My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, February 01, 2010

kvikmyndahátíð IV & Kambódía rauðu khmeranna


Að horfast í augu við þjóðarmorð



Í gær varð ég vitni að heimsfrumsýningu myndarinnar Facing Genocide - Kheiu Samphan and Pol Pot.
Heimildarmynd eftir Svíana David Aronowitsch og Staffan Lindberg, um nánasta samstarfsmann Pol Pots og andlit Rauðu Khmeranna út á við. Ekki fyrr en árið 2007 var Kheiu Samphan ákærður fyrir þjóðarmorð á árunum 1975 - 1979, þá 77 ára gamall. Til liðs við sig fékk hann franskan lögfræðing og félaga frá námsárunum í París, náunga sem stundum er nefndur lögmaður djöfulsins eftir að hafa varið þekkta stríðsglæpamenn, svo sem Saddam Hussein. Og sá kann að búa til seinagang! (T.d. með því að heimta þýðingu á skjölum sem ekki liggur í augum uppi að þurfi o.s.frv.)

Við ákváðum að ná sambandi við Kheieu Samphan áður en það var um seinan, meðan hann enn var frjáls ferða sinna, sagði David Aronowitsch, sem mætti á frumsýninguna á Gautaborgarhátíðinni ásamt samstarfsfólki (nema Staffan sem var í loftinu og náði ekki að lenda meðan á sýningu stóð), og sagði að þau hefðu lokið við myndina svo seint sem á miðvikudaginn var.
Hann sagðist hafa furðað sig á hvernig K S gat skipt um hlutverk, hoppað milli hins sjarmerandi gestgjafa, vingjarnlega föðurs og afa og vísindamannsins sem skoðar sjálfan sig í sögulegu samhengi, hlutlægt o.s.frv. Hvernig gat þessi maður haft þvílíkt þjóðarmorð á samviskunni og því er mannvonska svona lítið auðsæ? var ransóknarefnið frá upphafi. Myndin fylgir K S og gefur honum orðið mikið af tímanum, þó ekki án gagnrýnna athugasemda, sögulegra myndbrota. Raddir vitna sem lifðu af árin ömurlegu þegar fimmta hver manneskja í Kambódíu dó, úr þrældómi, hungri, tortúr eða skipulögðum aftökum, koma líka fram.

Sterka rödd í myndinni á lögfræðingur, kona um fertugt sem var barn að aldri þegar hún horfði á eftir móður sinni í dauðann í einu af mörgum fangelsum rauðu khmeranna. Ung komst hún af sem flóttamaður til USA og fékk þar menntun sína og er í dag meðal þeirra sem ekki líða þöggun þjóðarmorðsins. En ein skýring þess hve mjög það hefur dregist á langinn að stefna hinum seku, kann að vera að hefnd á ekki heimaí buddhatrú . Eitt af sterkastu augnablikum myndarinnar er þegar þessi lögfræðingur mætir á fund eiginkonu K S og dóttur. Frúin hefur fallist á þá ósk, en virðist ekki hafa átt von á að vera álitin ábyrg né álíta að hún þurfi að biðjast afsökunar á neinu. Óneitanlega mjög merkileg heimildarmynd, sem segir óhugnanlega og flókna sögu, og trúlega alveg fyrir utan og ofan skyldunám í vestrænum skólum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home