My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, August 28, 2006

Dagbókarbrot frá Dans och teaterfestival í Gautaborg 18 - 26 ágúst

Það var enginn tangó á dans og leiklistarhátíðinni í ár. Hefði þó átt að geta passað inn í þemað Minningar og Goðsagnir! Hefði mátt biðja Afturgöngurnar - bæði argentínskar og norskar - að koma við með TanGhost á leið á Ibsenhátíð... (myndin er hátíðinni óviðkomandi, en tekin við landamæri Noregs og Svíþjóðar í júlílok). En fullt af fínum sýningum frá Asíu. Það var sérstakur leikhúsmaður frá Singapore í því að sameina Everópu og Asíu. Maðurinn hlýtur að vera ofvirkur því undarlega margar af sýningunum sem hann hefur náð í eru undir áhrifum frá honum sjálfum eða hann hefur hreinlega kóreograferað. Hann heitir Ong Keng Sen og sér meðal annars um Open lab, þar sem listafólk úr ólíkum áttum heldur kúrsa; hleypir hvert öðru inn bakdyrameginn; spáir í hvað móti sjálfsmyndir okkar. Ong Keng Sen hefur sjálfur sviðsett Geisha, sýningu sem bregður fæti fyrir sjálfri sér, en með húmor, fegurð og skemmtilegum hugmyndum svo flettist ofan af goðsögnunum, með ýmsum menningarlegum lykilaðferðum, séð með gleraugum frumleikans sem og kynjafræðinnar... Geishan er listaverk, eða brúða ekki "alvöru" kona ... ef marka má umsagnirnar. Ég missti af Gæsunni rétt eins og opnunarsýninguna VSPRS á sviði Óperunnar, sem belgíski danshópurinn Les Ballets C de la B stóp fyrir.

Engar venjulegar brúður:

Sunnudagur 20. ágúst.

Ég dríf mig á síðustu stundu til að ná í fráteknu miðana mína á miðasölunni niður við Pustervik; ætla að sjá franskan nýcirkus síðdegis, byrja á að njóta áður en ég legg á mig meira krefjandi sýningu með kvöldinu. En miðasölustúlkan hefur ekki lesið allar línurnar í mínum pöntunarlista, og það er uppselt á franska cirkusinn í í tjaldinu við Hagakirkju.

- Uppselt! Hvað þá ... ekki get ég hangið hér í þrjá tíma þar til kvöldsýningin byrjar.

-Við skulum sjá, það byrjar sýning frá Laos í húsinu við Rósagarðinn eftir hálftíma. Það er brúðuleikús og nóg af miðum.

- Brúðuleikhús! Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki á sviði þá eru það brúður. Ég fæ nú í magann bara við tilhugsunina ...

- Þetta eru engar venjulegar brúður, segir miðaafgreiðslustúlkan mín og lætur sér hvergi bregða.

- Hvurnig þá ekki venjulegar? Þær eru gerðar úr rusli. Afgangs grænmeti og ávaxtahíði, en mest úr rusli.

- Jahá. Og gerist eitthvað?

- Þetta er sjúklega góð sýning, brúðurnar eru ekki einar á sviðinu, leikararnir sjást. Þeir eru með allan tímann, leika með og ja eiginlega breytast þeir í brúður líka!

- Jasså. Gera þeir það virkilega.

- það hefur ekki sést neitt þvílíkt hér um slóðir, þetta er alveg einstakt tækifæri ...

- Og nóg til af miðum! láttu mig fá einn ... ég hef ekkert betra að gera og svo get ég bara labbað út og skoðað rósir ef mér leiðist, rósaríið alveg við hliðina ...

Miðaafgreiðslusúlkan reddar mér auk þess sirkusmiða í miðri viku, svo þetta varð hið besta mál.

