My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Saturday, October 07, 2006

Október og athyglissýki

Ég hef verið svo upptekin að dansa mig fríska og njóta lífsins að bloggið hefur geymst vikum saman. Var að átta mig á því að tryggir lesendur gætu haldið að ég sé öll! Svo ég dreif í að birta mynd í vikunni! Ég á þó vini og vandamenn sem enn spyrja eftir mér og ég finn mig í að segja söguna af mínu meini og lækningum þess á ýmsa vegu; tala ýmist um þetta haust sem eina samhangandi veislu ... eða byrja óbeðið á fyrirlestri um HPV-veirur (einsog allar hundrað tegundirnar séu undir einum hatti!), og niðurstöður úr rannsóknum; hve oft þær mælast í “tonsilcancer” -þ.e. í krabbameini í hálskirtlum - og lækningalíkur út frá því. Víst lítið áhugavert nema fyrir þá tiltölulega fáu sem eru að bauka við akkúrat þann krabba. En það er þó einkum papillomavirusinn hpv16 sem er til umræðu, þekktur fyrir að valda krabbameini í leghálsi og í fréttum undanfarið hefur verið hið nýtilkomna bóluefni gegn þeim vírusi og hvernig beri að nota það. Kannski gáfulegra að benda á rabb við sérfræðinginn Claes Mercke fyrir þá sem eru forvitnir um "tonsilcancer".

Og birta bút úr vinkonubréfi sem ég sendi í loftið ... með smá innskotsleikritileikriti:

... um krabbameinið mitt sem ”liggur við að ég "sakni", en er samt ofboðslega fegin að vera jafn laus við og hugsast og mælst getur og sjá má að svo búnu! Enn fegnari hvað mér er farið að líða vel. Þótt ég sé ekki beinlínis komin með söngrödd þá fannst lækninum mínum dr. Nymann (sem ég var hjá núna á þriðjudaginn) það bara eðlilegt útaf meðferðinni, því fyrst þarf bólgan innan og utan á hálsinum að renna burt ... svo nú er ég ákveðin í að dansa bara því betur! Sneiðmynd sem var tekin um miðjan september sýndi ekki annað en að æxli og allir þess angar væru á bak og burt!!! Snemma í september losaði ég mig loks við sonduna og byrjaði að borða eins og manneskja, eftir meira en fjóra mánuði á apótekarvelling gegnum nefið! Þetta þýðir að ekki sést að neitt hafi verið að mér, nema vel sé að gáð, þá birtist kalkúnhálsinn eða undirhakan, hárlaus blettur bak við eyrað og þeim sem þekktu mig bústna finnst ég óþarflega beinaber, en sjálf er ég mjög ánægð með að loksins nálgast Tviggystílinn.


Doktor Nymann hlóg soldið að mér í nýju þröngu gallabuxunum mínum ... en doktor Fagrafjall sem ég var hjá daginn áður fullyrti að ég væri bara beinahrúga! Hún brást spontant við nánast um leið og ég birtist og spurði hve mikið ég hefði eiginlega lést. Þá var það ég sem hló og sagði að nú væri ég loksins komin í draumaþyngdina, svona tólf kílóum léttari en þegar meðferðin byrjaði.


- ég er svo ánægð og ekki er ég mjóslegnari en þú hahahah!!! þú ert fyrirmyndin mín jag tycker du är en bra förebild för mig...
- heyrðu mig nú, þetta þurfum við að ræða sagði tann- og kjálkadoktorinn minn. Þú ert mjórri en ég; hur mycket väger du?
- Ok ég skal játa að ég er með soldið brenglaða og lotugræðgislega sveltusýkissýn, finnst ég alltaf of feit sama hvað viktin segir, jafn mikið offeit hvort sem ég fer 10 kíló upp eða niður!
- Ég er líka með anoretíska sýn á sjálfa mig, - maðurinn minn er sá sem bregst við og minnir mig á - en ég er raunsæ á aðra! Hvað ertu þung?
- Ég er byrjuð að fitna smá, orðin 55 kíló. Má ekki fitna meir.
- Þú ert of létt. Sýningarstúlkur fá ekki að vera svona léttar. Ekki lengur. Þú er örugglega með minna BMI en ég ... hvar er nú spjaldið ...
- Heyrðu, þú ert 1.75 m á hæð og látum okkur sjá þá áttu að vera yfir 60 kg til að vera með lágmarks BMI, 20 - 25 er normalt. Hún var komin með eitthvurt litaspjald og upplýsti mig um að mitt BMI væri nálægt átján, en hennar eigið yfir tuttugu, sem sagt væri ég með ranghugmyndir.
-

