað í geislameðferðinni (og ég gat ekkert úr því bætt með réttu grænmetisáti). Meðan ég sat með mitt númer í blóðprufubiðröðinni var ég einn einu sinni minnt á að það eru ekki allir jafn heppnir og ég. Þá heilsaði mér kona sem ég ekki þekkti. Við hlið hennar sat einn af þessum sköllótu með kunnulegt andlit.
- du var på 54 ... jag minns dig! sagði konan. Skrýtið að ég skyldi ekki þekkja hana þá, ef hún var á sömu deild og ég..
- hm ju det stämmer ... en varst þú þar?
- nei maðurinn minn lá inni. Ég man eftir þér einn morgunn; þú komst í lyfjameðferð en varst með of lítið af hvítum blóðkornum og varst send heim, útskýrði konan og það dugði.
- ahh jú ég man ... þú varst svo reið að þú vildir helst kyrkja einhvurn lækni, því krabbinn hafði bara breitt úr sér meðan hann var í fyrstu meðferðinni sem var geislameðferð og svo fékk hann lyf sem ekki virkuðu... Jú ég man vel eftir þessum morgni .. hvernig gengur núna?
Svarið var að hann hafði fengið þrennskonar mismunandi lyfjameðferð og enn ekki komið í ljós hvort sú seinasta virkar. En þau voru ekki reið þann daginn; ljómuðu bæði af einhverskonar gleði og æðruleysi eins og þau væru búin að læra þessi undur: "að lifa með krabbameini".

Þetta minnti mig líka á aðra á deildinni eins og konuna sem ekki hafði getað borðað í heilt ár, gat bara opnað munninn aðeins út í annað munnvikið til að búa til orð og gera sig skiljanlega en fékk sinn velling í æð, meðan enn var leitað að réttu lækningaleiðinni. Og konuna með lúngnakrabbann í öllum beinum sem ég var á stofu með í byrjun og sem var með svo upplífgandi húmor en var svo veik að hún fékk ekki að fara heim til sín, heldur í annað athvarf, hugsað sem það síðasta. Fólkið með tappa framan á hálsinum sem mér fannst svo dularfullt í byrjun og fólkið með vibratörraddir til bráðabirgða ...

Sjálf hef ég meira að segja haldið minni rödd, bara lítilsháttar hæsi og annað ekki ... Ég er sannarlega "lyckligt lottad".

Andlátsfregn:

Seinnipart vikunnar eða fimmtudaginn 13. júlí barst mér sorgarfrétt í sólskininu; ég komst að því af hverju ágætur vinur minn í Stokhólmi - Haraldur Bjarnason f. 13.sept. 1945 - hafði ekki látið frá sér heyra síðan hann sendi mér SMS frá Honolulu í apríl. Hann sem talaði um að heimsækja mig með vorinu að lokinni draumaferð um Ameríku og Íslandsferð í maí; og lét svo ekkert frá sér heyra! Svaraði ekki einusinni miðsumarkveðjunni minni ... en fólk getur haft sínar ástæður og ég kannaði ekki málið fyrr en ég var að skipuleggja mína eigin draumaferð til Stokhólms í ágúst og fann að hvorki símanúmer né meil virkuðu; vinnumeiladressan kom til baka með þeim skilaboðum að maðurinn væri ekki til! Loks fékk ég samband við vinnufélaga hans í fjármálaráðuneytinu og fékk að vita að hann hafði aldrei komið heim úr sinni draumaferð; hann dó í ferðalok; fékk hjartaáfall í Orlando og skildi við aðeins fáum klukkustundum síðar. Blessuð sé hans minning.

Heimsóknir:


Mats Person leit við í hádegiskaffi á föstudaginn var, þann 14. Brúnn og ballanseraður nýkominn úr Dölunum (Dalarna norðarlega í Svíþjóð) þar sem hann er búinn að dunda sér í fríi í fleiri vikur ... hann var sammála mér að þetta væri óþægilega ósvífið þegar vinir manns láta sig hverfa svona fyrir fullt og allt og það á aðvörunar! Fólk sem maður gerir ráð fyrir sem samferðafólki ... vill bara að sé á sínum stað þegar maður þarf á því að halda en svindlar svo þegar öldrunarferlið er varla byrjað! Víst getur maður verið frekur á vini sína og víst er það er smart að geta horfið glaður á braut þegar allt leikur í lyndi og án langvarandi þjáninga.

Á morgun á ég von á Lalla littla bróður og frú Særúnu; um helgina kemur Stina Ekblad og í næstu viku Stella systir og Kristinn á leið meðfram vesturströndinni á litlu tangóhátíðina í Krokstrand og svo áleiðis til Bergen og Íslands.

3 Comments:

Blogger Kristinn og Stella said...

Takk fyrir þetta fína blogg. Mér virðist "Skypið" á þinni tölvu, Kristín, hugsa sjálfstætt og ég fæ að sjá ýmist klukku eða tungl án þess að þess að þú sért nokkuð að stilla!

12:15 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

fínt að vita að skæpið skuli hugsa fyrir mig þegar ég gleymi mér eða módeminu; það hlýtur að vera með skynjara sem fattar þegar ég fer út og setur þá upp túngl og skiptir í klukku þegar ég kem aftur!

1:14 AM  
Blogger kristian guttesen said...

Já takk fyrir þetta Kristín, skemmtilegir kaflar og sumir nöturlegir, hér skín sól, allir búin að gleyma hvað sól er en allt uppí 40 stiga hiti í Laugardalnum, góðar kveðjur, þín Elísabet

12:35 PM  

Post a Comment

<< Home