My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Wednesday, February 03, 2010

Kvikmyndahátíð V. Günter Wallraff og Dagur Kári

Svartur með hléum

Gærdaginn byrjaði ég í tjaldi með Günter Wallraff.
Hann hélt þar (í samkomutjaldi kvikmyndahátíðarinnar) "masterclass" og var spurður um hvernig honum líði þegar "Wallraffar" þ.e.a. segja notar þá rannsóknaraðferð sem hann er löngu þekktur fyrir: dulbýr sig til að reyna á eigin skinni hvernig viðmót hann fær, að þessu sinni sem flóttamaður frá Sómalíu. Günter sem er rithöfundur og blaðamaður (kallar sig helst "reporter") og lætur sér stundum nægja að breyta um nafn titil, varð kannski hvað frægastur þegar hann gerðist tyrkneskur gestaverkamaður, til að skrifa um hvernig tyrkneskt vinnuafl var meðhöndlað í Þýskalandi.

Myndin Black on White er heimild um hvernig hann enn á ný kannar kynþáttafordóma í Þýskalandi. Falinn myndavél festir augnablikin og þar er Walraff afrískur í útliti, svartsminkaður og með sannfærandi hárkollu.

Í rúmt ár stóðu tökur yfir og Wallraff var svartur með hléum. En hann sagðist ekki hafa farið svo glatt útúr hlutverkinu í þessum hléum, það viðmót sem hann varð fyrir sem svartur gat hann ekki þvegið af sér, tók t.d. á sig sveig til að forðast óþægileg atvik á götum úti, atvik sem hann gat séð fyrir útfrá sjónarhóli svarta mannsins. Hann flúði sumsé yfir á hinn kantinn áður en hann vissi af, þótt hvítur væri.

Etv. mætti halda að kynþáttafordómar og andúð á aðkomufólki væru ekki stórt vandamál meðal "upplýstra" evrópubúa í dag, en Günter Wallraff fullyrðir að þótt þeir hafi minnkað mikið á seinustu 20 árum þá sé slíkt hugarfar einkennanndi fyrir um þriðjung þýsku þjóðarinnar. Í Vesturþýskalandi einkum hjá eldra fólki og meira eða minna dulið.
Kveikjan að Black on White var flóttamaður sem hann kynnist persónulega og skaut skjólshúsi yfir, ásamt vitundinni um innflytjendur frá Afríku sem ekki voguðu sér að segja frá þegar þeim þótti trampað á sér. Fólk sem hann hefur kynnst gegnum fjölmiðlaheiminn.
Eftir að hafa kvikmyndað atvik þar sem hann kom upp um fordóma fólks, bað hann um leyfi til að nota og sýna það heiminum og fólk skrifaði undir.
- það er svo auðvelt með nútíma tækni að misnota möguleika og mikilvægt að bera virðingu fyrir rétti fólks, sagði herra Wallraff m.a. í rúmlega klukkutíma löngu spjalli.

Günter Wallraff er umdeildur fyrir aðferðir sínar, hefur til dæmis verið gagnrýndur fyrir huglægni (subjetivitet).
- Að sjálfsögðu vinn ég á huglægan hátt, svarar meistarinn fullyrðir að sé einhver að trúa því að hlutleysi sé hægt, þá sé það alger blekking.

Það er venja að spurja höfunda hvað sé næst, hvað þeir séu að vinna að, en af kurteysis spyr maður ekki Günter Walraff hvaða þema hann ætli að walraffa næst.



Dagur Kári á Drekanum

Er það hér sem verið er að sýna myndina mína, spurði Dagur Kári og lét fara lítið fyrir sér bak við biðröðina í kvikmyndahúsinu Drekanum, en þar er aðeins einn stór sýningarsalur. Á hádegi á þriðjudegi var myndin hans sýnd í annað sinn á Gautaborgarhátíðinni.

Það er hjónaband húmors og ljóðrænu, hins kómíska og tragedíunnar sem er mér hugleikið, segir Dagur Kári þegar hann svarar spurningum að lokinni sýningu. Hann er ekki aðeins leikstjóri myndarinnar The Good Heart heldur einnig höfundur handrits.
- Ég vinn ekki þannig að ég spinni söguþráð frá upphafi, heldur byrja ég með lítil atriði, safna atvikum víðsvegar að sem ég síðan púsla saman ...
Hvers vegna velurðu New York sem sögusvið?
- Sagan gerist í stórborg, það eru ýmis atriði í myndinni sem hefðu ekki orðið sannfærandi í Reykjavík. Ég skrifaði handritið á ensku frá upphafi og ég valdi borg sem ég þekki. Þótt ég hafi aldrei búið í New York þá hef ég oft komið þangað. Það var mikilvægt að velja stórborg sem ég er í tilfinningatengslum við og ég ber tilfinningar til New York fram yfir aðrar bandarískar borgir. Hvað varð um April, aðal kvenpersónuna í myndinni?
- April var miklu fyrirferðameira hlutverk í handritinu. Þar endaði myndin á að hún tók yfir barinn. En við urðum að velja, klippa þriggja tíma mynd oní 95 mínútur.
Tónlistin með Slow Blow er stórkostleg. Og þú gerir hana sjálfur?
- Já, það er nú eitt af því besta við að gera kvikmyndir, þegar ég sest niður í ró og næði og leyfi tónlistinni að spretta fram, ég nýt þess í ríkum mæli.
Ætlarðu ekki að gera fleiri myndir með Ísland sem sögusvið?
- Jú næstu mynd ætla ég að taka upp á Íslandi. Nú er ég búin að gera myndir á þrem ólíkum tungumálum, Nói Albinói á íslensku, Voksne mennsker á dönsku og The Good Heart á ensku svo það er komið að mynd á íslensku.

Fram að þessu hefur The Good Heart verið sýnd á ýmsum kvikmyndahátíðum en í mars verður hún sýnd í kvikmyndahúsum víða um heim og þá einnig frumsýnd á Íslandi.

Næsta sýning (á Gautaborgarhátíðinni) á föstudaginn 5. febrúar kl. 17:30 á Bergakungen 2.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir skemmtilegar fréttir af kvikmyndahátíðinni.
Þín systir Bogga.

11:38 PM  
Blogger Kristín Bjarnadóttir said...

Takk fyrir að kommentera! er ekki með teljara svo ég sé ekki hvort einhverjir komi hér við ...

1:40 AM  

Post a Comment

<< Home