My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Tuesday, June 09, 2009

Með kveðju frá Battambang i Kambodiu


Í ár dansa ég ekki tangó í Tylösand miðsumardagana eins og undanfarin ár, því ég er með á þriggja vikna ljóða og bókmenntadögum í Phnom Penh, Battambang og Siem Reap.

Það er mikið ævintýri að bruna um á rúgbrauði í Kambódíu með vinkonum, öðrum skáldum, þ.e.a.s. Önnu Mattsson, Marianne, Hönnu, Aþenu og Jóanes frá Færeyjum sem kann Tímann og vatnið utanað, enda sjómaður á Patreksfirði á árum áður. Við lesum upp hér og þar og höldum workshops í creativ vriting fyrir börn. Stundum skiptir hópurinn sér, eins og í gærmorgunn hér í Battambang þegar sum okkar lásu upp og tóku þátt í umræðum á kennaraháskólanum en við Marianne byrjuðum daginn með áhugasömum littlum hóp í menntaskóla hér í bæ.

Flest kambódiönsk skáld syngja ljóðin sín eða kveða ... það eru til 63 slík lög og efnið ræður hvað lög má velja á milli, allt eftir því hvort um sorgarljóð, gleðiljóð eða lýsingu (t.d. landslagslýsingu) er að ræða. Á khmer málinu er ort samkvæmt hefðbundnum háttum, annað þekkist ekki, eða er litið á sem mistök. Í besta falli sem "sögu" þegar við útlendingar komum með okkar prósaljóð og frjálslegu form. Kambódíönsk ljóðskáld hafa 54 hætti að velja milli.

Í dag lásum við upp í cirkustjaldi, listaskóla fyrir 400 börn hjá frönsku samtökunum Phare Ponleu Selpak, (= Ljós listarinnar). Norrænir höfundar og Kambódíanskir skiptust á að lesa og þess á milli skemmtu cirkusskólabörnin og tónlistarskólabörnin.

Það var á Mánudaginn var sem við komum til Battambang eða Batt Dombong sem þýðir glatað prik. Og síðan hefur verið dekrað við okkur því aðstandendur hátíðarinnar hafa séð um að sýna okkur hvern kókoshnetubúgarðinn eftir annan. Skyndilega er maður komin í kókoshnetupartý á einu hlaðinu með bæði Buddha og nokkrar hænur og kýr bakvið fjölskylduna. Við drekkum safann beint úr nýhöggnum kókoshnetum og borðum jackfrut og annað lostæti. Engin takmörk virðast fyrir hvað fólk hér getur búið til af kókosréttum. Í gær fengum við t.d. sælgætisrétt í desert sem ég held hafi verið búinn til úr þremur tegundum af k.hnetum; gufusoðinn og borinn fram í bananapálmablöðum. Það var í hádegisboði heima hjá kambódíönskum rithöfundi og fjölskyldu hans.

Fyrsta kvöldið stigum við út úr rúgbrauðinu á leið úr kókosveislunni og brugðum okkur í skondið ferðalag í sólarlaginu, á farartæki sem kallað er lorry, það er einskonar sleði sem gengur fyrir eigin mótor og rúllast eftir til þess gerðum járnbrautarteinum. Þannig komumst við í heimsókn í enn eitt sveitaþorpið með veitingahús við sporin.

Í morgun, var farið með okkur í kynnisferð til Wat Eik, sem er fræg pagpda hér í nágrenninu eða á Eik Phom. Lítil drengur kom til okkar strax og við stigum út úr brauðinu, á að giska 10 - 12 ára. Það tók mig smátíma að átta mig á að hann var í vinnunni, ekki betlaravinnu, heldur seldi hann reykelsi þeim sem vildu og heimsóttu Bænahús Buddha. Hann tók auk þess fimlega að sér leiðsögumannshlutverk sem byrjaði á að benda á táknrænu myndirnar segja sögur þeim tilheyrandi. Ein var þó um hann sjálfan og Anna sem talar Khmer efaðist ekki um að hann segði satt þegar hann lýsti hvernig hann varð foreldralaus og lennti í að hætta í skóla - þegar pabbi hans dó - til að sjá fyrir sér og þrem yngri systkinum sínum. Mamman horfin til Phnom Penh í atvinnuleit. En við efuðumst um var að hann væri fjórtán ára eins og hann sagði, svo lítill vexti! Hann hét Kun og kom okkur á óvart þegar hann sagðist vilja að ég yrði mamma sín. Ég sem tala ekki einu sinni khmer!

Kun hafði heyrt talað um franska listaskólann og cirkusinn þeirra. Hann ljómaði þegar Anna nefndi Phare Ponleu Selpak. Það er bara svo langt í burtu, sagði hann.

Hér er klukkan að ganga miðnætti, 7 tímum meira en á Íslandi og háttatími er um kl. tíu. Í fyrramálið vekur haninn mig örugglega kl. 5 hann byrjar að gala þá þér í bæ.

Eftir morgunmat verður haldið til Siem Riep, um fjögurra tíma rúgbrauðsferð og næstu daga munu skiptast á upplestrar workshops og sightseeing, með heilum dag í Ankor Wat. Á sunnudag er áætlunin til baka til Phon Penh.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home