My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, January 03, 2010

árið sem leið - fjórði hluti - nóvember 09


Nýir staðir í Nóvember


Um mánuðarmótin október - nóvember dreif ég mig til Stockhólms, ekki síst til að sjá Flicka i gul regnjacka sem Jon Fosse skrifaði fyrir Dramaten og Stina Ekblad fór með eitt af hlutverkunum sex. Ljóðrænt verk um að vera hér. Lengi. Um að biðja einhvern að koma. Um að fara héðan.

Þá bjó ég hjá doktor Friðrik á Frejgötu sem eldaði pumpusúpu og slóg upp veislu áður en við skelltum okkur á maraþonmilongu á Skeppsholmen. Daginn eftir var ég logandi hrædd um að sofna á sunnudagssýningu á Dramaten, en ég sofnaði ekki. Sýningunni tókst að magna upp hinn absúrd einfalda Fossetexta í sínum tilvistarlegu spurningum sem vel hefðu getað dottið dauðar um sig sjálfar, en sem allir leikararnir kunnu að gefa dýpt. Hvert augnablik varð spennandi och þéttriðað í einfaldleika sínum og hélt mér vakandi. Á eftir settumst við Stina á veitingahúsið bakvið og ég pantaði veitingahússpumpusúpu sem tapaði í gæðakeppni við súpuna hans Friðriks. Enn einn merkisstaður sem ég heimsótti í fyrsta sinn í ár var Uppsala. Þangað dreif ég mig með lest i kalsanum mánudaginn 2. nóvember eftir miklar vangaveltur fyrir framan miðasjálfsala. Kom í björtu og gekk rakleitt uppað rósrauðu Slottinu og síðan að bókasafninu fræga Carolina Rediviva með Silfurbiblíu frá sjöttu öld og uppsala-eddu (með Snorra Eddu)ásamt öðrum handritagersemum. Skoðaði hina merku Dómkirkju og náði að líta við á tónleikum í hátíðasal háskólans rétt fyrir lokun. Leitaði svo uppi mánudagstangóinn á Grand hjá Cambalache, elsta tangófélagi landsins, 20 ára í vor sem leið. Aðlaðandi og krúttlegur bær með aðalatriðin nálægt hvort öðru þann daginn. Og kvöldið reyndist mér eitt af ársins bestu danskvöldum. Dr. félagi Friðrik kom á rauða sportbílnum sínum og dansaði, síðan var bara að setjast uppí og líða aftur til höfðuborgarinnar sem farþegi í dansvímu. Hinsvegar láðist mér að kynna bókina mína sem skyldi og ég lofaði mér endurkomu á staðinn. Þriðjudaginn 3 nóvember dreif Stina mig svo með sér út á Valdemarsudde, á Djurgården sem ég hafði aldrei heimsótt í björtu og ekki fattað að væri eyja. Land og Folk hét finsk myndlistasýning sem við einbeittum okkur að obban úr síðdeginu, fórum síðan hratt í gegnum sali með sýningu á skrugguflottum verkum eftir Carl Wilhemsson sem lýsir oft vesturströnd Svíþjóðar í sínum myndum. Við gengum um í föllnu laufskrúði og úr varð fallegur haustdagur. Hjá Stina endaði dagurinn með tvennum tónleikum þar sem hún flutti texta, en hjá mér uppí sóffa á Söder hjá Mats sem eldaði ljúffengan lax í kókosmjólk með karrí og koriander.

Gaman í Gautaborg

I Gautaborg var hin svonefnda Planetafestival í fullum gangi (4-8 nóv) þegar ég kom til baka, hátíð með worldmusik og worlddans, fullt af sýningum þar sem verið er að búa til sviðslist og listdans úr ýmiskonar menningararfi, dönsum sem venjulegt fólk hefur haldið lifandi ... allt frá Hallingedans til indísk bharat natyam og argentínsks tangó. Gæti minnt á Þjóðlagahátíð Siglufjarðar með fjölbreyttni og workshops í öllu hugsanlegu og óhugsanlegu. Laugardaginn 7. nóv sá ég síðdegissýningu samansetta úr ýmsum styttri dansatriðum, þar á meðal nútímadansspuna byggðan á tangó tveggja meðlima í Pares Sueltos Dance Company í Buenos Aires, Karina Colmeiro og Raul Masciocchi. Þau voru góð. Mjög góð. Hafði séð þau dansa tiltölulega venjulegan sýningardans á dansgólfi, fyrir tangódansara kvöldið áður og þar naut Raul sín hvað best. Þegar á sviðið var komið brá svo við að Karina gaf hverju augnabliki merkingu frá fyrstu stundu og eins og lengdist um helming í öllum sínum línum. Magnaður dans líka i samspilinu.

