azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Monday, August 27, 2007

Ég dansa sósu, segir fiskurinn


Ég var að reyna að svindla við heimaverkefnið, soldið sendibréf á spænsku, með því að láta fiskinn - altavista babelfish - þýða fyrir mig. En þegar ég bið um þýðingu á ensku til að gá hvort ég hef skrifað eitthvað skiljanlegt á spænskunni um dans einsog tangó og salsa, ja þá þýðir fiskfíflið einfaldlega salsa yfir í sósu. "Ég dansa helst tangó og sósu", segir hann. Mér þótti þetta ósvífið. Jafnvel orðabækur ættu að vita að maður breytir ekki dansi yfir í sósu sama hvað hann heitir.

Í kvöld sunnudagskvöld dansaði ég á Polketten á nýjan leik og var svo hlýðin og fylgin í "sósunni" að ég fékk eftirfarandi tilkynningu hjá hávöxnum Frakka eftir einn dans: - Ég er búin að dansa við minnst tíu í kvöld og þú dansar betur en nokkur þeirra.
Ég hafði aldrei heyrt annað eins og þótt ég vissi ekki hverjar hinar tíu væru, þá þorði ég ekki að dansa meira við hann af ótta við fipast útaf hrósinu og þá héldann að sér hefði skjátlast ...


Þetta var síðasta salsakvöldið á Polketten í ár og braselíska Adriana Mendes, sýndi samba ásamt þrem öðrum velvöxnum konum og Aldo bróður sínum, öll með metershátt fjaðrafjall á höfði og í glitrandi búningum ... konurnar með berar rasskinnar léku hitabylgju í síðsumarkvöldinu sem var vindasamt, náði ekki tuttugustiga hita svo notalegur svalinn þaut í fjöðrunum.

*

Eftir vonbrigði mín með sænska tjúttið og tilheyrandi refadans, þann Foxtrott sem ég bloggaði um seinast er ég búin að sjá mér til mikillar skelfingar á sænskri síðu sem kallar sig “Dansmafían”, að fólk bloggar og skrifast á um Foxtrott í svipuðu orðalagi og við tangófólkið tölum um argentínskan Tangó! Talar um að foxið sé eins og dóp og hvernig maður verði háður foxinu og svona.

Og nú veit ég raunar að Foxtrottinn - sem fyrst var dansaður við ragtime tónlist (1900 - 1918) og þótti auðveldari hér en Tangóinn (sem kom nánast samtímis til Svíþjóðar c.a. 1912) - á sér ýmis nöfn. Eitt það nýjasta hérlendis er "Gnuss" sem á upptök sín á svæðinu við Sundsvall og Hudiksvall, samkvænt bókmenntaprófessor Birgitta Holm. Svo er líka talað um Dirtyfox. Á bloggi hjá “dansmafíunni er togast á um hvort sé “mysigare” (sem er sænska og þýðir kósíara á góðri íslensku), Dirty fox eða Gnuss og eftirfarandi innlegg lýsa soldið hvað gnussið gengur útá.

”Likställ inte gnuss med dirtyfox, det är två skilda saker. även om man gnussar halvt som halvt mun mot mun skulle jag inte kalla det dirty. De riktigt bra killarna som gnussar är Sundsvallarna, de är outstanding på det!”

”Dirtyfox, exakt vad är det egentligen? Är inte det då man mest står still och åmar sig mot varrandra er einn sem spyr og í svarinu er vísað á heimasíðu danskennara nokkurs.

Og hér er vídíó þar sem Dirtyfox danskennarinn Odd i Umeå reynir að slá í gegn með sitt fox í danskeppni! Ég sé ekki betur en að dómararnir þurfi að stilla sig smá um að fordæma ekki faðmlagið. Sjá hér.

*

Einn dans langar mig að læra. Hann heitir Balboa. En ég þekki engan hér í bæ sem kann hann enn. Það væri helst að finna einhvern hjá lindy hoppurunum.

Balboa er pena útgáfan af Lindyhopp sem poppaði upp í Harlem á sínum tíma. Mér skilst Balboa hafi verið fundinn upp svo fleiri kæmust á gólfið og dansaður við sömu tónlist en engin hopp og engin köst né flikkflökk, þvert á móti sést varla hvað maður gerir með fótunum, bara að parið snýst í hringi dansar nálægt en aldrei að flétta sig saman með fótunum heldur líður í hringi eins og fínasti Ferrari að elta skottið á sér. Ég hef séð ýmsar útgáfur á netinu (you tube) . Ef Refadansinn minnir á finnskan tangó þá getur Balboa getur jaaaaafnvel minnt aaaaðeins á argentínskan tangó. Tangó tjúttaranna.

Foxið og Lindyhoppið, Jitterbúggið (hvíta nafnið á Lyndy)Charlestonið Tjúttið Rokkenrollið Twistið og Djævið, já allir þessir sveifludansar ólíkra kynslóða gegnum rúma öld eru ættingjar. Snemma dansað við ragtime blues og djass með rætur í afrískum söngvum.

og bera að sjálfsögðu með sér hina merkustu músik og menningarsögu, svo nátengt ragtime blues og djass.


