My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Friday, July 07, 2006

Undur og ævintýri

Mynd: Tilbúnar á Milongu í Kaupmannahöfn 1. júlí s.l.
Stella systir t. h.
Kristinn mágur tók myndina og sést því ekki ...

Eins og sjá má ef rýnt er í þessa mynd hafa gerst undur á mínum hálsi; ég er komin með nýja húð! Og sú nýja er ekki einu sinni flekkótt, hvítu flekkirnir sem sjást er 1. stk eyrnarlokkur úr perlumóður og svo sondan ... ég fann húðlitan plástur í apótekinu til að punta mig með - eftir ábendingu frá Frú Fagrafjalli (tannsérfræðingnum mínum) - í stað hins hvíta sem hefur haldið sondunni i skefjum.

Og seinasta ævintýrið gerðist í framhaldi af hinum heilsubætandi miðsumartangó; mér datt í hug að ég ætti auðvitað að halda áfram að dansa mig fríska og skella mér á maraþontangó í Kaupmannahöfn í vikunni á eftir. Ég nefndi það við Stellu en rann þó á rassinn með þá hugmynd eftir því sem dagarnir liðu; m.a. óx mér í augum að burðast með heilan kassa af apótekarvelling með mér á rútuna fyrir utan ballföt, skó, meðul og dót. Í miðri viku bauðst hún svo til að sækja mig þennan spöl sem er á milli okkar, nánar tiltekið c.a. fjögurra tíma keyrsla! Mér fannst það klikkað en of skemmtilegt til að segja annað en já takk ... og svo komu þau hjónin - Kristinn og Stella - brunandi ... og til baka samdægurs með mig sem farþega.

Við fórum á síðustu tvær maraþonmilongurnar, þ.e. föstudagskvöld og laugardagskvöld, báðar á Tingluti og sú fyrri var raunar i umsón La Milonga (sem eru fimmmenningarnir Monica & Lasse; Celeste & Trygve og Jorge) og lokaballið þeirra fyrir sumarfrí. Síðan haustið 2005 hafa þau gefið út aðdáunarvert tangórit og fjórða heftið var nýkomið út með greinum og viðtölum um sögu tangósins; um dansinn og tónlistina ...

Á laugardagskvöldið 1. júlí, sýndu kennarar maraþonhátíðarinnar, mínus Constantín frá Berlín sem var rokinn af svæðinu. Esteban og Evelin frá Montevideo voru hápunkturinn. Með látlausu yfirbragði dönsuðu þau svipmikinn Tango Nuevo. Ungt par frá Rio de la Platasvæðinu með dæmigert suðurameríkanskt útlit og mun minna evrópskt en megnið af Buenos Airesbúum verða að láta sig hafa. Þau komu mér skemmtilega á óvart, alveg nýtt par í mínum heimi. En nú sé ég á netinu að þau voru meðal úrvalskennara á heimsins stærstu tangóhátíð CITA í Buenos Aíres í vor; Þegar ég sá þau dansa fór mig að dauðlanga á námskeið hjá þeim og það sem fyrst Posted by Picasa
***

Þetta var fyrsta langferðin mín síðan í janúar og trúlega síðasta heimsókn mín til Stellu og Kristins á Emdrupvej því þau eru að flytja aftur til Íslands um næstu mánuðarmót. Heima hjá þeim varð Stella allt í einu einsog á hjólum í kringum mig í hvert sinn sem ég nærðist; ég er bersýnilega orðin svo háð hjólastatífinu sem ég hengi næringuna mína uppí hér heima, að ég kann ekki lengur að hreyfa mig á eigin fótum með vellingspoka í hendi - ef mér dettur í hug að mig vanti eitthvað - bara útaf að hann hangir á einhverjum völdum stað í loftinu ... á herðatré!

Þegar Marianne vinkona kom hjólandi út í Emdrup kom í ljós að ég var mun duglegri til gangs en ég hélt; við könnuðum Utterslevsmose í sólskininu einn daginn og strandlengjuna við Charlottenlund - með S&K - hinn daginn. Og þegar vellingsferðabyrgðirnar voru búnar á sunnudaginn var, tók ég rútuna til baka til Gautaborgar og síðan hefur heit vika liðið.