Ég næ sýningunni í tæka tíð og hitti fólk úr sænsk - kambódíönsku menningarsamtökunum sem segist mæta útaf að Laos er næsta land við. Leikhópurinn heitir Ka Bong Lao og býður okkur í sérkennilegt ferðalag um ímyndunarskóg og kynnumst m.a. öndum þeim sem innfæddir álíta að lifi í öllu og nefna pii. Skemmtilegust þótti mér sýningin þegar samspilið milli brúðu og leikara varð flækja í sjálfu sér, eins og þegar brúðan burstar tennur sínar -og augnatóftir - og svo byrjar brúðustjórinn að gera slíkt hið sama! en brúðan sér svindlið lætur það ekki viðgangast; skammast þar til brúðustjórinn dregur sig í hlé og stjórnar brúðunni; síðan er sviðið hennar.

Sætin í þessu leikhúsi voru baklausir bekkir, og ég lagði ekki í fleiri sýningar þann daginn. Hinsvegar fékk ég mjög jákvæðar fréttir af Þýsk-írönsku sýningunni Letters from Tentland - Return to Sender, um (og með) sex iranskar konur í útlegð frá Iran, stjórnað af þýska danshöfundinum Helena Waldmann. Ég gaf annarri konu miðann minn og fór sjálf í rósagöngu með Önnu Mattson sem nú er alkominn heim frá Kambódíu og situr og þýðir m.a. Linu Lángsokk yfir á Khmer.


I am a Demon:

Mánudagur 21. ágúst

Ég ákvað að sjá þessa sýningu I am a Demon, þegar ég hélt að Ella Stína yrði á ferðinni og kæmi með mér í leikhúsið. Trúlega út af titlinum, því þetta er sýning frá Tælandi, med klassískum tælenskum kóreograf og dansara að nafni Pichet Klunchun; gerð í samvinnu við TheatreWorks í Singapore, þ.e. dæmið hans Ong Ken Sen. Þetta reyndist heillandi sýning og svo fullkomin með ótrúlega slungnum dansara með guðdómlegar hreyfingar ... svo ég sofnaði. Svo fínstemnt að ég svaf í dágóða stund - sýningin stóð annars bara yfir í klukkutíma - og ég vaknaði áður en hún var búin og hélt áfram að dást að dansaranum...sem sagðist dansa Demóna útaf að hann væri með þannig líkama, langt bak og stuttar fætur, svo upplagt fyrir yfirnáttúrulega veru. Þetta var á Stúdíósviðinu í Borgarleikhúsinu og á leiðinni út hitti ég Irenu frá Pétursborg (sem dansar tangó og á atvinnudansara fyrir dóttur). Hún sagði mér frá annarri sýningu frá deginum áður með sama listamanni þar sem hann dansar við Frakkann Jérôme Bel, sem er nútímalegri danshöfundur og tókst að skapa samtal – dansað samtal - við hinn klassíska tælenska starfsbróður sinn. Þeir skilgreindu muninn á klassískum dansi og nútíma dansi þannig: áhorfandinn veit hvað hann borgar fyrir þegar hann kaupir sig inn á sýningu með klassískum dansi; ef um nútímadans er að ræða veit hann ekki fyrir hvað hann er að borga!

Þriðjudagur 22. ágúst

Brook og Merlin D. sjá II. (fréttapistilinn)

Miðvikudagur 23 ágúst

Nýsirkus og no Love bar útikaffi

(fimmtudagur frííí)

Föstudagur: 25 ágúst

Ein og hálf sýning: Kambódíja og Cullbergbalettinn

Það voru tvær heimsfrumsýningar á stórasviði Borgarleikhússins við Göteplatsen sem settu elegantan endapunkt á hátíðina.Blanco, eftir danshöfundinn Johan Inger, (listrænn stjórnandi Cullbergbalettsins síðan 2003) og End, eftir belgíska dansarann og danshöfundinn Sidi Larbi Cherkaoui.

