azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, August 14, 2005

Bandoneón - sál tangósins

Ég er að koma heim, og nú þýðir heim Reykjavík og þá sérstaklega gamli miðbærinn og vesturbærinn ...
Ég kem á fimmtudaginn ...
Og ég kem ekki ein því þetta er draumaferð ég kem með dansandi hljóðfæraleikara tangótónskáld og bandoneonleikara.
Ef einhver vill lesa um þetta hljóðfæri sem mér eins og mörgum finnst blása sálarlífinu sjálfu í tangóinn, þá má t.d. byrja á síðunni ToTango. Bandoneon minnir mig á harmoniku bara minni og betri. Þegar ég var krakki fannst mér harmonikkan flottasta hljóðfæri sem til var. Aldrei annað hljóðfæri á innansveitarböllum ... Hún hljómaði eins og heil hljómsveit og það í fangi eins manns. Oftast sá ég ekki manninn bakvið hljóðið eins og á laugardagskvöldum þegar það kom úr útvarpinu ... en sæi ég harmónikkuleikara varð ég ástfangin um leið. Og sæi ég hann ekki var ég samt ástfangin.

Einu sinni þegar ég var leikkona í Danmörku keypti ég mér littla græna píanóharmonikku með tveim áttundum og æfði Lýs milda ljós og Det haver så nyeligen regnet. Ég varð aldrei góð á nikkuna en greip samt til hennar á Íslandi alltaf þegar ég lék Grýlu á jólunum og lennti meira að segja í því ein jólin að reyna að yfirgnæfa hinn upprennandi stjörnuleikara Sigga Sigurjóns, sem lék modern Jólasvein á mótórhjóli! Við vorum stórfjölskylda með marga jólasveina á ferð um bæinn það ár ...

Einn veturinn komst nikkan mín á svið í Iðnó, þá lék ég músikalskan verkamann með einmitt svona littla nikku, svona mitt á milli þess að vera trúðarnikka og dansleikjanikka ... og Diddi fiðla samdi lag fyrir okkur. Þetta var fyrir ca 25 árum og tilheyrir leiklistarsögunni.

Sál tangósins á sér sum sé nokkra fyrirrennara í mínum draumkennda veruleika eins og ég man hann ... og nú finnst mér bandoneon flottasta hljóðfærið, kannski af því það er alltaf inni í svo undarlegum sögum.

Og ég læt heillast af bandóneonleikurum. Einn þeirra heitir Carlos Quilici.
Ég hitti hann fyrir þremur og hálfu ári á tangómenningarklúbb í San Telmo í Buenos Aires. Á tangótónleikum á Tasso. Color Tango lék. Ég hékk smá í barnum af því svo huggulegur náungi hékk þar og spjallaði við mann. Hann var með spékoppa og fallegt bros og hann bauð mér upp í dans. Hann var frá Rosario og eiginlega á tónleikaferð í 14 miljón manna borginni. Hann stakk upp á að ég kæmi á tónleika daginn eftir, hlustaði á hljómsveitina hans - Los Tauras - einhverstaðar í Palermohverfinu. Hann sagðist eiga argentínska vini í Málmey, þeir væru með tangóhljómsveit þar og þeir væru búnir að bjóða honum að spila með sér ... "ég er að hugsa um að fara þangað í ágúst", sagði hann og ég hugsaði: alveg dæmigert alla argentínutangóarar og listamenn vilja til Evrópu og allir Evróputangóarar vilja hingað ... En þetta var Carlos Quilici og ég vissi ekki þá að honum var alvöru alvara, fyrr ég ég sá hann aftur: hálfu ári síðar á milongu í Kaupmannahöfn með Tangarte frá Málmey; seinna á sænsku hátíðinni Man must dance við Krokstrand með tríóinu Tango Platense og í Málmey með gitarista á Loftinu hjá Helen og Libertango ...

Ég gat sum sé ekki dansað mig frá tangótónskáldinu og hef ekki gert enn því hann er eins og farfugl, kemur þegar sumar er hjá okkur og leikur draumahljómsveit ... á næstumþvítrúðarhljóðfærið með takka á báðum endum: kemur fljúgandi með sál tangósins.

Heinrich Band er sagður hafa verið með fyrsta eintakið til sölu í desember árið 1850 í verlsun sinni í Krefeld í Þýskalandi. Hvenær fyrsta eintakið af bandoneon kom til Buenos Aires er ekki vitað en í stað kirkjutónlistar eins og hljóðfærinu var upphaflega ætlað að leika, þá tók það að leika valsa og polka í höndum inflytjenda ... en ekki leið á löngu áður en það lék með gítörum, fiðlum og flautum sem spiluðu þá nýu tegund af tónlist - heimatilbúinni í Argentínu - sem nefndist Milonga. En hún var hröð og byrjendur á bandoneon réðu ekki við hraðann. Tónlistin hægði á sér og Tangóinn varð til og Baby Bandoneón varð sál hans.

Monday, August 01, 2005

Júlí var hátíð

Sumarið er enn og samt eitthvað að dvína, mesta sólin búin að vera og sumartangótangóhátíðarnar bráðum; nema á Íslandi sem er svo gáfuð að vera á haustin. 1-4 september í ár. Og Riku verður Dj og vinurinn Ralph kemur held ég trúi og vona frá Munchen! Það þýðir eiginlega tveir rjómadansarar frá Gautaborg á hátíðamilongunum, hm ... já um leið og hljómsveitirnar leika og DJeiinn fær smá frí (Gautaborg er auðvitað ekki Munchen en af því Ralph var hér í nokkur mikilvæg tangóár og má segja að hann hafi verið frumkvöðull hér - komið á alvöru DJ hefð á milongum - þá vil ég auðvitað sem gautaborgartangófífl eigna mér hann þannig ...) Halló! tala saman stelpur!