azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Sunday, October 29, 2006

Týndi regnhlífinni og fann nýsirkus og aðra farfugla

Lengsti sólarhringur ársins var að byrja. Líklega í Evrópu allri nema Íslandi? Áttaði mig á því núna þegar ég kom heim að ég hefði hugsanlega getað notað aukastundina í að drífa mig í skáldapartí á Karl Jóhannsgötu að lokinni ljóðadagskrá í kvöld á þriggja daga ljóðahátíð í Gautaborg ...

Ég týndi regnhlífinni minni. Fann sirkus í staðinn þegar ég leitaði. Sirkusinn var að pakka saman. Sirkusinn sem sýndi milli ljóðalestra. Sýndi að ljóð er margt annað en orð. Að ljóð er línudans; líka þegar línan hangir lóðrétt úr loftinu og cirkusdansmey fetar sig upp með hugmyndaríkum snúningum á rauðum lofttaumum úr taui og lætur sig falla í fróðlegar stellingar þess á milli. Sirkusinn heitir Cirkus Baó og kanski var það Magnús sem renndi sér í snarkasti undir sætaröðina til að leita að regnhlífinni minni. Línudansmeyjan heitir Marta og er menntuð í sirkusskóla í Braselíu og þriðji cirkuslistamaðurinn heitir annaðhvort Douglas eða Malcolm ...

Ég leita og finn eitthvað annað nema þegar ég fann Moniku Fagerholm við hlið mér þá leitaði ég ekki að neinum öðrum við hlið mér og þegar annað finnskt skáld og yngra á hvítum reimuðum stígvélum las ljóð undir titlinum Landet som inte är (Landið sem ekki er) þá leitaði ég að Edith Södergran i hverri línu og fann hana í þriðju hverri. Magnað samtal milli tveggja skálda; milli landsins sem er og hins sem ekki er ... Skáldið sem stóð á sviðinu heitir Catharina Gripenberg - finnlandssænsk eins og Mónika - og gerði hressilega vart við sig í ljóðaheiminum árið 1999 með bók sem hún nefndi: På diabilden är huvudet proppfullt av lycka.

Móníka las úr verðlaunabókinni Den amerikanska flickan - sem hún fékk Ágústverðlaunin fyrir 2005 - og endaði á vísdómsorðum einnnar persónu sinnar, um það að vera ástfangin; það gerist ekki útaf að manneskjan sem maður lætur heillast af sé gædd einhverjum góðum eða viðfeldnum eiginleikum, heldur af því hún ýfir eitthvað upp innra með manni sem þá öðlast líf.

Og Ann Jäderlund las úr nýjustu ljóðabók sinni; mætti í eigin persónu og las! Það er nýlegt í sögunni; því hún - sem er eitt virtasta skáld svía allt síðan hún gaf bókmenntaheiminum nýjan tón með Vimpelstaden 1985 – hefur lengst af verið of nervus til að leggja í slíkt. Þegar ég hitti hana í fyrsta sinn fyrir bara fjórum árum, sagði hún mér að ef hún þyrfti að lesa í útvarpið þá kæmu tæknimennirnir heim til hennar, kæmu tækninni fyrir og færu svo! Héldu sig í burtu rétt á meðan hún var að lesa.

Gunnar Wærnes - þekkur fyrir ljóð sem hvísla - las uppúr nýjustu bókinni sinni Hverandres af tærri snilld, og ég heyrði fimmta hvert orð á íslensku en það var þrándheimska fullyrti hann eftir á; sagðist aftur á móti vera á leið til Íslands eftir tvær vikur að lesa upp í boði Davíðs Stefánssonar á Ljóð.is og Nyhilsmanna.

Annað skáld og meira sænskt sem ég hef ekki hlustað á fyrr var Ulf Karl Olov Nilsson. Hann var svo sterkur og hrífandi í orðlist sinni á sviðinu að ég missti meira eða minna af því hvað næstu tvö skáld voru að segja! Það þótti mér miður því annað þeirra var ung dönsk skáldkona: Ursula Andkjær Olsen.

Svo var það Larkin Grimm sem syngur sína texta á ensku við eigin undirleik; situr í sínum gúmístígvélum með hringlur um annan öklann; með ýmist gítar eða einvurskonar langspil eða dulcimer í fanginu og syngur söngva í stíl sem hún eitt sinn fann til að fæla burtu birni, einmanaleika og ótta í georgísku landslagi ameríkunnar, þar sem hún ólst upp í syngjandi og fiðluleikandi fjölskyldu.

En sem sagt það rignir og ég er ansi sátt við sirkus í stað regnhlífarinnar, því þetta var enginn dýrasirkus heldur nýsirkus með sjapplínhúmor; brot úr stærri sýningu sem heitir Farfuglar.