Gagnrýnandi Gautaborgarpóstsins Lis Hellström Sveningson les heilmikla sýmbólik útúr verki Ingers sem henni þykir "ná manneskjunni í miðju spori í átt að draumnum um annað líf". Átta dansarar ganga skólausir á vegum hvers annars, þvers og kruss um sviðið ... að lokum þegar skónum er safnað saman eru þeir einhvernveginn búnir að vera ... skórnir.

Ísraels múr gegn Palestínu?

Sá umfjöllun eftir Önnu Gufustraum (Anna Ångström) i Svenska Dagbladet "Dans som stör och berör" http://www.svd.se/dynamiskt/rec_dans/did_13519285.asp Hún er ekkert síður en ég hrifin af nýcirkusnum franska Vent d"autan med ljóðrænu tagikómísku sýningu Autour d"elles. Svo dæmalaust sjarmerandi sirkus að mér fannst ég verða eins og ný manneskja.

II

Yfirlit = grein í fréttastíl:

Íslenski Dansflokkurinn, Peter Brook och Cullbergbalettinn á dans og leiklistarhátíð í Gautaborg.

Goðsögnin gerð að raunveruleika "ekkileikhúsi"

Meðal efrópskra performansa á nýafstaðinni Dans- og leiklistarhátíð í Gautaborg var sýningin Við erum öll Marlene Dietrich FOR eftir danshöfundana Ernu Ómarsdóttur og Emil Hrvatin; vel tekið af áhorfendum sem fóru í hið hlýðna hlutverk friðarstillandi herdeildar, sveifluðu höndum og mjöðmum samkvæmt fyrirskipun dansaranna. En “skemmtiatriði” sviðslistafólksins verða – eins og þeir vita sem séð hafa - æ áleitnari. Gagnrýnandi við Gautaborgarpóstinn (GP 23. ágúst) - Astrid von Rosen - kunni vel að meta sýninguna og talaði um einskonar "ekki leikhús" og "andtáknrænu". Besta kvað hún dansarana vera þegar “þeir flækjast í sjálfum sér og verða að baráttuhrúgum”. Von Rosen leggur áherslu á að ekki sé það svo að raunveruleikinn verði sterkari en skáldskapurinn, heldur er goðsögnin hið raunverulega.

Liv Landell sem skrifar fyrir Danstidningen í Stokhólmi, segir í sinni hriflu á netinu http://www.danstidningen.se/ að sýningin virki eins og fjarskildur ættingi annarrar sýningar, nefnilega FOI eftir Sidi Larbi Cherkauoi, með belgíska danshópnum Les Ballets C de la B sem var einn hápunktanna á Dans og leiklistarhátíðinni í Gautaborg árið 2004. Þó þykir Landell hið “nánast maníska flæði” eins og hún orðar það ekki virka nema annað slagið; margt þykir henni ofsagt og óþarflega yfirþyrmandi einsog t.d. “sorglegar kjötflyxurnar”. Hún nefnir þó að eftir morgunverðarsamtal með Ernu Ómarsdóttur og Emil Hrvatin sé ekki hægt að láta það fara fram hjá sér að Íslenski Dansflokkurinn setji markið hjátt og sé með sjaldgæfa auðmýkt í farteskinu. Hópurinn sýndi tvö kvöld í röð og tók sem sagt þátt í umræðum í millitíðinni. Þar komu fram kvartarir útaf hátt stilltri hljóðmynd og á síðari sýningunni sem undirrituð sá voru öllum boðnir eyrnartappar. Íslensk/slóvenska sýningin Við erum öll Marlene Dietrich FOR var frumsýnd 2005, með íslenskum og frönskum dönsurum og belgískum tónlistarmönnum; hún er hluti af samstarfsverkefninu Trans Danse Europe - sem árið 2003 hlaut styrk frá Evrópusjóði til þriggja ára - og hefur nú þegar verið sýnd víða um lönd.

