azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, May 21, 2006

Ljómandi og skröltandi í vorinu

Þegar "geimferðabúningurinn" minn var tilbúinn fékk ég að taka mynd. Hann er mótaður eftir mér úr plasti sem var lagt á mann glóðvolgt og lagast svo að höfði og herðum meðan það kólnar.
Gloppóttur búningur sem slíkur ... :-)
Þetta er gert til að halda manni í skorðum meðan á geislun stendur og það í nákvæmlega sömu skorðum í hvert skipti svo hið persónulega prógram passi, þa.e. lendi rétt á manni. Og svo er kannski kostur að hægt er að teikna merkingar á búninginn í staðinn fyrir á húðina.

Svörtu rendurnar neðst eru til að setja festingar í, manni er hneppt niður á bekkinn - og koddann sem er pumpaður upp - hverju sinni í þessar mínútur sem geisluninn tekur og tækin sem minna á sneiðmyndatæki, ferðast sína leið til að geisla úr ólíkum áttum. Tekur bara fáeinar mínútur, og eftir fyrstu skiptin (þegar ég lá stíf og las bænirnar mínar lon og don) þá reyni ég ekki einu sinni að ímynda mér að ég finni fyrir því, hvað þá að nú verði geisluð sundur raddbönd, skjaldkyrtill og annað sem er í uppáhaldi hjá mér ...


Hver sjúklingur er inni c.a. 15 mín og mestur tími fer í að koma sér fyrir og annan undirbúning.
Ég mæti tvisvar á dag með 6 - 8 tíma millibili, flesta virka daga og er nú þegar held ég búin með 24 skipti af í allt 38.
Posted by Picasa Síðan er bara eftir Brachyterapy, (geislun innan frá) um miðjan júní.

- Ljómandi -

Så då blir du aldeles strålande! Sagði Riku Kotiranta þegar ég romsaði upp geislaprógramminu mínu, sem á að ljúka um miðjan júní. Geislameðferð heitir strålbehandling á á sænsku svo orðaleikurinn virkar ekki alveg á íslensku því þá verður setningin: Svo þá verðurðu orðin alveg ljómandi.

- Fer skröltandi til dyra -

Þeir bönkuðu uppá um hádegisbilið í gær laugardag tangóvinirnir Ralph og Riku, og þegar ég kom til dyra með statífið sem ég fékk lánað til að halda uppi vellingnum mínum meðan hann rennur gegnum sonduna sem ég fékk í vikunni, þá var mér tilkynnt góðlátlega að skröltið í mínum fylgifisk heyrist útá stigagang!

Elegant að fá herra sem svo stökkva til og hjálpa manni með þvottinn, uppdataera MP3 puttann og huga að öðru praktísku ...

Vona þeir sæki mig á síðdegismilongu í dag ... þeir eru undirbúnir, þora kannski að bjóða mér upp í varlegan Tangó. Skröltandi hjólastatívið þarf að sjálfsögðu ekki með, en ég með útvortisplastæð út um alla kinn og bakvið eyrað; plástur á nefinu og víðar sem flestir taka eftir sem taka eftir mér.


- Har du gjört dig illa? -

Þegar ég kom heim svona límd við sonduna á föstudaginn var þá spurði nágranni minn spontant hvort ég hefði meitt mig! Har du gjort dig illa? Spurði hann. Svo ég byrjaði að útskýra ... ég er í geislameðferð sem beint er á hálsinn og þá skemmist slímhúðin í hálsinum - það er dæmigerð aukaverkun bara - og mín var orðin flakandi sár svo ég gat hvorki borðað né drukkið lengur og ákvað að kvarta áður en liði yfir mig og var þá lögð inn í þriggja daga sondunæringarnám. Svo nú lifi ég lúxuslífi, helli í mig matnum án þess að finna fyrir því (í staðinn fyrir sviða og uppköst) og dópa mig með stífum verkjalyfjum.