P.S.

Var að leita að góðu balboadæmi á vídíó og sé svo margar útgáfur af þeim dansi að það stenst ekki nein lýsing stundinni lengur ...

Hér er vídió frá balboakeppni í Amríku. Minnir mig helst á tjúttið í Húnaþingi um 1960 þegar Biggi vetrarmaður og Inga frá Siglufirði dönsuðu í Skólahúsinu á Sveinsstöðum.
Til samanburðar má sjá bút með dæmigerðum Lindy köstum hér.

Og
Groovie moovie 1944 funny jitterbug instuctional video

Ég ætlaði að fullyrða að fólk hefði verið miklu betur klikkað áður fyrr en þá sá ég þetta!

Og engan veginn leiðinlega Lindyhopp keppni frá 2006 hér


*

Sunday, August 19, 2007

Danskúltúr á Polketten

Það er ekki bara ein menningarnótt hér í bæ heldur ein vika. Vikan sem leið. Tónleikar á öllum torgum miðbæjarins og boðið uppá eitt og annað í menningarstofnunum Gautaborgar. Á Liseberg var ókeypis aðgangur öll kvöld vikunnar og danshljómsveitir að troða upp í löngum bunum - minnst fjórar á kvöldi - og dansað á tveim útidansgólfum. Polketten er annað þeirra (þar er dansað öll kvöld á sumrin) það er undir þaki og þangað flýr fólk af bráðabirgðadanspöllum ef rignir. Sænsk Dansbandsmusik eins og hún er kölluð, býður helst upp á þetta skandinavíska tjútt sem er sjaldan fallegt að horfa á en góð þjálfun fyrir fætur og snúningsvitið. Og svo foxtrott. Alltaf til skiptis, tveir af hverjum. Og þetta er kallað að dansa modernt (!) er mér sagt af þeim sem kunna sig í svona samhengi.


Mér finnst frekar óþægilegt að horfa á þann foxtrott sem flestir dansa á Polketten. Haldið er líkt og í amerískum polka eða ef til vill sænskum polskadans, báðar hendur hans á baki hennar og hún með sínar báðar á herðum hans. Þetta er venjulegast. Einstöku konur láta aðra höndina lafa niður með eigin líkama og þá veit ég ekki hvort hún er að hvíla sig eða sýna að hún komist af án hennar. En svo eru til karlmenn sem halda annari hendinni bak við hnakka konunnar, stundum á þann hátt sem hlúð er að höfði hvítvoðungs með hendinni og stundum eins og til að vernda höfuð hennar í umferðinni á gólfinu, með olnbogann útí loftið til að ota þá öðrum höfðum frá. Það getur verið sjarmerandi að sjá, en minna sjarmerandi að horfa á læraflétturnar með tilheyrandi mjaðmarúlli. Í salsa getur mjaðmarúllið verið sætt og sensuelt, en hjá foxtrottfólkinu á Polketten finnst mér það meira klúrt - sumir eru einsog fastir í hver öðrum jafnvel milli laga - eitthvað sem fólk ætti bara að stunda heima hjá sér hugsa ég þá og sárnar það skuli trufla mín fínfínu augu með því sem ætti að vera heimavinnan þeirra!


Í gær gerði ég aðra tilraun í þessari viku til að aðlaga mig þessum danskúltúr, en ég verð svo miður mín í foxtrottinu, hvort sem ég er á gólfinu eða fyrir utan, að það þarf mjög góða og blíðhennta tjúttara til að koma kökknum uppúr hálsinum á mér eða norður og niður. Fyrra kvöldið var ég heppin, en í gær var lítið um bjargvætti fyrir mig. Til að enda ekki með kökkinn einn, fann ég þó einn músikalskan til að snúa mér áður en ég flúði úr skemmtigarðinum og rölti gegnum hljóðveislu miðbæjarins.


En í kvöld er salsa á Polketten. Ég ætla að hjóla í bæinn skoða rósirnar í Trädgårdsföreningen með vinkonu minni Anna Mattson. Og svo sé ég til!


Saturday, August 11, 2007

Myndir frá Tango del Norte



Frá danssýningu á Tango del Norte í Falkoner Salen í Kaupmannahöfn laugardaginn 4 ágúst og frá tónleikunum í Vandlöse Kulturhus 3. ágúst.
Á myndunum eru Maria og Paul, Hany og Bryndís, Marcela Troncoso og Victor Hugo Diaz (í léttri dívu örugglega sérsaminni fyrir efrópubúa!), 2xMette og Martin, sem eru á leið til Íslands í lok mánuðarins.

Lägg till bildOg loks norska sveitin Tango for 3. Stjórnandinn og tónskáldið Sverre Indris Joner að klappa taktinn í milongunni Trampera, lék þá ýmist á höfuð bassaleikarans! hljóðfærið hans og á sjálfan sig. Á neðstu myndinni er hann sestur við píanóið og dofradrengurinn og þar sést glitta í Per Arne Glorvigen alvarlega einbeittan með sitt bandonéon, aftur tekin til við að framkalla sjálfa sálina í tangó.