Í október og nóvember spunnust deilur á Tangoportalen um tangó sem sviðsdans og sýningardans o.s.frv. útaf sýningunni aRealedades í Stockhólmi og þá gat ég ekki orða bundist og áður en yfir lauk kom Paras Sueltos líka til umræðu. Um þetta skapaðis þráður (á sænsku) sem má skoða HÉR
*

Mánudaginn 9 nóvember rættist draumur minn um að troða upp með Livet Nord sem undirleikara. Hún er frábær fiðluleikari, heitir þessu stórkostlega einfalda nafni Lífið Norður og leikur meðal annars með The New Tangoorquesta, Gautaborgarhljómsveit sem leikur konsertmúsik. Café Chao á Oceanen við Stigbergstorgið var staðurinn og tilefnið "äntligen måndag". Hin syngjandi Anna Heikkinen kynnti okkur Lífið og mig klukkan fimm til þess síðan að troða upp klukkan sjö ásamt gítaristanum Emil Pernblad. Ekki lengi gert að búa til skemmtilega fléttu með tónlist ljóðum og söng og það sem meira var, okkur tókst býsna vel að standa við ákvarðanirnar þegar á sviðið var komið.

Mynd: Livet, Kristín og Per á Café Chao






*
Ný tegund af verkefni sem mér var falið þessa önn, var að vera tangómodel fyrir listafólk, ásamt tangóvininum meistara Mikael. Snérumst smá og frusum helst í þrjár mínútur í hverri stöðu. Í þrjár klukkustundir, og árangurinn jafn ólíkur og listafólkið.


Allt annað líf

Laugardaginn 14. nóvember var svo komið að því sem ég hafði eytt dágóðum tíma í að undirbúa, bæði beint og óbeint, myndasýningu og frásögn um Kambódíuævintýrið fyrir íslenska söfnuðinn í safnaðarheimilinu í Frölunda. Fræðslustund undir titlinum var Allt annað líf, og ég komst ekki mikið meira en hálfa leið gegnum efnið og myndirnar (enda komin með 100 í seríuna mína í stað 30 sem mér skilst að alvöru fyrirlesurum þykir passlegt á einum tíma). Ég blaðraði og bar saman líkt og ólíkt með íslendingum og kambódíufólki, fjallajeppum og draugum, sýndi myndir frá konunglegum listdansi og börnum ruslahauganna. Svo var tíminn úti og stungið upp á framhaldi "næsta ár". Þetta var skemmtileg reynsla, því ég hef ekki áður reynt að segja myndasögu fyrir nema einn eða tvo í senn, en þarna voru frábærir hlustendur svo ég naut þess að segja frá og semsagt ekki alveg óundirbúin, hef haldið áfram að lesa um Kambódíu og eftir kambódíska höfunda m.a. bækurnar tvær sem Loun Ung hefur skrifað (sú fyrri er til á íslensku: Ógnir minninganna) og myndlistamaðurinn Vann Nath um napra reynslu á árum rauðu khmeranna 1975 tl 1979.

*
Þann 16. nóvember á degi íslenskrar tungu kom tónskáld ofan af Íslandi mér á óvart með hádegisverðarboði í Gautaborg, og það í annað sinn á árinu. Þá er ónefnd ein mikilvæg heimsókn haustsins, þegar hinn dansandi Ralph kom fljúgandi frá Munchen; kom dansaði og flaug burt á sunnudagsmorgni meðan haustsólin glampaði.
*
Föstudaginn 20 nóvember tók ég þátt í Författardagen á Borgarbókasafni Gautaborgar, heill dagur fyrir kennara og bókasafnsfólk þar sem við vorum minnst 12 höfundar með nýútkomnar bækur að kynna sig og lesa upp. Heilmillill heiður að því og gaman að hitta höfunda sem ég hef ekki kynnst áður, til dæmir Katja Timgren frá Västerbotten, höfundur bókarinnar Ingenting har hänt; Tomas Andersson fornleifafræðing, blaðamann og rithöfund sem skrifar ferðasögur, líka sem smásögur (Horisonter 1996) og sem dansaði á Lázár dansskola í Gautaborg sem unglingur, æfði og keppti með Cecili Lázár (!) og var einn aðalstofnandi Krokstrandsfestivalen !!! Líka ljúft að borða hátdegismat á spurningarmerkinu (Frðgotecknet) með skáldinu Kennet Klemets og "folkbildaren" og rithöfundinum Stewe Claeson (f. 1942) sem kenndi lengi við Norræna Lýðháskólan í Kungelv og stofnaði síðan rithöfundalínuna við Gautaborgarháskóla, Litterär gestaltning.




0 Comments:

Post a Comment

<< Home