My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, October 29, 2006

Týndi regnhlífinni og fann nýsirkus og aðra farfugla

Lengsti sólarhringur ársins var að byrja. Líklega í Evrópu allri nema Íslandi? Áttaði mig á því núna þegar ég kom heim að ég hefði hugsanlega getað notað aukastundina í að drífa mig í skáldapartí á Karl Jóhannsgötu að lokinni ljóðadagskrá í kvöld á þriggja daga ljóðahátíð í Gautaborg ...

Ég týndi regnhlífinni minni. Fann sirkus í staðinn þegar ég leitaði. Sirkusinn var að pakka saman. Sirkusinn sem sýndi milli ljóðalestra. Sýndi að ljóð er margt annað en orð. Að ljóð er línudans; líka þegar línan hangir lóðrétt úr loftinu og cirkusdansmey fetar sig upp með hugmyndaríkum snúningum á rauðum lofttaumum úr taui og lætur sig falla í fróðlegar stellingar þess á milli. Sirkusinn heitir Cirkus Baó og kanski var það Magnús sem renndi sér í snarkasti undir sætaröðina til að leita að regnhlífinni minni. Línudansmeyjan heitir Marta og er menntuð í sirkusskóla í Braselíu og þriðji cirkuslistamaðurinn heitir annaðhvort Douglas eða Malcolm ...

Ég leita og finn eitthvað annað nema þegar ég fann Moniku Fagerholm við hlið mér þá leitaði ég ekki að neinum öðrum við hlið mér og þegar annað finnskt skáld og yngra á hvítum reimuðum stígvélum las ljóð undir titlinum Landet som inte är (Landið sem ekki er) þá leitaði ég að Edith Södergran i hverri línu og fann hana í þriðju hverri. Magnað samtal milli tveggja skálda; milli landsins sem er og hins sem ekki er ... Skáldið sem stóð á sviðinu heitir Catharina Gripenberg - finnlandssænsk eins og Mónika - og gerði hressilega vart við sig í ljóðaheiminum árið 1999 með bók sem hún nefndi: På diabilden är huvudet proppfullt av lycka.

Móníka las úr verðlaunabókinni Den amerikanska flickan - sem hún fékk Ágústverðlaunin fyrir 2005 - og endaði á vísdómsorðum einnnar persónu sinnar, um það að vera ástfangin; það gerist ekki útaf að manneskjan sem maður lætur heillast af sé gædd einhverjum góðum eða viðfeldnum eiginleikum, heldur af því hún ýfir eitthvað upp innra með manni sem þá öðlast líf.

Og Ann Jäderlund las úr nýjustu ljóðabók sinni; mætti í eigin persónu og las! Það er nýlegt í sögunni; því hún - sem er eitt virtasta skáld svía allt síðan hún gaf bókmenntaheiminum nýjan tón með Vimpelstaden 1985 – hefur lengst af verið of nervus til að leggja í slíkt. Þegar ég hitti hana í fyrsta sinn fyrir bara fjórum árum, sagði hún mér að ef hún þyrfti að lesa í útvarpið þá kæmu tæknimennirnir heim til hennar, kæmu tækninni fyrir og færu svo! Héldu sig í burtu rétt á meðan hún var að lesa.

Gunnar Wærnes - þekkur fyrir ljóð sem hvísla - las uppúr nýjustu bókinni sinni Hverandres af tærri snilld, og ég heyrði fimmta hvert orð á íslensku en það var þrándheimska fullyrti hann eftir á; sagðist aftur á móti vera á leið til Íslands eftir tvær vikur að lesa upp í boði Davíðs Stefánssonar á Ljóð.is og Nyhilsmanna.

Annað skáld og meira sænskt sem ég hef ekki hlustað á fyrr var Ulf Karl Olov Nilsson. Hann var svo sterkur og hrífandi í orðlist sinni á sviðinu að ég missti meira eða minna af því hvað næstu tvö skáld voru að segja! Það þótti mér miður því annað þeirra var ung dönsk skáldkona: Ursula Andkjær Olsen.

Svo var það Larkin Grimm sem syngur sína texta á ensku við eigin undirleik; situr í sínum gúmístígvélum með hringlur um annan öklann; með ýmist gítar eða einvurskonar langspil eða dulcimer í fanginu og syngur söngva í stíl sem hún eitt sinn fann til að fæla burtu birni, einmanaleika og ótta í georgísku landslagi ameríkunnar, þar sem hún ólst upp í syngjandi og fiðluleikandi fjölskyldu.

En sem sagt það rignir og ég er ansi sátt við sirkus í stað regnhlífarinnar, því þetta var enginn dýrasirkus heldur nýsirkus með sjapplínhúmor; brot úr stærri sýningu sem heitir Farfuglar.

Eftir fimm tíma á ljóðahátíðinni var nefnilega löngu horfinn úr mér kökkurinn eftir síðdegistangóinn, þessi sem kemur einsog af ódönsuðum dönsum og öðrum ennekkisamtölum og kann ekki að kyngjast.

Einsog ljóð séu meðal; upplagt þegar orðleysið einsog dugar ekki einsog ...



3 Comments:

Blogger Anna Magga said...

Það eru nú alveg yndisleg ljóð, bloggfærslurnar þínar frænka góð.
Kær kveðja
Anna Magga

1:04 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Ahh svo þær ná ennþá norður!!
Takk elsku littla frænka mín, stórbóndinn og mamman m.m.

6:49 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Bogga mín, þú mátt líka kíka á spurninguna um ólíkan klukkutíma í síðasta kommentalista. Hún var til þín því ég var búin að gleyma öllu um símaklukku og bændaklukku :-)

3:25 PM  

Post a Comment

<< Home