My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, November 23, 2008

Vikan sem leið

Enn tínast dagarnir inn í líf manns og keppast um að vera hver öðrum skemmtilegri. Kennararnir í spænskudeildinni fara á kostum í hverjum tíma og eru alltaf að finna upp leiki til að auðvelda okkur að tala saman á máli sem við kunnum bara smá hrafl í; krakkarnir alltaf tilbúnir að útskýra þegar ég sein að fatta (það er ég næstum alltaf), og hafa ekkert á móti því að hafa okkur eins og tvö þrjú í trúðarhlutverkinu, okkur eldri púkana og einn hinna yngri svona uppá punt.

Á þriðjudagskvöldið tók tangóinn við mér á bæjarins best sóttu milongu, El Abrazo á Bellmannsgötunni.

Á fimmtudagskvöldið lauk ég upplestrarhringsóli nóvembermánuðar, og þá í safnaðarheimili Íslendinga í Gautaborg. Það voru séra Ágúst og Guðný Ása sem áttu frumkvæðið að því að fá ljóð um dans eftir kyrðarstund í kirkju, og kvöldið reyndist hið ljúfasta, með svo mikið af góðum straumum að frá hverjum og einum streymdi minnst tíu manna meðalstraumur ...

Svo kom fyrsta föl vetrarins og loftið varð ferskara en ferskt þann morgun.

Í gærkvöldi var ég í fínindis boði hjá tveim fínindis gáfukonum sem gerðu sér glamordag, buðu vinkonunum að koma í uppáhaldspússinu, og voru sjálfar silki- leður- og silfurbúnar. Ég fór í dansbuxur og mjúku draumlitu remix blússuna mína, frá því í hitteðfyrra, því hún er uppáhalds í ár, og hálsfesti sem ég fékk þegar ég fermdist (!), löng festi úr perlum og glerkúlum með þykjustu gull á milli sín, alveg glerfín. Ég rakst á hana um daginn í Tornedalskistlinum mínum þegar ég var að svipast um eftir bréfinu frá Brodsky, og datt í hug að kominn væri tími á hana ... hún væri góð í glamúrheimi. Svo fór ég í dansskóna ... og þegar upp var staðið bara ánægð með mig yfir að geta verið sósíal án þess að dansa! Bara borða og spjalla klukkutímum saman inná hvítljómandi heimili í hjarta borgarinnar. Og við svo fínar allar að ég hugsa við hefðum alveg getað passað inn í sparifatadaginn í Norðlingaholti.



6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Gaman að fá að fylgjast með þér í upplestri, spænsku og sparifötum. Við vorum á tangótónleikum á miðvikudagskvöldinu og dönsuðum líka. Þar hitti ég safnstjórann sem byrjaði að dansa (og er enn að) eftir að hún hlustaði á þig lesa upp í sumar. Hún bað fyrir kæra kveðju.
Þín systir
Stella

12:44 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Ástarþakkir fyrir fréttir og kveðjur! Og gaman að vita að Inga safnstjóri skuli halda áfram ... kannski Hveragerði verði líka ein tangómiðstöðin þegar fram líða stundir : )

7:29 PM  
Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir að fá að fylgjast með því sem þú ert að gera dagsdaglega. endi á að Sölvabakkaheimasíðan er komin í lag. Hér er núna snjóföl yfir og skaflar á stöku stað.
Bestu kveðjur frá Boggu systur þinni.

9:33 AM  
Anonymous Anonymous said...

E.S.
Sé að það vantar einn staf. Kannski var ég að búa til gestaþraut.
Bogga.

9:36 AM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

haha góð þraut = viðráðanleg : )
Hlakka til að skoða síðuna!

1:39 AM  
Blogger Freyja said...

Hæ, gaman að frétta af þér. Sniðugt að þú skulir ennþá eiga fermingar hálsfesti!!! Ég held barasta að ég sé búin að týna mínum...
Sniðug gestaþraut hjá Boggu. Skildi ekki alveg setninguna.... lendi...hendi...sendi...ahhh auðvitað bendi á að......

6:52 PM  

Post a Comment

<< Home