Friday, August 10, 2007

Dofradrengurinn Per Arne og ”gringo” í nýrri merkingu.


Nú er ég svoleiðis yfir mig hrifin af Dofradrengnum. Ég kalla hann það af því hann er frá Dovre í Noregi eins og dóttir Dofrans og hennar fólk. Hef aldrei séð jafn fallega rangeyðan mann og svona líka blíður og brjálæðislegur þegar hann leikur á hljóðfærið. Sem sagt enginn venjulegur bandóneonleikari (ég hrífst orðið bara af bandóneonleikurum og hef nóg að gera við það). Ég var búin að fá eiginhandaráritun þegar ég bauð honum upp í dömufríinu á Tingluti. Það var eftir tónleika föstudagskvöldið 3. ágúst á Tangó del Nortehátíðinni í Kaupmannahöfn. Hann lék þar með félögum sínum norsurunum, tangótónskáldinu Sverre Indris Joner og co. Engir venjulegir tónleikar en þarna stóð hann og hallaði sér uppað barnum og sagði nei! Það þarf góða afsökun í dömufríi. Hans var að þrásinnis hefði hann byrjað á dansnámskeiði en alltaf misst þolinmæðina.

– Svo þú ert skáld sagði Dofradrengurinn og sagðist hafa óskaplega gaman af tungumálum en vanta íslenskuna og þá mundi ég hvernig hann lét munninn dansa milli spænsku frönsku norsku dönsku þýsku og sænsku í kynningunum á tónleikunum og maður hélt hann væri að fíflast en hann var að gera soldið meira og ég lærði nýja merkingu í orðinu “gringo” sem venjulega er notað yfir ekki spænskumælandi manneskjur í spænskumælandi löndum. Á máli Dofradrengsins er það tónlistartegund, þegar blandað er saman tónlist eftir Grieg og tango. Þegar hann leikur lög úr Pétri Gaut, eins og I Dovregubbens hall (Í höll Dofrans), í tangóútsetningu, þá er það “gringo”.


Skyndilega forðaði Dofradrengurinn sér frá jaðri dansgólfsins við barinn og settist við hlið vinkonunnar norsku sem hafði setið við hlið mér á tónleikunum. Hún hafði hlegið enn meira en ég og nú lét hann mig eina um skáldskapinn.

Þegar ég les um líf hans á netinu hljómar það eins og versta skáldsaga.

Til dæmis hefur hann haldið tónleika um allan heim með fiðlusnillingnum Gidon Kremer, og fjórir diskar eru til með tónlist þeirrra auk allra hinna sem hann hefur spilað inná. Ég keypti bara einn með Tango for 3 & Per Arne Glorvigen og er búin að gleypa forsíðuna með eiginhandarárituninni, finn hana hvergi.

En Per Arne Glorvigen, það heitir Dofradrengurinn réttu nafni og hér er heimasíðan hans, meira að segja með vídeoupptöku! http://www.perarne.net/


*


Sem sagt einn af heimsins bestu bandóneonleikurum.

Til minnis: Hann lærði hjá argentínska meistaranum Juan José Mosalini sem hann hitti í París árið 1988 (sem raunar leikur í hljómsveit hjá frábæru sænsku tangótónskáldi að nafni Beata Söderberg!), og náði að kynnast sjálfum Piazzolla í Buenos Aires. Dofradrengurinn er líklega fyrsti norðurlandabúinn sem tileinkar sér bandóneonleik og gerist atvinnuleikari á það vandasama hljóðfæri. Hann heldur sig ekki eingöngu við tangó, hann hefur leikið bítlalög með Gautaborgasymfóníunni og gítarleikaranum Göran Söllscher (sem ég heyrði einu sinni á meistarataónleikum með Manuelu Wiesler), ung tónskáld kompónera fyrir hann Willem Jeths í Hollandi og Bernd Franke í Þýskalandi og sjálfur útsetur hann tónlist eftir Edvard Grieg fyrir hljóðfærið sitt.

Á morgunn laugardaginn 11. ágúst kemur lítil grein í Mogganum, fréttapistill sem ég skrifaði um tangóhátíðina í Kaupmannahöfn 1.-5 ágúst s.l. Hún er stutt, næstum ekkert um Dofradrenginn bara um tónleika norsku hljómsveitarinnar Tango for 3, og miniviðtölin við þátttakendur mættu flest afgangi. Svo ég geymdi afgangana í greinasafnið ... nema ég birti þá bara hér!


Wednesday, August 01, 2007

Hlé


Kæru gestir,

nú verður gert hlé á fortíðinni minni um óákveðinn tíma í von um að hún hlaupi ekki í burtu en sýni sig í nýjum myndum þegar ritari kemur úr fríi.

Við erum á leið í ferðalag ætlum að heimsækja borgina við sundið, ritarinn og ég, fara í leikhús, heimsóknir og á norræna tangóhátíð ...

bestu síðsumarkveðjur,
kb