Eftir fimm tíma á ljóðahátíðinni var nefnilega löngu horfinn úr mér kökkurinn eftir síðdegistangóinn, þessi sem kemur einsog af ódönsuðum dönsum og öðrum ennekkisamtölum og kann ekki að kyngjast.

Einsog ljóð séu meðal; upplagt þegar orðleysið einsog dugar ekki einsog ...



Tuesday, October 24, 2006

Hélt ég væri rifbeinsbrotin

Dansaði "kontaktimpro" í gær - einskonar spunadansáflog eða það sem manni dettur í hug - andaði þá svo rösklega að ég hélt ég væri rifbeinsbrotin!

Í dag er ég sannfærð um að "rifbeinsbrotið" eru harðsperrur af að anda :-) .

Þetta er bæði brandari og ekki. Hef hugsað mér að halda áfram að anda. Og endaði sunnudaginn á salsa.

Það er risa haustblómvöndur á borðinu hjá mér frá í síðustu viku, útaf að þá kom Stína til að lesa upp í Hagaleikhúsinu með píanista sem spann; hún las úr ófullgerðu handriti sem Mare Kandre skildi eftir sig.

Anna Mattsson hefur fengið svo fína dóma fyrir þriðju bókina um Alexöndru, Vägar utan nåd. Hér er einn i Sænska dagblaðinu; hér er annar í Gautaborgarpóstinum.

I dag kom Mats Persson og við borðuðum hangikjöt og flatbrauð saman og hlustuðum á "Gamla pósthúsið", tónlist með Reyni Jónassyni og Szymon Kuran, sem Guðrún Kristins færði mér um daginn.

Mats var að koma frá Danmörku og sagði dramatískar leikhúsfréttir þaðan af leikhússtjóraskiftum og svona ... Jan Maagaard tekin við sem nýr formaður hjá Köbenhavns Teater til að kóróna söguna. Sjá frétt líka frá 19. október í Politikken hér.

Ah! nú er komið yfir miðnætti og tíminn ekkert breytt sér enn! þarf að athuga þetta hvenær er vetur hér? þ.e. vetrartími.

En ég er semsagt mjög viðkvæm en ekki alveg eins brothætt og ég hélt :-)
*

Saturday, October 07, 2006

Október og athyglissýki

Ég hef verið svo upptekin að dansa mig fríska og njóta lífsins að bloggið hefur geymst vikum saman. Var að átta mig á því að tryggir lesendur gætu haldið að ég sé öll! Svo ég dreif í að birta mynd í vikunni! Ég á þó vini og vandamenn sem enn spyrja eftir mér og ég finn mig í að segja söguna af mínu meini og lækningum þess á ýmsa vegu; tala ýmist um þetta haust sem eina samhangandi veislu ... eða byrja óbeðið á fyrirlestri um HPV-veirur (einsog allar hundrað tegundirnar séu undir einum hatti!), og niðurstöður úr rannsóknum; hve oft þær mælast í “tonsilcancer” -þ.e. í krabbameini í hálskirtlum - og lækningalíkur út frá því. Víst lítið áhugavert nema fyrir þá tiltölulega fáu sem eru að bauka við akkúrat þann krabba. En það er þó einkum papillomavirusinn hpv16 sem er til umræðu, þekktur fyrir að valda krabbameini í leghálsi og í fréttum undanfarið hefur verið hið nýtilkomna bóluefni gegn þeim vírusi og hvernig beri að nota það. Kannski gáfulegra að benda á rabb við sérfræðinginn Claes Mercke fyrir þá sem eru forvitnir um "tonsilcancer".

Og birta bút úr vinkonubréfi sem ég sendi í loftið ... með smá innskotsleikritileikriti:

... um krabbameinið mitt sem ”liggur við að ég "sakni", en er samt ofboðslega fegin að vera jafn laus við og hugsast og mælst getur og sjá má að svo búnu! Enn fegnari hvað mér er farið að líða vel. Þótt ég sé ekki beinlínis komin með söngrödd þá fannst lækninum mínum dr. Nymann (sem ég var hjá núna á þriðjudaginn) það bara eðlilegt útaf meðferðinni, því fyrst þarf bólgan innan og utan á hálsinum að renna burt ... svo nú er ég ákveðin í að dansa bara því betur! Sneiðmynd sem var tekin um miðjan september sýndi ekki annað en að æxli og allir þess angar væru á bak og burt!!! Snemma í september losaði ég mig loks við sonduna og byrjaði að borða eins og manneskja, eftir meira en fjóra mánuði á apótekarvelling gegnum nefið! Þetta þýðir að ekki sést að neitt hafi verið að mér, nema vel sé að gáð, þá birtist kalkúnhálsinn eða undirhakan, hárlaus blettur bak við eyrað og þeim sem þekktu mig bústna finnst ég óþarflega beinaber, en sjálf er ég mjög ánægð með að loksins nálgast Tviggystílinn.