Síðdegis í gær tók ég extra æfingu í því í að fara á mannamót með sondið því mér bauðst far á vortónleika Íslenska kórsins í Gautaborg sem tróð upp engilfríður í Frölundakirkju. Vissi að ég kæmi ekki flatt uppá alla með útlitsbreytinguna, því leshringurinn góði hittist í vikunni sem leið og það kvöldið fékk ég orlof frá Spítalandum/Jubileumsklinikken. Annars hefur það óneitanlega ollið mér vangaveltum þetta að bera hættulegan sjúkdóm, án þess að bera þess nein ytri merki... en það er annað blogg ...

Í dag er 15 stiga hiti og rigning. Hæpið fyrir bryggjutangó!

Sunday, May 14, 2006

Bloggstopp

Laus við brunninn og Posted by Picasa bara smá ör enn eftir þessa innvortis leiðslu. (Sést t.v. á myndinni.)

Það er Dansbiennal i Gautaborg; ég guggnaði á að fara á sýningar, nema settningardaginn þann 11 maí á Götaplatsen, þá mætti ég og hitti tangófólkið þar! Kom nánast beint úr geislum og náði ekki að lyppast niður, það þakka ég félagsskap Mats Perssonar. Ljúft og hlýtt kvöld í sólarlaginu, sem lauk með útimilongu á danspalli fyrir utan Listasafnið og Poseidon stóð sem steinn gjöfull á torginu með sínar vatnsbunur í allar áttir ...

Nú er sunnudagur og ég er að búa mig á ball! Ætla á Milongu i Kvarnbyen/Myllubænum, í Mölndal, þar sem forvitnilegt par var með námskeið um helgina og ætlar að sýna í kvöld; nýupprunnin tangóstjarna Gautaborgar Gilda Stillbäck - atvinnudansari (contemporary) sem tók tangó sem aukagrein fyrir nokkrum árum - og tangóstjarna Skánar, hinn hálf argentínski Daniel Carlsson, sem venjulega dansar við stóru systur sína Jessiku eða pínulittla vörubílstjórann hana Önnu.

Ég veit hinsvegar ekki af hverju ég strandaði við að blogga fyrir meira en mánuði síðan, að vera ekki með ferðatölvu á spítalanum afsakar bara fáeina daga ...

Eftir seinasta blogg var ég 6 daga á Sahlgrenska = sjóferð nr 2; ég stóðst inntökuprófið því heimavarnarliðið mitt var byrjað að taka skipanir alvarlega og sinna skildum sínum (og þar hafa komment vina og ættingja örugglega haft sín áhrif ...með bæði baráttukveðjum og bænum). Eftir þá sjóferð tók við önnur vika meðan frumueitrið var enn að reyna að vinna á mínu meini og mér um leið.

Ég er stundum heppnari en ég get ímyndað mér ... með vini og vandamenn og lífið almennt með óvæntum skemmtilegheitum...

Áður en ég útskrifaðist voru komnir páskar og ég reyndist “lyckligt lottat” því íslenska tangóparið Kristinn og Sigurlaug kom brunandi frá Kaupmannahöfn á silfurlita bílnum sínum, gagngert til að hressa mig við! Þau komu og heimsóttu mig og sóttu mig. Komu með gjafir og blóm og nýjustu fréttir frá Buenos Aires þar sem þau höfðu m.a. rekist á Reykjavíkurtangóara, gott ef ekki nýkomna af jökla og hverasvæði í SuðurArgentínu!

Og ég fékk fleiri góðar heimsóknir frá Kaupmannahöfn: Þann 27. apríl kom Marianne Larsen skáldkona og 6. maí kom Nína Björk Elíasson
brunandi með glóðvolga upptöku af Tónleikum í Berlín á dögunum, þar sem hún söng. ma lög sín við texta eftir mig.
Sjá hér um Nínu og hljómsveitina hennar Klakki.

Hulduhernum mínum má hinsvegar kenna um það að tíminn heima styttist í annan endann áður en ég byrjaði í geislameðferð þann 26. apríl. Vikan eftir páska fór í þeyting vegna undirbúnings, þ.e. ýmsar ferðir á spítalann, til að sneiðmynda mig; á Tannlæknaháskólann til prof. Bodil Fagerberg að ganga úr skugga um að engin tannrótarbólga né vanheilsa væri eftir í mínum munni ... og ljúka við að máta “geimferðabúninginn”.