Hvað er nýtt, hvað er dans, hvað er heima?
Hvað er nýtt? hvernig skilgreinum við þetta nýjasta, óþekkta og mikilvæga sem við teljum okkur sækjast eftir, er spurning sem Astrid von Rosen vekur upp í pistli um Dans- og leiklistarhátíðina í Gautaborg. (sjá heimasíðu Danstidningen).
Hún bendir á að kannski er það eitthvað gamalt og margtuggið í nýjum búningi, því hið fullkomlega óþekkta gætum við hvorki skilið né skynjað á meðvitaðan hátt, það hlyti að fara fyrir ofan garð og neðan hjá okkur. Aðeins fáein prósent af óþekktu í bland við hið þekkta, náum við víst að meðtaka þegar við upplifum eitthvað sem verandi nýtt.
*
Í kvöld var ég á Storan, sá sýningu Akram Khans, bahok, með fimm dönsurum úr hans eigin nútíma dansflokki í London, þjálfaða í hans sérstaka "contemporary kathak" stíl, ásamt þrem klassískt skóluðum dönsurum úr kínverska þjóðarballettinum. Hvað er dans?
Er biðin dans? var ein fyrsta hugsun mín þegar ég sat í þægilega rauða bólstraða sætinu mínu á tíunda bekk og beið. Tónlistin var hafin, tjöldin dregin frá og dansararnir á sviðinu. En í biðstöðu. Í einhverskonar hljóðri talandi biðstöðu. Á skilti yfir þeim stóð Gjörið svo vel og bíðið, eða réttara sagt: Please wait. Eftir ca mínútu bið í þögn og fullkomnu hreyfingarleysi, virtist hver hvunndagsleg hreyfing einsog það að standa á fætur mikilfengleg.
Þegar einn kínverski dansarinn hóf sólódans gerðust undur. Þvílík snerpa. Þvílík mýkt. OK þeir kunna þetta í Kína, hugsaði ég þá en það voru ekki bara kínversku dansararnir sem framkölluðu göldróttan léttleika með greinilegu akkeri þyngdarinnar þegar þufti, því dansararnir hans Khans voru gæddir svipuðum galdri í hreyfingarmynstrinu. Mynstri sem smásaman sameinaði dansverkið í heild, í allri sinni snerpu og mýkt, léttleika og húmor. Líka í öllum ruglingi, misskilningum sem verða þegar sameiginlegt mál er enn ófundið, í biðsal sem gat verið á flugvelli, járnbrautarstöð, hjá útlendingaeftirliti ...
Smátt og smátt skýrðist saga hvers og eins í hinum margmenningarlega hópi ungs fólks, samankomin úr ólíkum heimsálfum, með ólík túngumál, bæði talmál og það mál sem ólíkar danshefðir eru.
Þau eru strand. Vilja komast áfram og út frá því taka hlutir að gerast milli þeirra. Þau gera sig skiljanlega á ýmsa óvænta vegu og miðla reynslu, draumum, og minningum um eitthvað sem heitir "heima".
Ég hætti að hugsa: hvað er dans? og hugsaði: ÞETTA ER DANS.
Danslist eins og hún gerist best.
Og: HEIMA ER ÞAR SEM ÉG ER.
Bahok var frumsýnt í Peking 25. janúar 2008. Bahok getur þýtt burðarmaður eða sá sem ber, á bengölsku, móðurmáli hins breska Akram Khan (f í London 1974), og vísar hér líklega í minningar og reynslu sem líkaminn ber með sér (body-memory) . Fína lýsingu á verkinu má lesa á ensku t.d. HÉR
Dansararnir eru með ýmiss konar bakgrunn, ekki bara frá Kína og London, en líka Kóreu, Indlandi, Slóvakíu, Suður-Afríku og Spáni.
Akram Khan hefur m.a. gert sýningar í samvinnu við Sidi Larbi Cherkaoui og þykir meðal merkustu danshöfunda Evrópu. sjá heimasíðu hans hér.