Íslendingar gerðu vart við sig víðar á hátíðinni sem fór fram á hinum ýmsu sviðum borgarinnar, að sviðum Gautaborgaróperunnnar, Borgarleikhússins og Alþýðuleikhússinss (Folkteatern) meðtöldum, svo Listaháskólanum og Pustervik sem þar sem kvöldklúbbur hátíðarinnar Club Love einnig var til húsa. Þar var boðið upp lifandi tónlist m.a. “íslenskt reggae” með hljómsveitinni Hjálmar. Á Atalante sem að öllu jöfnu hýsir nútímadans var boðið uppá hátíð inni í hátíðinni, nefnilega Danskvikmyndahátíð þrjá daga í röð þar sem sýndar voru 47 myndir frá einum sjö löndum. Þar gengdi Helena Jónsdóttir hlutverki; sýndi kvikmyndir og tók þátt í umræðum sem dansari, danshöfundur og kvikmynda- og vídíolistakona. Mynd hennar Another (2005) var m.a. á. dagskrá og einnig verðlaunamyndin ZIMMER með Ólafi Darra Ólafssyni, báðar sýndar í tengslum við umræður í rauðum sóffa á kvölddagskrá í samvinnu við NordScen þar sem Helenu ásamt Magne Antonsen frá Noregi (Ultima Film – Dans for Camera) og sænsku Gunillu Jensen var falið að spjalla um möguleika og ómöguleika í norrænu samstarfi með Ísland í fókus. Helena var kynnt sem sú er færist meira í fang en einni manneskju er fært en sem tekst – oftast.

Frá Asíu um Afríku til fáránleika á frönsku:

Minningar og Goðsagnir voru þemu hátíðarinnar að sinni, en hún er haldin er annaðhvert ár í ágústlok. Framkvæmdastjóri er Birgitta Winnberg Rydh; hún lætur í ljós ánægju sína bæði með frábæra aðsókn og móttökur í ár. Alls var boðið uppá átján ólíkar sviðsettningar á níu dögum, með minnst tveim sýningum á hverri. Nýjung var svokallað Open lab, þar sem workshops voru í boði, ýmis námskeið þar sem listafólk kynnti sín sérsöku vinnubrögð líklega með annað listafólk í huga fremur en hinn almenna áhorfenda. Hugmyndin í ár var einkum er að stefna saman efrópski og og asískri menningu og þótti vel til takast með listafólki og sýningum m.a. frá Kambódíu, Laos, Tælandi og Japan. Liu Chun kínverskur danshöfundur, vídeólistamaður og leikhússtjóri frá Beijing var einnig meðal gesta á á áðurnefndri Dansmyndahátíð, en framkvæmdastjóri fyrir Open Lab var leikstjóri frá Singapore, að nafni Ong Keng Sen. Hann er listrænn stjórnandi leikhússins TheatreWorks og átti þátt í fleiri en einni hinna austurlensku sýninga, sem leikstjóri og framleiðandi. Sýning hans Geisha vakti athygli og umræður, en einnig hrifningu þar sem stefnt er saman goðsögnum um ímynd hinnar fullkomnu konu. Ong Keng Sen er einnig leikstjóri og hugmyndasmiður Kambódíönsku sýningarinnar: The Continuum – Beyond the Killing Fields. Listafólkið á sviðinu er frá Phnom Pen, meðal annars Em Theay - dansmey á áttræðisaldri - sem dansar og segir sögu sína gegnum hremmingar Pol Pots stjórnarinnar, þegar hún missti fleiri hundruð starfsfélaga sína, eiginmann og dóttur... Verkið sem frumsýnt var fyrir nokkrum árum er kynnt sem heimildarperformannce. En khmer er tungumál sem tiltölulega fáir vesturlendingar kunna, svo áhorfendur fengu handrit að rýna í, til að fá hugmynd um frásögn hverrar senu. Em Theay er í sjálfri sér og dansi sínum á sviðinu mögnuð heimild, glóandi af fágaðri orku.

