My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, January 03, 2010

árið sem leið - annar hluti - september 09


September - ævintýri á bókastefnu

Ég hélt áfram á tangónámskeiðum á haustönn og var heppin með dansfélaga ...

Í septemberlok þegar kom að Bókastefnunni í Gautaborg var ég auk þess svo heppin að fá gistigest, tangóvin á rauðum sportbíl frá Stockhólmi, sem bæði þurfti á stefnuna og í tangó, þannig að við áttum stanslaust samleið hvort sem það var á bókasýningarsvæðinu, skáldapartý hjá Lina Ekdahl eða á milongur. Og þegar okkur láðist að kaupa blóm handa gestgjöfum lét minn sig ekki um muna að skilja eftir áritað eintak af eigin doktorsritgerð, Frågan efter livets mening, frá því fyrr á þessum áratug (um þekkingu og list í Nietzsches tänkande).

Ein aðalstjarna stefnunnar þetta haust var Isabel Allende og ég varð vitni að biðröðunum sem hringuðu sig bæði við fyrirlestrasalinn og klukkustund síðar að áletrunarborðinu. Og það sem meira var, ég náði mér í viðunandi sæti í miðjum konferenssal og hlustaði á hana skemmta í þrjá stundarfjórðunga. Ég var ekki blaðamaður í ár (enda Davíð að taka við Mogganum um þetta leiti) var með rithöfundapassa, keyptan á vægu verði og eina skráða minnisatriði sem ég finn hjá mér er eftirfarandi:

Þann 8. janúar byrjar Isabel Allende að skrifa næstu bók. Því lofaði hún á Bókamessunni í gær, laugardag, segir mikilvægt fyrir sig að hafa dagsetningu, skipuleggja þannig hún geti einbeitt sér og látið skrifin ganga fyrir í amk þjá mánuði,engin ferðalög fá þá að trufla, ekkert fær að vera mikilvægara en frásögnin sem er að mótast, með 10 - 14 tíma einbeittri vinnu á dag.

Þóttist góð að ná mynd um hábjartan dag, af sjötugri stjörnu sem ekki á að vera hægt að mynda í dagsljósi.

Seinna sama laugardag var komið að mér að lesa upp smástund á sjálfu sýningarsvæðinu hjá Författarcentrum, nokkuð sem ég hef alltaf vorkennt höfundum að þurfa að spana sig uppí með allan hugsanlegan is og þys og skarkalahljóð í kringum sig. En þetta tókst og hlustendum tókst að einbeita sér. Nóttina áður, þegar Dr. Friðrik tangóvinur reyndi að fá mig til að lesa með stockholmsmelódíu (sem ekki gekk), uppgötvaðist eina prentvillan sem ég veit um í bókinni: kór hafði í staðinn orðið kýr á sænskunni (kor i stað kör).

*

Heill hópur menningarvita frá Kambódíu kom til Svíþjóðar um þetta leiti í ólíkum erindagjörðum, m.a. gestgjafi okkar frá í sumar Kho Tararith ásamt vini sínum og skáldi. Einnig fjórmenningar í boði Alþjóðlega Bókasafnsins í Stokhólmi. Þeirra á meðal var Pich Proeung, útgefandi barnabóka í Phnom Penh, en hún tók á móti sænskum eldsálarverðlaunum "eldsjälspriset" á Bókastefnunni. Myndlistarkennari frá Reyum institut Khun Sovanrith var með í för og einnig Ceam Duong Chay skólastjóri Sala Sothearos, barnaskóla í Phnom Penh, ásamt bókasafnsverði frá sama skóla, Kep Chhoeun. Allt fólk sem hefur haft samvinnu við norræna rithöfunda í Phnom Penh.


Til Mariannelund og Vimmerby

Strax í vikunni eftir þáði ég boð um að slást i för með fjórmenningunum ásamt fararstjóra þeirra og túlk, Önnu Mattson, inn í Smálönd og koma fram á ljóðakvöldi 29.september á kaffi kaim í Mariannelund (kaim er skamstöfun á Kultur akademían í Mariannelund). Anna Mellergård stóð fyrir boðinu - hýsti okkur öll í stöðvarhúsinu sem hún keypti til að búa til menningarmiðstöð fyrir listafólk með kaffistofu á jarðhæð - en hún er einn stofnandi akademíunnar á líka sæti í stjórn menningarfélagsins Litteratursamfundet Kambodja. Eftir ljóðakvöldið kom dagur í Vimmerby með heimsókn í Näs, bernskuheimili Astrid Lindgren, og á bæina í kring. Í Nesi er búið að byggja menningarsetur með uppákomum til heiðurs sagnasnillingnum (Sveriges Sagotant) og 2007 var opnuð sýning um æfistarf hennar í myndum og máli.

Í fyrirlestrarsal staðarins var svo haldin kvölddagskrá þar sem Anna Mattsson sagði frá barnabókaútgáfu í Kambódíu og viðbrögðum barna og fullorðna við Línu Langsokk sem hún þýddi yfir á Khmer (í samvinnu við innlenda)og sem kom út fyrir rúmu ári. Og fjórmenningarnir gerðu grein fyrir sínum störfum, hver fyrir sig.

Þetta var mín fyrsta heimsókn í Vimmerby. I Astrids sagovärld sá ég hestinn sem Lína Langsokkur lyfti og settist á rúmið hennar. Torgið þar er eins og torgið í Vimmerby bara minna, flest húsin rétt mannhæðarhá.

Fallegir haustdagar og öll komumst við í smálensku blöðin bæði Smålandstidningen (30. sept. 2009) og i Vimmerby Tidning. Og svo skoðuðum við Mariannelunds Karamellkokeri, myndlistasýningu og sáum elsta kvikmyndahús landsins ...


0 Comments:

Post a Comment

<< Home