Loðið landslag
- Ertu að bíta saman þegar þú sefur? Hvernig ertu venjulega vakandi, spennir í kjálkanum kannski? og hvar er tungan? þrýstirðu tungunni venjulega fram … Nei venjulega er maður ekki með tannaför á tungunni en þú ert með tannamynstrið allt á tungunni, þess vegna spyr ég …
Það er alltaf svo gaman hjá Evu á sársaukadeildinni (kliniken för oriofacial smärta, á tannlæknaháskólanum, við Sahlgrenska), Evu Edström sem lítur á líkamann sem eina heild, ekki sem samsett brot eða tætlur án sambands sín á milli. Ég var hjá henni á fimmtudaginn var og um leið og ég nefndi eymslin og takmarkaða hreyfigetu í tungunni þá setti hún mig í tunguleikfimi, meira eða minna byggð á hugmyndafræði Feldenkrais (Moshé Feldenkrais (1904 - 1984))
Hún lagði áherslu á hve mikilvægt að er að þjálfa taugarnar og að það getur maður gert
með því að hugsa sér hreyfinguna, en sleppa því að gera hana nema að því marki sem það er sársaukalaust ... annars festist sársaukinn í minninu ... svo þó ég hugsi mér bragðgóðan ís á nefinu sem mig langar að setja tunguna í þá kann að vera betra að fara ekki alla leið!
Hún lét mig þvo og sópa munninn með tungunni; skrifa nafnið mitt upp í góminn með tungunni, mála mynd ... ég byrjaði strax á Vatnsdalsfjallinu, og gekk mjög vel með Jörundarfellið og allar hlíðar fyrir neðan - líka nátttröllin – en þegar ég var komin út á Öxl, versnaði málið, eða málverkið réttara sagt, því þar fann ég til svo Öxin og Axlaröxlin varð ansi loðið í línunum ...
En það opnaðist sum sé nýr heimur þarna í gómnum sem óx við æfingarnar. Gómheimar haha.
Það versta er að ég sé doktor Jan Nymann stundum fínglottandi fyrir mér þegar ég finn til í tungunni vinstra megin þar sem hann stakk mig fyrir c.a. átta mánuðum síðan – ég man nefnilega ekki betur en hann væri hinn ánægðasti á svipinn í september þegar hann skoðaði mig og sagðist sjá greinileg verksummerki enn! En nú fer ég til hans þann 20. febrúar og verð örugglega á varðbergi og mun meitla öll hans svipbrigði í minnið :-).
5 Comments:
Velkomin tilbaka á bloggsíðuna og úr flensunni. Gott og gaman að heyra frá þér aftur, kv og kn. Unnur
ljúft að sjá þig líka, hér á nethemavísu ... knús frá Kristínu
til þeirra sem finnst flókið að kommentera án þess að logga sig inn sem blogger: það er bara að velja um þetta þrennt under Choose an identity, og setja græna dullu í einn hringinn þ.e. velja milli "blogger" (ef þú vilt logga inn); "other", ef þú villt sega til þín með nafni (eða dulnefni)og þar er geturðu líka skrifað inn heimasíðuna þína, eða þá "anonymus" ef þú alls ekki vilt heita neitt :-)
síðan er eina þrautin klassískt stafapróf í lokin, kveðja kb
Bráðsnjallt að láta sér detta í hug að teikna Jörundarfellið í þessu tilviki en sennilega svolítið seinvirkt ef það á að vera í fullri stærð. Kveðja. Þín Bogga
hahaha :-) var ekki búin að hugsa þetta en sá það að sjálfsögðu fyrir mér í fullri stærð og öxlina líka! = ég hef fullt að gera í nánustuframtíð.
Post a Comment
<< Home