azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, May 29, 2008

Afmælisdagur


Ég á afmæli í dag! Líklega í kvöld ... mamma fullyrti (alltaf þegar ég spurði) að búið hefði verið að loka símstöðinni þegar ég var alkomin í heiminn - sem gerðist á gamla spítalanum á Blönduósi - og því ekki auðvelt að tilkynna komu mína alla leið heim í Haga.

Svo liðu sextíu ár og einhverntíma hefði ég haldið að eftir sextíu ár væri maður álíka gamall og mér þótti fólk yfir þrítugt vera þegar ég sjálf var átján og harmaði síðan nítján ára afmælisdaginn minn sem færði mig nær hinni skelfilegu elli! Ég sem hafði öll mín krakkaár hlakkað svo til að verða fullorðin. Það er eitthvað bogið við þetta með aldur en ég er himinlifandi yfir að fá að vera með enn í dag. Fá að dansa soldið áfram meðan líkaminn fylgir manni ... hm hver svo sem hann er þessi "manni".

Ég var á fróðlegu rithöfundanámskeiði í sólskininu á Biskops Arnö í síðustu viku, þar sem rætt var um sögur og andsögur eða berättelser och motberättelser og einn fyrirlesarinn var skáld og vísindakonan Hanna Hallgren, nýbúin að gefa út bók með ljóðum og því sem hún kallar blaðaprósa undir titlinum: jaget är människans mest framträdande sinnessjukdom (sjálfið er mest áberandi geðveiki manneskjunnar). Frumlegur og umhugsunarverður titill ...

Bjó þarna á biskubsstólnum í herbergi sem var eins og hallargarður og í næsta herbergi Þórunn Valdemarsdóttir sem heilsaði mér með tveim bláum óskrifuðum bókum að gjöf. Ég hengdi þær strax í sinn hvorn eyrnarsnepilinn og dag eftir dag reyndu sessunautar mínir á námskeiðinu að lesa þær. Það var ljúft að kynnast þórunni sem kann sögur um flest. Systkini mín fullyrða að við séum frænkur. Í móðurætt segir Stella, í föðurætt segir Lárus, málið er í rannsókn.



Ég las upphátt í biskupsstofunni á einni kvöldvökunni, í fyrsta sinn sem síðan fyrir geislameðferð. Mér tókst að beita tækninni sem "logopedinn" á Sahlgrenska hefur verið að kenna mér til að röddin svíki ekki í miðri setningu eða orði ... og einhvernveginn tókst mér að lesa nokkrar ljóðabunur og njóta þess. Fann ekkert til á eftir. Ótrúlegt.

Fékk í gær aðra gjöf sem vex: Tvö tré í Afríku!

Í kvöld verð ég ekki heima
held ekki veislu
þarf að dansa

Elísabet vinkona, illgresisbarn, mörgumsinnum amma, stórskáld og fjallablóm og listaháskólanemi þar til á laugardaginn kemur, bloggaði meiriháttar skáldlega afmælisræðu til mín í dag. Takk Elísabet.