Doktor Nymann hlóg soldið að mér í nýju þröngu gallabuxunum mínum ... en doktor Fagrafjall sem ég var hjá daginn áður fullyrti að ég væri bara beinahrúga! Hún brást spontant við nánast um leið og ég birtist og spurði hve mikið ég hefði eiginlega lést. Þá var það ég sem hló og sagði að nú væri ég loksins komin í draumaþyngdina, svona tólf kílóum léttari en þegar meðferðin byrjaði.


- ég er svo ánægð og ekki er ég mjóslegnari en þú hahahah!!! þú ert fyrirmyndin mín jag tycker du är en bra förebild för mig...
- heyrðu mig nú, þetta þurfum við að ræða sagði tann- og kjálkadoktorinn minn. Þú ert mjórri en ég; hur mycket väger du?
- Ok ég skal játa að ég er með soldið brenglaða og lotugræðgislega sveltusýkissýn, finnst ég alltaf of feit sama hvað viktin segir, jafn mikið offeit hvort sem ég fer 10 kíló upp eða niður!
- Ég er líka með anoretíska sýn á sjálfa mig, - maðurinn minn er sá sem bregst við og minnir mig á - en ég er raunsæ á aðra! Hvað ertu þung?
- Ég er byrjuð að fitna smá, orðin 55 kíló. Má ekki fitna meir.
- Þú ert of létt. Sýningarstúlkur fá ekki að vera svona léttar. Ekki lengur. Þú er örugglega með minna BMI en ég ... hvar er nú spjaldið ...
- Heyrðu, þú ert 1.75 m á hæð og látum okkur sjá þá áttu að vera yfir 60 kg til að vera með lágmarks BMI, 20 - 25 er normalt. Hún var komin með eitthvurt litaspjald og upplýsti mig um að mitt BMI væri nálægt átján, en hennar eigið yfir tuttugu, sem sagt væri ég með ranghugmyndir.
-

Hvað er það þá sem ég sakna? Hm. Spúkí þetta hvernig sjúkdómur verður hluti af sjálfsmynd. Ég hef fengið athygli, heilmikla og líklega lífsnauðsynlega. Nýja tóna í vinasambönd, nýtt fólk sem skipti sér af mér; og nýja tegund af athygli líka útaf að ég dreif mig í dansinn meðal fólks, þrátt fyrir sondu og mismikið þrek ... þá spurði fólk. Hvað er að hvað hefur gerst og hvernig hefurðu það ...
Nú spyr ekki endilega neinn! ég tók eftir því í vikunni sem leið bæði á milongunni og í matarboði.
Ég tók líka eftir hvað ég var ánægð á mánudaginn var í heimsókninni hjá doktor Fagrafjalli, sem var svo umhugað að ég passaði inn í skalann yfir hið normala. Og að henni stóð ekki á sama hvað ég var stirð og aum í kjálkunum og gat lítið gapað; hún fór strax að kenna mér kjálkaleikfimi - alveg rétt, ég á að gera æfingarnar nokkrum sinnum á dag! – og skrifaði tilvísun til annars sérfræðings við tannlæknaháskólann.

Er að spá í hvort ég fengi athygli ef ég gæfi út ljóðakver fyrir jólin. Og er að minna mig á að ljóð eru alls ekki leið til að vekja athygli og jafnframt að ljóð geta verið örfandi, uppbyggjandi, heilsubætandi og kúl, líka fyrir aðra.

Á pantað far til Íslands 22. nóvember. Þannig er það. Ef ég leggst ekki í útgáfu, held ég bara áfram að skrifa um veðrið!



*

Thursday, October 05, 2006

Eikarlundur á eikargólfi

haha Posted by Picasa Það var óvenju gaman á praktíkunni í Fräntorp í gær. Til húsa í gömlu sætu alþýðuhúsi rétt við borgarmörkin milli Partille og Gautaborgar. Einn Carlosinn óvænt í heimsókn á svæðinu og hamingjan sanna svífur um gólfið ... meira þarf ekki til. Nema englana úr bænum að sjálfsögðu. Á myndinni dansa ég við einn hinna yngstu. Ég ætlaði að búa til auglýsingu á myndavélina mína fyrir praktíkuna - sem er á hverju miðvikudagskvöldi á bæjarins besta eikargólfi - en myndefnin mín svifu of hratt hjá, flest nema sjálft gólfið, svo ég fól einum ráðagóðum apparatið mitt: Sá heitir Jói Fljóti (Johan Hurtig) og árangurinn eftir því. Jóinn sem ég dansa við ber hins vegar eftirnafnið Eikarlundur.