33.Kvikmyndahátíð Gautaborgar I
Hátíð í hálku
Í blossandi fögru föstudagsveðri byrjaði Kvikmyndahátíð Gautaborgar nr.33 í dag. Snjóhvít jörð, bláhvítur himinn og sólin breiddi úr sér í roða sem sást ...
Þetta verður hál hátíð, hugsaði ég og rann í rykkjóttri fótskriðu í átt frá Drekanum, hátíðarbíóinu næst ánni. Það var síðdegis, meðan Drekinn var í óða önn að klæðast rauðu, all hlaðið dúkað rauðum mottum með rauðri kaðlagirðingu utanum.
Vonlaust að skáskjótast milli hálkublettanna, þeir eru allstaðar, en þó heppnaðist mér að komast milli staða, enda þegar búið að gera blaðamat úr hálkufórnarlambi, gamall maður með blátt andlit sást á forsíðu GautaborgarPóstsins í dag.
Á Riverton var fullt af þekktum andlitum í biðröð að ná í passana sína; Roy Andersson mættur til að halda vígsluræðu. Og íslendingar á leiðinni, veistu að Ásdís Thoroddsen kemur og ... og, segir mér Líf Úlfsdóttir, starfskona hátíðarinnar sem talar tandurhreina íslensku þótt hún hafi átt heima í Svíþjóð allt sitt líf.
Norræna kvikmyndakeppnin
Hátíðin var formlega sett á Drekanum kl. 17:30 og opnunarmyndin aldrei slíku vant gerð af heimamönnum hér í Gautlöndum vesturstrandarinnar: The Extraordinary life of José Conzalez, eftir Fredrik Egerstrand frá Allingssås og Mikel Cee Karlsson frá Varberg. Glæný heimildarmynd (Plattform Produktion 2010) sem fylgir tónlistarmanni eftir í 3 ár, José Conzalez, sem yfirgaf doktorsnám í raunvísindum til að helga sig tónlistarferli og heimsferðalögum. Myndin er ein af átta sem taka þátt í Norrænu kvikmyndakeppninni (100 þús. sænskar). Íranskfæddi Babak Najafi með myndina Sebbe, keppir einnig fyrir hönd Svíþjóðar; Michael Noer og Tobias Lindholm koma frá Danmörku með myndina R, og þaðan kemur einnig Nicolo Donato með Brotherhood (Broderskab), um ástir tveggja nýnasista; Zaida Bergroth frá Finnlandi með Last Cowboy Standing (Skavabölen pojat) um bræður sem gleyma sér í cowboyleikjum; Sara Johnsen kemur frá Noregi með Upperdog, um hálfsystkin sem voru ættleitt til Noregs, og önnur norsk mynd tekur þátt: The Angel eftir Margreth Olin, sem fjallar um konur, um að erfa tráma móður sinnar og bera það með sér. Frá Íslandi kemur svo Dagur Kári Pétursson (fæddur í Frakklandi!), með myndina The Good Heart, (íslensk dönsk þýsk framleiðsla) mynd um hin heimilislausa Lucas. Það mun vera fyrsta enskumælandi myndin eftir Dag Kára, og verður fróðlegt að fylgjast með úrslitum dómnefndar á laugardaginn eftir viku, því hingað til hefur Dagur Kári unnið þessa keppni þegar hann hefur tekið þátt, allt frá því hann kom í lopapeisunni sinni og tók á móti röð af verðlaunum fyrir Nóa Albínóa.
Íslenskar myndir og ný keppni
Aðrar myndir íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem sýndar eru á hátíðinni eru Draumalandið /Dreamland, eftir Andra Snæ Magnason og Þorfinn Guðnason; Sólskinsdrengurinn/A Mother´s courage: Talking Back To Autism, heimildarmynd Friðrik Þórs Friðrikssonar og stuttmyndin Álagablettur/In the Crack of the Land eftirUnu Lorenzen, sem sýndar eru í deildinni Nordic Light. Auk þess keppir mynd Óskars Jónassonar Reykjavík - Rotterdam um ný norræn verðlaun - ásamt fjórum öðrum norrænum tónlistarmyndum - þ.e. Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunin. Mynd Óskars fer víða þessar vikurnar, um Bandaríkin og á Rotterdamhátíðina, eins og sjá má á heima síðu Kvikmyndamiðstöðvarinnar.
Auk þess notfæra íslendingar sér markaðsdeildina Nordic Film Market, til að kynna verk sín fyrir annað fólk í kvikmyndabransanum, framleiðendum og hátíðastjórum, dagana 4 - 7 febrúar. Á föstudaginn kemur er Valdís Óskarsdóttir meðal þeirra sem sýna Work in Progress ásamt Olafi De Fleur og laugardaginn 6. febrúar munu Ragnar Bragason og Hilmar Oddsson kynna myndir sínar á markaðinum.
(Sjá islandsblogg HÈR)
Í sextán sölum
Í 16 bíósölum fer hátíðin fram samtímis, í tíu daga eða frá 29.janúar til mánudagsins 8. febrúar, enda nokkur hundruð myndir (147) af ýmsum gerðum og stærðum sem þarf að sýna og það helst þrisvar hverja mynd.
Auk nefndra deilda er Afríka í fókus, ásamt myndröð undir samnefnaranum Forget Africa.
Beyond Bollywood er deildin með 6 indverskum myndum.
Heimildamyndir eru meira en 30 talsins og Gunter Wallraf walraffar í einni þeirra og mætir á hátíðina í eigin persónu.
Another View, er deild með 7 "öðruvísi" myndrænu og þar er Sally Potter stjarnan sem sækir Gautaborg heim, fræg fyrir Orlando og nú með Rage, um morðingja í tískusýningunni ... on the catwalk.
LGBT (HTB) er deildin með myndum sem vinna gegn hetronormatívum hefðum; First Cut er all stor deild með frumraunum kvikmyndagerðafólks víðsvegar að, að ógleymdum deildum meistara og stórmynda o.fl. o.fl.
Svo eru sænskar myndir af ýmsum gerðum sýndar í stórum stíl að vanda.
Frú Liljurót upptekin
Hér áður fyrr var hefð að menntamálaráðherra mætti á fyrsta degi og héldi vígsluræðu, en eftir að frú Liljurót tók við embættinu hefur það breyst. Hún er upptekin við annað ár eftir ár eða bara í fríi í útlöndum og vill sem minnst tjá sig um kvikmyndir.
Svo leikstjórinn Roy Andersson, heiðursforseti hátíðarinnar setti hátíðina, og listræni stjórnandinn Marit Kapla kynnti aðaþemahátíðarinnar "Sharing" í ræðu sem hún deildi með einni af sínum nánustu samstarfsmanneskjum.
Og í samræmi við þemað hef ég hugsað mér að reyna að deila með mér a.m.k. hér á bláa blogginu, af því helsta sem ég verð vitni að á hátíðinni.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home