My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, February 01, 2007

Hvíti silkikjóllinn - frá Vietnam

Ég er komin heim og hér er komin kvikmyndahátíð, 30:e Göteborg International Film Festival, sem stendur til 5. febrúar ... ég frétti það í spænskutíma í fyrrakvöld að argentínska myndin El Camino De San Diego (The road to Saint Diego), eftir Carlos Sorin 2006, væri hin ljúfasta og fjallaði um fátækan Maradona-aðdáanda.

Ég mætti fyrst á hátíðina í gærkvöldi - miðvikudagskvöld - sem er nokkrum dögum of seint en samt varð ég hissa á að eiga að borga "förseningsavgift"! Svo kom skýringin, það var ekki útaf hvað ég mætti seint heldur af því ég hafði skráð mig seint ... :-)

Leit við á fyrirlestri í tjaldinu fyrir utan Folkets Hus og heyrði leikarann Sven Wolter halda því fram að leiklist leiksviðsins væri list leikarans, en kvikmyndin list leikstjórans. Á rabbfundi á öðrum hátíðarbar voru ræddar myndir um ungar stúlkur og þar fuku slagorð einsog: Alltof lítið af reiðum ungum konum í kvikmyndum! og: Flest ofbeldisverkin vinna stúlkur sjálfum sér! (held konan sem hélt þessu síðasta fram hafi þá meint með því að gefa eftir, láta undan ýmsum þrýstingi og gera það er þeim í raun á móti skapi).

Svo sá ég stórmynd kvöldsins, Hvíta silkikjólinn (Tehe White Silk Dress, 2006) eftir vietnamesíska leikstjórann Huynh Luu og handritshöfundinn Luu Huynh. Hún er ein af þrem nýjum myndum frá Vietnam á hátíðinni, en í allt er boðið uppá átta myndir þaðan (!), þar af þrjár eftir Tran Anh Hung, höfund myndarinnar Cyclo frá 1995. (Hefði þó varla tekið eftir þeim nema af því ég var að leita að myndum frá Kambódíu ... og fann enga!)

Höfundur Silkikjólsins er lærður í Minnesota og Californíu og þrautþjálfaður í gerð tónlistarbanda og auglýsinga ... líklega vil ég ekkert segja um myndina; hún var svo yfirþyrmandi fögur og grimm og fegurðin alltaf að springa í loft upp, tærustu vatnsdorpar breyttust í blóðbað, þrautsegja í gleði ... sem gat verið banvæn ... sterk mynd að segja sorgarsögu fallega þar sem saga þjóðarinnar er látin speglast í fjölskyldudrama.

*

Hef ekki bloggað síðan fyrir Íslandsferð og bið afsökunnar á eyðunni. Hef hugsað mér að fylla uppí hana með því að líma einhverskonar annál inn hér fyrir neðan yfir seinustu mánuðina ... ég á bara eftir að rifja upp hvað var að gerast.

Á meðan ég man: Íslandsdvöl mín endaði loks með lendingu í Kaupmannahöfn fyrir rúmri viku þar sem ég datt inn á tvær milongur á Nörrebro áður en vikan var liðin, dansaði meira að segja á skóm með nokkurra cm hælum á þeim báðum!(Fann mjúka dansskó með stillanlegri vídd í Kaupin og púða undir "þófana"). Kom bókinni minni á Hovedbiblioteket; leit við hjá systursyninum Jóni Kristjáni á Vesterbro og fór á leiksýninguna En Vrangforestilling - í sviðsetningu Ulla Koppel - úti á Amager, í boði Marianne Larsen sem átti texta í því verki. En Kaupmannahafnardvöl mín endaði á snjóhvítum afmælisdeginum hennar Marianne þann 27. janúar og að kvöldi þess dags hélt Nína Björk Elíasson uppá stórafmæli sitt. Hún bauð til veislu í kirkju nokkurri og bræddi fólk saman með frumlegum dönsum og skemmtiatriðum milli rétta. Sem dæmi þá kom Mister Silla frá Íslandi og kórónaði kvöldið með söng sínum.

Á sunnudeginum settist ég svo upp í sænskan expressbuss og svaf þar til í Gautaborg.

1 Comments:

Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

gaman að þú skulir lesa! og takk fyrir símtal, en sorry hvað ég var syfjuð ... gaman að heyra í þér samt. vona að hreppaþorrablótið sé velheppnað!

2:37 AM  

Post a Comment

<< Home