***

Ég átti tíma hjá nýjum tannnlækni á tannlæknaháskólanum í byrjun vikunnar - yfirlækni á deild sem ég hef ekki verið á áður - og eitt það fyrsta sem bláókunnugur maðurinn segir var á þessa leið: Og þú ætlaðir að dansa miðsumarhelgina; var það ekki? Ég skildi straks að doktor Fagrafjall hafði undirbúið komu mína vel. Og þessi ókunni doktor var svo ánægður með játandi svar mitt og persónulega lýsingu á tangónótt bara viku eftir að ég staulaðist úr síðustu sjúkrahúsvistinni að ég kunni ómögulega við að bera í bakkafullan lækinn með frásögn af tangóleiðangri til Kaupmannahafnar!


***

Næsta tangóhátíð í "nágrenninu" er á Krokstrandsfestivalen við landamæri Noregs, í lok mánuðarins. Og þar sem mér varð á að lofa að skila rapport til Danstindningen í Stockhólmi strax fyrstu vikuna í ágúst, þá sá ég mér til hrellinngar að ég er með því búin að útiloka sjálfa mig á sögulegan viðburð: norrænu hátíðina Tango del Norte í Kaupmannahöfn 2 - 6 ágúst. Nema þá hugsanlega á síðustu nóttina ...

10 Comments:

Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Takk fyrir athyglina! Og kveðjur norðan úr landi! Nú er ég farin að gera soldið eins og mér skilst að pólitíkusar geri: að breyta bloggi eftir að búið er að kommentera ... það var smá hali sem vildi ekki festast í geimnum í gær en nú er hann kominn á sinn stað. Vona að háttalagið styggi ekki þig og aðra yndislega kommetarara.

12:26 PM  
Blogger Kristinn og Stella said...

Takk fyrir síðast og þetta fína blogg ásamt mynd. Gott að sjá að mynd af þér eins og þú lítur út eftir að þú losnaðir við kúlur og þræði. Ég get líka staðfest að húðliti plásturinn fer þér (og sondunni) betur en sá hvíti.

5:07 PM  
Blogger Jóna Finndís said...

Frábært hvað þú ert hress og kát og dugleg að drífa þig út að dansa elsku frænka!

Takk fyrir kommentið á nýjasta sportið mitt á Sölvabakkavefnum, ég læt vita þegar ég kaupi mér mótorhjól sjálf ;-)

2:40 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Aaah, takk Jóna Finndís; já mikið væri það gaman ... það er svo skelfing langt síðan ég sat aftan á hjá Lalla littla bróður ;-)eina mótorhjólagæjanum í fjölskyldunni í gamla daga!

10:50 AM  
Blogger kristian guttesen said...