*
Þessi alþjóðlega Gautaborgarhátíð er svona lúxus sem gerist í átta daga seint í ágúst, annað hvert ár (síðan 1994) og spyr með sýningum sínum hverju sinni: hvað er sviðslist einmitt nú?
Hátíðin í ár fær heilmikið hrós, m.a. fyrir opnunarsýninguna með þýsk-breska leikhópnum Gob Squads á föstudaginn var. "Hátíð sem fjallar um möguleika sviðslistar hefði ekki getað byrjað betur", fullyrðir gagnrýnandi á Dagens Nyheter.
Sýningin heitir Gob Squad´s Kitchen og byggir á kvikmynd Andy Warhols, Kitchen frá 1965, og afbyggir hana um leið. Leikararnir eru að vinna við kvikmyndaupptökur, bak við tjaldið sem speglar hvað gerist bakvið það; þeir eru ýmist fyrir framan tjaldið eða bakvið, ýmist í hlutverkum eða komnir úr hlutverkum ... allt í vinnunni við að afbyggja goðsögnina um, hetjur, stjörnuleik og píramída; hver sem er getur orðið stjarna.
*
P.S.
Á föstudagskvöldið var, sá ég nokkra engla fyrir miðnætti í einskonar hreiðri gert úr risastálkönguló sem hékk á Gústav Adólfs torginu ... og á sunnudaginn sá ég þrjár sýningar, sem ég reyndi að blogga um, en þegar ég ætlaði að líma klausurnar inn í bloggsíðuna, fóru þær eins og utanhjá! Já líkt og englafiðrið á föstudaginn sem mér sýndist fara meira eða minna til fjandans ... en bara skemmtilega. Ég verð sum sé að skrifa beint í bloggformið eins og tæknin er hjá mér núna, ekkert lím og klipp. Kannski koma klausurnar inn seinna (hér fyrir neðan) í einhverju formi.
Alveg rétt, þemað á hátíðinni í ár er: frásagnir fólks
og lykilorðið er intimacy (sem kannski má þýða trúnaðartraust), hefur listrænn stjórnandi hátíðarinnar gefið upp, Birgitta Winnberg Rydh, sem stóð sjálf og reif af miðunum á Storan í kvöld.
Góða nótt
3 Comments:
já, þetta passar, þegar ég vakna á morgnana og fagna nýjum degi, þá er á mörkunum að ég valdi honum og veit aldrei hvernig hann verður fyrren á kvöldin þegar ég fer að sofa.
Allt er dans, mjög einfalt, hinsvegar nennir maður ekki að horfa alltaf á heiminn þannnig, líka er hægt að segja, allt er leikhús, allt er tónlist, en maður svissar á milli í sínum eigin haus, hvaða rás maður vill sjá...
annars verð ég að segja þér af því ég mátti ekki kalla mig dansara, þá spurði konan á neðri hæðinni hvort ég hefði lært ballett...
ég hefði getað sagt, já í eldhúsinu.
annars er ég að fara að dansa á ráðhústorginu á akureyri um næstu helgi, og þótt ég sé alltaf dansandi og allt dans, þá er þetta dans tilað ná sambandi við núið,
nú nú... ég er reyndar á móti þessum nú-trúarbrögðum, mátturinn í núinu og allt þetta dót, nei takk.
en fingur mínir dansa á lyklaborðinu svipað og pláneturnar dansa í alheiminum, þetta er ekki flókið, og flækjan er þá dans,
heima, ... ég er heima. ég var að mála skáp... bleikan.
ég er yndi. þú ert ótrúlega dugleg að dansa, ... ferð útum allt. það er merkilegt. konan sem fór útum allt tilað dansa. og var aldrei heima. ha ha haha.
takk fyrir komment dansblóm og ballettstjarna tilfinningatorga og eldhúsa ...
"heima er þar sem ég er" þýðir alltaf heima í mínum huga svo túlkun þín fær mig tilað spyrja hver sé munurinn á aldrei og alltaf, svo hvunndagsleg orð en líka stór orð yfir óendanleika, kannski orð sem ekki eru alveg mennsk?
ég er ekki heima.
e
Post a Comment
<< Home