Hvað er það þá sem ég sakna? Hm. Spúkí þetta hvernig sjúkdómur verður hluti af sjálfsmynd. Ég hef fengið athygli, heilmikla og líklega lífsnauðsynlega. Nýja tóna í vinasambönd, nýtt fólk sem skipti sér af mér; og nýja tegund af athygli líka útaf að ég dreif mig í dansinn meðal fólks, þrátt fyrir sondu og mismikið þrek ... þá spurði fólk. Hvað er að hvað hefur gerst og hvernig hefurðu það ...
Nú spyr ekki endilega neinn! ég tók eftir því í vikunni sem leið bæði á milongunni og í matarboði.
Ég tók líka eftir hvað ég var ánægð á mánudaginn var í heimsókninni hjá doktor Fagrafjalli, sem var svo umhugað að ég passaði inn í skalann yfir hið normala. Og að henni stóð ekki á sama hvað ég var stirð og aum í kjálkunum og gat lítið gapað; hún fór strax að kenna mér kjálkaleikfimi - alveg rétt, ég á að gera æfingarnar nokkrum sinnum á dag! – og skrifaði tilvísun til annars sérfræðings við tannlæknaháskólann.

Er að spá í hvort ég fengi athygli ef ég gæfi út ljóðakver fyrir jólin. Og er að minna mig á að ljóð eru alls ekki leið til að vekja athygli og jafnframt að ljóð geta verið örfandi, uppbyggjandi, heilsubætandi og kúl, líka fyrir aðra.

Á pantað far til Íslands 22. nóvember. Þannig er það. Ef ég leggst ekki í útgáfu, held ég bara áfram að skrifa um veðrið!



*

7 Comments:

Blogger kristian guttesen said...

Sjúkdómur hluti af sjálfsmynd, Já ég stjórna heiminum með minni geðveiki og mínum alkóhólisma, og svo er ég auðvitað með þráhyggju, sem oft smeygir sér inní ástina en annars hvað sem er, ég þarf ekki annað en að nefna geðhvörf, þá tekur fólk andköf og lætur mig hafa lottótölurnar, svo get ég sagt hryllilegar sögur af fylleríi og geðveiki og ástsýki og þá virkilega á ég sviðið og þarf ekki annað en að gera en halda mig í ljósinu.

Gaman að þú skulir vera koma heim. Ég elska þig og yndislegt að þér hafi batnað.

1:39 PM  
Blogger kristian guttesen said...

OG þegar maður veikist verður heimurinn ég svo ég stjórna líka sjálfri mér harðri hendi með hræðslulsögum, hræðsluáróðri og hrægömmum, og svo verður allur heimurinn veikur og heimurinn er ég og svo er maður fastur í mótsögninni og þá virkilega fílar maður sig, sérstaklega ef maður veit ekki af þessu fyrren maður les blogg vinkonu sinnar, þá rennur upp fyrir manni ljós og maður æpir hjálp, hífið mig uppúr pyttinum.

2:05 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Er þetta ekki spurning um að plata sig passlega? Og reyna ekki að plata aðra meira en sjálfan sig? ég þarf stundum að minna mig á að ég er jafn frísk og mér finnst ég vera, þarf bara að læra að lifa með nokkurm aukaverkunum; öðrum stundum minni ég mig á að ég á að vera á vaktinni ef einhver míkrómeinvörp liggja nú í leyni til að fara á kreik síðar - eins og er víst algengt - og þá þarf ég að minna mig á að gleyma þeim möguleika en minna mig samt á að ég ætti að geyma passlegan skammt af húrrahrópum í eins og eitt ár,og annan skamt kannski fimm.

Jú líklega snýst þetta allt um að losa sig út úr daglegum mótsögnum og til að fatta það þarf maður að lesa komment vinkonu sinnar.

2:04 PM  
Blogger kristian guttesen said...

Já ókei. En ég er að pæla í hvort maðurinn sem kom hérna síðast hafi verið The Candyman. Í glugganum mínum hanga tíu skrautlegir sleikibrjóstsykrar á herðatré sem leynivinurinn minn gaf mér. Ég átti leynivin í viku í skólanum. Þetta er svo fallegt og líflegt og skrautlegt, getur það verið svo satt að hann hafi verið The Candyman. Ætla ég aldrei að stækka. Bara loka augunum, mínum fögru augum. Jæja, ég er að fara á AAfund. Gaman að vera til.

9:57 PM  
Blogger kristian guttesen said...

ég var að frétta að ljóðin þín væru frábær, yndislegt haustveður hérna, og ég hef ekkert skrifað kærastanum í fjóra daga, er bara hugsa um að leyfa honum að eiga sig, .... jæja, það er best að reykja, ég er að deyja úr stjórnsemi, blekkingu og sorgarsögu. um hvað á ég svo að skrifa. Vatnajökul.

12:53 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Jamm og já. Mannstu þegar við kysstum snæfellsjökul? Bara rétt blábrúnina ... og fórum svo í kringum hann alla nóttina! Allra fallegustu nóttina. í júní fyrir rúmum átta árum!

1:37 AM  
Blogger kristian guttesen said...

já, ég hætti að reykja á mánudaginn síðasta og aðeins búin að tyggja en drekka vatn og borða ópal, og detta niðrum göt tómleikans, ást og knús. Þín elísabet

8:33 PM  

Post a Comment

<< Home