My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, August 22, 2006

Á Hvítafjalli; Tangóhátíðir og Afturgöngur

Mynd: Maryline og Vincente dansa á sviðinu i Vitabergsparken Stokhólmi þann 8.8. 2006. Foto Kristín Bjarnadóttir.

Mér er illt í hálsinum en ég vona og bið að það sé bara venjuleg saklaus hálsbólga; hætti á verkjarlyfjum fyrir nokkru og er á núll morfíni svo kannski er bara eðlilegt að finna fyrirsér!!!

Annars eru síðustu vikurnar búnar að reynast mér eitt samhangandi ævintýri sem stendur yfir enn því í Gautaborg er 9 daga Dans og Leiklistarhátíð sem lýkur um næstu helgi: ég er núna á eftir að fara á sýningu á suðurafrísku verki Sizwe Banzi is Dead sem breski meistarinn Peter Brook hefur sett upp og auk þess á íslensk - slóvanska sýningu eftir Ernu Ómarsdóttur og Emil Hrvatin o.fl. We are all Marlene Dietrich FOR. Það er að segja ef ég endist í svo langt kvöld; frétti að síðarnefnda sýningin væri mjög sterk, og tónlistin nánast heilsuspillandi hávaðsöm í Pusterviksteatern, þar sem sviðið stendur lægra en áhorfendasætin.

Bara örstutt um seinustu vikur: Fyrir mánuðarmótin júlí ágúst fór ég á Krokstandsfestivalen samkvæmt áætlun og naut þess að vera með Stellu og Kristni á leið sinni til Bergen og Seyðisfjarðar ... Ralph sem kom fljúgandi frá Munchen ásamt nýrri dansvinkonu; gautaborgargenginu að sjálfsögðu o.fl. enda nánast óslitnir sólskinsdagar og tangóhátíð er kjarni hátíðarinnar, sem ég svo skrifaði dágóða grein um fyrir Danstidningen i Stokkhólmi; fyrsta vikan í ágúst fór í það. Og svo í sólarhrings krabbaveislu (alveg meinlausa :-) !), á fallegum gömlum bóndabæ nálægt ströndinni á Orust; þ.e. hjá Johan sem er eitthvað þreyttur á tangó um þessar mundir, sleppti hlöðutangó í ár og bauð uppá allt mögulegt annað. Ég fékk lækni til borðs og þegar mér varð á að forvitnast um sérgrein hans, kom í ljós að hann starfaði á Jubileumsklinikken! Hann óskaði mér til hamingju með að hafa komist í gegnum eina grimmustu meðferðina ... hm. Mér tókst að borða nokkra krabba!!!

Þann áttunda ágúst fór ég til Stokhólms og er rétt að lenda eftir þá ferð, sem byrjaði með tangóhátíð í sjö nætur og fimm daga; 59 gráður heitir sú hátíð og vísar í staðetningu Stokhólms á hnettinum. Á fjórða hundruð manns sótti hátíðina c.a. þriðji hlutinn erlendis frá. María og Dísa komu frá Íslandi; um 15 tangóarar komu frá París, enda tvö kennarapörin búsett í París: argentínsku Sebastian Arce & Mariana Mortes og svo franska parið Véronique og Thierry. Maryline Lefor og Vincent Morelle frá Brussel gerðu comback, eru byrjuð að kenna og ferðast í hófi eftir meira en árs hlé frá kennsku (dönsuðu kóreógrafískan tangó á sviði í því hléi!).

Hátíðin í Stokhólmi hófst með útitónleikum og útisýningu í nærveru meira en þúsund manns á Parkteatern í Vitabergsparken á Söder og það í kvöldsól og fínu veðri. Ritstjórinn minn Ann-Marie Wrange á Danstidningen vísaði mér veginn og gerði sér leik að því að klöngrast með mig yfir hvíta kletta með kirkju og fallegu útsýni ... Ég hitti Ann-Marie oftar í þessari ferð; heimsótti hana á Baðstofugötu - rétt hjá vinsæla veislu- fundar- og dansstaðnum Munchenbryggeriet - þar er hún með útsýni yfir Riddarafjörðinn. Eitt kvöldið sáum við TanGhost saman, gestaleik frá Osló á Dramaten. Og kvöldið eftir sá ég sömu sýningu með Stinu (sem tók á móti Thaliuverðlaununum í síðustu viku!) og Mats. TanGhost reyndist einn hápunkturinn í þessari ferð; að sjá Pablo Veron gefa kammerherra Alving nýtt líf, í Ibsens Afturgöngum (leikrit frá 1881) var hrein nautn. Líka hvernig honum tókst meira eða minna að fá tangóinn í allar persónur verksins þannig að dansinn varð hluti af tjáningarmunstrinu, það voru valdir norskir leikarar í öðrum hlutverkum nema dansari í hlutverki Reginu sem var að mestu breytt í þögult hlutverk. Tangófólkið í Stokhólmi er hreint ekki allt jafn hrifið ... en ég hreifst. Náði líka að renna mér í gegnum texta Ibsens áður, textann sem TanGhost þrátt fyrir allt er byggð á. Sýningin sem er sviðsett af norska Per-Olaf Sörensen og sýnd á vegum hans leikhúss, POS Theater Company verður sýnd á Ibsenhátíðinni í Osló um næstu helgi. TanGhost var frumsýnt 2004 en er á heimsreisu um valin lönd ár; fer m.a. til Kína. Norski tónsmiðurinn og tangótónlistarmaðurinn Sverre Indris Joner samdi tónlistina fyrir þessa sýningu og hefur hlotið verðlaun fyrir, en tangófólk kannast kannski við hljómsveitina Electrocutango sem gaf út diskinn FELINO. Þar er öll tónlistin frá TanGhost og meira til!

Pablo Veron, danshöfund og einn af heimsins besta tangódönsurum þekkja margir best frá Sally Potters Kvikmynd: Tango Lesson ... og Ibsen? kannski allra best frá Pétri Gaut!

Nú þarf ég að skrifa um Stokkhólmshátíðina fyrir Danstidningen (!) langar að skrifa um TanGhost og á frekar erfitt með að taka til mín viðburði sem í boði eru fyrr en ég er búin að tjá mig frekar!!!! En þetta er byrjunin. Svo hausinn springi ekki. Svo sumrið fölni ekki. Er með fullt af fínum augnablikum frá undanförnum dögum sem ég vil geyma ... öll fallegu dansaugnablikin og endurfundina ... kvöldið heima hjá Stínu, eftir að hún tók á móti Talíuverðlaununum fyrir Fedrutúlkun sína í vor; kyrrlátur göngutúr okkar á Skeppsholmen, síðasta daginn rétt eins og göngutúrinn með Mats gegnum opna tónleika á menningarhátíð Stockhólms og gegnum Gamla Stan eftir TanGhost. Engar afturgöngur á brúnum milli eyjanna.
Posted by Picasa

2 Comments:

Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Hjartans þakkir fyrir kveðju; og hvað þú ert alltaf snögg að kommenta, líka núna þegar flestir virðast á kafi í haustverkum og skólabókum!

1:02 PM  
Blogger kristian guttesen said...

Fallegur texti Kristín, ég elska þig, það er nótt, ég vaknaði, ég gat ekki sofið, fór aðeins á fætur og svo aftur í háttinn, ég er svo þreyttt eftir skólann og hausinn á mér alveg að springa.

6:44 AM  

Post a Comment

<< Home