Af efrópsku sýningunum sem ég sá, langar mig að nefna eina í leikstjórn breska meistarans Peter Brook: Sizwe Banzi is dead, á vegum hans franska leikhúss Théâtre des Bouffes du Nord. Peter Brook sem nú er kominn yfir áttrætt er í sjálfum sér mikil leiklistarsaga, allt frá því að hann hristi upp í breska leikhúsheiminum m.a. með túlkun sinni á Shakespeare dramatik (1962) og þá undir áhrifum frá Jan Kott og Beckett. Sýningin um dauða Sizwe Banzi er á frönsku, með tveim leikurum sem fara á kostum - Habib Dembélé og Pitcoho Womba Konga – í hinu suðurafríska drama um fáránleika aðskilnaðarstefnunnnar og basl svarta mannsins við að vinna fyrir sér.

Ég minnist þess ekki að hafa séð leikara skipta svo leikandi létt um hlutverk sem húmoristinn Pitcho Womba Konga gerir í sýningunni ... hann leikur heila verksmiðju, verkamenn við færiband og utan þess, hann leikur steypibað og hvítan forstjóra; meira en þrjátíu manna fjölskyldu sem kemur í ljósmyndun. Allt með sömu dansandi og talandi leikgleði sem hrífur áhorfendur með; ég efast ekki um að ég hafi verið með í atburðarrásinni.

Uppsettning Peter Brooks var ein af fáum sýningum hátíðarinnar sem ekki var uppselt á! Það vekur óneitanlega furðu, og ólíkt móttökunum í Stokhólmi vikuna áður þar sem þurfti að bæta við fleiri sýningum á The grand Inquisitor eintal byggt á texta Dostojevskis í uppsetningu meistara Brooks. Var það hugsanlega franskan sem fældi fólk? Aftur á móti komust færri en vildu á franskan nýsirkus hátíðarinnar: Vent D´Autan með sýninguna Autour D´Elles . Það var orðlaus, gamansöm sýning um ást og undur, grín um hefðbundnar leiðir til að ná í hvort annað syngjandi fljúgandi hrasandi og dansandi á herðum hvors annars með alskyns akrobatískri áreitni eins og verða vill þegar fleiri pör eru í leiknum; einsog ekki alveg búin að ákveða sig ... í allt þrjú pör þar af eitt músíkleikandi par. Tjaldið reyndist of lítið, þétt setið nokkur hundruð áhorfendum dag eftir dag.

Þegar leiðin breytist í leikmynd:

Lokahápunktur hátíðarinnar var svo frumsýning hjá Cullbergbalettinum á stóra sviði Borgarleikhússins við Göteplatsen. Þar voru raunar tvær heimsfrumsýningar á ferðinni: annarsvegar Blanco nýtt verk eftir Johan Inger, danshöfund og listrænan stjórnanda Cullbergvalettsins síðan 2003; og hinsvegar End, eftir hinn unga danshöfund Sidi Labri Cherkaoui. Labri er skólaður m. a. hjá nútíma dansskólanum P.A.R.T.S í Bryssel og hefur unnið bæði sem dansari og danshöfundur hjá belgíska hópnum Les Ballets C de la B þar sem sýningar einkennast af að tónlist talleikhhúsi dansi og performance er blandað saman. Hann hefur einnig samið fyrir meira hefðbundna hópa; en með aðsetur í Antwerpen og tilheyrir Het Toneelhuis.

Verk Labris End fjallar um að rífa múra bæði innra með sér og úti í alvörunni - þeir múrar sem sjást í leikmyndinni minna á þá sem Ísrael hefur byggt - og undir lokin hrynur úr múrnum, hann opnast og leiðin burtu verður augljós vegur, þar til aðalpersónan/sögumaður gengur í gegn og rekur sig á, í bókstaflegri merkingu: vegurinn reynist engin leið heldur leikmynd og annað ekki.

Meðal afburða dansara í verkinu End var Tilman O´Donnell sem sögumaður og Hlín Diego Hjálmarsdóttir sem fór á kostum m.a.í frumlegum og gamansömum bardagaatriðum í Labris og tjáði sig og skammaðist um stund á tærri íslensku.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home