mið ertu heppin að eiga þessa systur, yndisleg myndin af ykkur, og gaman líka að eiga tangósystur, ég er hér að henda út húsgögnum og færa önnur úr stað, svona tilað geta fært eitthvað í heilabúi mínu úr stað en þar er allt pikkfast, og já einsog köggull, sama hvað ég skrifa og hugsa, svo ég er búin að henda sófaborði, sjónvarpsborði og var að hugsa um að henda tveimur sófum og einum bókaskap í viðbót, en þegar nágrannakona mín frétti að einarben hefði átt sófann, þá fannst henni ég ætti ekki að henda honum þótt hann líti út einsog rónasófi, nenni engu, hangi á tröppunum og henti líka ljósakrónunni sem Algea eyðilagði þegar hann reyndi að skipta um perur, hún var búin að hanga hér uppi síðan ég skildi, en er nú komin útí tunnu, jamm, og er svo að hugsa um að henda líka tveimur lömpum sem vantar á skermana, og ef ekkert færist til í höfðinu á mér þá fer ég suðrí Hveragerði tilað athuga hvort flekarnir, ameríkuflekinn og evrópuflekinn sem hægt er að sjá í gegnum gat á bókasafninu hafi eitthvað hreyfst til, og ef þeir eru enn pikkfastir, þá ætla ég að ýta þeim aðeins til og frá, en þetta er eitt merkilegasta stopp sem ég hef farið í á mínum rithöfundaferli og komst nú síðast að þeirri niðurstöðu að allir eiga mig nema ég sjálf, skólinn á mig, ástin á mig, skáldskapurinn á mig, börnin eiga mig, allt á mig, ég þoli þetta ekki, nenni ekki í sund eða vinna fjórða sporið, vil bara vera í þessu stoppi, stoppið á mig, og hvað getur látið mér líða betur, að ég skilji einhverstaðar á milli, draums og veruleika, ég er búin að því, metafóru og ekki metafóru, það kom hérna 19 ára stúlka á tröppurnar og hún var ekki metafóra, þú sérð ég kommenta mjög mikið á bloggið þitt, mér sýnist ég vera byrjuð á ævisögu minni, kannski á ég að fara til útlanda, því þá fengi ég svo mikla heimþrá eða ekki heimþrá, vesenið á mig, þetta er skemmtilegt blogg, bara hvað sem er á mig, bara ekki ég, af því ég ætla ekki að fara demba yfir þjóðina einhverju sambandi með kynlífsfíkn og dauðahvöt, þjóðin á mig, alltaf eitthvað sem hertekur mig, ég er nýlenda, hvar er næsti nýlenduherra, kannski ætti ég að skipta um nafn, nafnið á mig, hvernig öðlast fólk frelsi, hvernig slítur það hlekkina, ég held ég fari aldrei útúr húsinu en ég get skrifað endalaust um það og beðið póstinn um að taka handritin, jæja, þetta er allt blekkingar sem ég er að búa til, hindranir, því ég held ég sé góð í hindrunarhlaupi. ég er að reyna að skrifa mig frjálsa, ... kær kveðja, Elísabet hugumstóra

5:48 PM  
Blogger kristian guttesen said...

ert þú fagrafjallskona,... án þess þið séuð gift, heldur bara svona í fjalla og fegurðarsambandi.

5:54 PM  
Blogger kristian guttesen said...

held ég sé búin að leysa gátuna: Ef sektin á mann, getur allt annað átt mann, þá er hliðið alltaf opið, vantar meiri sekt, gjöriði svo og koma inn um hliðið, en ekki kalla sektina sekt, kallið hana trekt og hellið svo sektinni í ellu stínu svo hún verði blekkt, svekkt og hvekkt.

5:55 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Einmitt kæra hugumstóra; í fjalla og fegurðarsambandi! þótt frú doktor Fagrafjall vinni á Meðalafjalli (Medicinerberget) uppi á áttundu hæð í húsi þar sem hún getur horft niður á flugvöllinn á þaki annars húss ... þá er hún og verður Fagrafjall herself og hún á það til að faðma mig þegar ég fer eða kem ...

1:07 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

og elsku Ella Stína ég sé þú ert að skrifa þig frjálsa og grunar að þú sért kannski sammála Glenn Gould - þú veist færa og fagra píanistanum með vettlingana - sem sagði að frelsið væri best að finna í lokuðu herbergi, í fangelsi með góðri loftræstingu og helstu nauðsynjun en því þrengra því betra skilst mér ... það er leiðin til að finna frelsið sem þá finnur sér leið í manni og kannski lengra ... og nú veit ég ekki lengur hvernig frelsi getur verið í laginu, e.t.v. líkt og "sjálfið" sem fólk talar um og sem mig grunar að sé refur með loðið skott svo ég noti nú metafór um annan dáldið dáinn metafór - sem er alltaf að deyja af því hann er ómynd eða réttara sagt hugmynd án myndrænu ... og nú er refurinn að bíða eftir að þú takir hann með sér í hindrunarhlaup ...

1:09 AM  
Blogger kristian guttesen said...

sé þetta alveg fyrir mér; ella stína og refurinn í hindrunarhlaupi, milli þess sem þau dansa í lokuðu herbergi, merkilegt annars hvað ég skrifað mikið um dans, ég samdi einu sinni dans, þá var ég í maníu, ég dansaði hann í þakherberginu með snæfellsjökull í blóðinu og einsog strá sem sveigðist. takk :) und ;))))

3:34 PM  

Post a Comment

<< Home