azul

My Photo
Name:
Location: Göteborg, Sweden

Thursday, January 01, 2009


Gleðilegt ár 2009 óska ég þér sem lítur hér við ...

Hef engan annál tilbúinn, nýjársdagur nærri liðinn og ég rétt bara náði að gá til veðurs áður en myrkrið skall á og tunglið byrjaði að skælbrosa fallega staðsett á kvöldhimninum.

Minnst hundrað hápunkta frá árinu sem leið gæti pottþétt fundið, svo skemmtilega viðburðaríkt var árið 2008 svona prívat og persónulega. Árið sem byrjaði á nýjársmilongu á Frederiksberg í Kaupmannahöfn, eftir heimsókn hjá Lárusi bróður og Særúnu í árslok og síðan sumarhúsaferð til Rösnæs, með Marianne Larsen og Allan í janúarkulda og snjó. Sváfum þar meðan eldurinn dó út ...

Margt hef ég þegar bloggað um á þessum síðum, þótt ég hafi ekki skráð hvert tangóball. Mér telst ég hafi tekið þátt í a.m.k. fimm tangóhátíðum og tveim maraþonhelgum á árinu, í Svíþjóð, Danmörku og Íslandi, m.a. hið fyrsta og sögulega maraþon í Iðnó, á vetrarhátíð í Reykjavík eftir mikið fárviðri og tilheyrandi sólarhringsbið á Kastrup.
Tveggja hefðbundnu ekki-tangó-hátíða sem Gautaborgin býður uppá, naut ég í botn: 10 daga kvikmyndahátíðar í janúarlok sem ég skrifaði um fyrir Mbl. og Dans-og leiklistarhátíðinnar seint í ágúst, sem er aðeins haldin annað hvert ár. Þegar að bókastefnunni kom var ég hinsvegar með hugann við annað, orðin skólabarn og skoppaði með bakpoka í septembersólinni upp tröppurnar frá Korsvägen upp í Humanisten og Språkskraparen svonefnda - Málkljúfinn - , 3 - 4 morgna í viku, alltaf með spænsku orðabókina í skólatöskunni. Hún er svo þung að ég ætla að taka mér smá hlé í því námi ...

Að koma til Madrid í fyrsta sinn, í mars síðastliðnum, og búa við Sólskinshliðið Puerta del Sol var ævintýri í sérflokki. Tangóhátíðin í Málmey brást ekki - um hana hef ég bloggað - og á tangóhátíðinni í Kaupmannahöfn náði ég í skottið á efni sem ég er raun enn að vinna úr fyrir Danstidningen í Stokhólmi; framhaldsviðtal við Pablo Inza, sem er ógn vinsæll kennari núna og kennir mest með Eugeniu Parilla um þessar mundir! Í Buenos Aires kom hann á laggirnar festival Cambalache 2004, sem var haldin í fimmta sinn núna í desember, þar sem sýnd voru í allt 24 tangótengd-listdans og dansleikhúsverk, þ.a.m. hans eigin verk LIVING. Líklega eina hátíðin sinnar tegundar í heiminum.

Í apríl hef ég líklega verið talsvert heima hjá mér : ) og í endurhæfingu hjá raddþjálfara á Shalgrenska allan þann mánuð.

Margir sólskinsdagar og grillveilskur, í Kaupmannahöfn í maí, og síðan á rithöfnundanámskeiði á Biskups Arnö, í mánuði sem endaði á stórafmælisdeginum mínum þann 29. þegar ég var svo lánsöm að fá að dansa afmælisvalsinn við alla sem vildu á Oceanen. Tvær helgar í röð hélt ég svo upp á afmælið mitt inni og úti með minisamkomum í sólskinsveðri, þegar ég fékk heimsóknir frá Kaupmannahöfn og Stockhólmi.

Tangocamp var enn eitt ævintýrið, ég naut þess að búa á farfuglaheimili, þar sem tangófólkið lagði undir sig rúmlega eitt heilt hús ... rölta á milli, rölta í hlýjunni á ströndinni og dansa. Klæðast fjólubláu og vera tant Grädelin, ein af þrem systrunum í sögu eftir Elsa Beskow, og dansa við systurnar tant Grön og tant Brun, með hundinn Prick á Miðsumarnæturballinu var þægilega skemmtilegt. Sjá ljóðræna myndaseríu Mikaels frá Tangocamp HÉR (sjá undir "nye")

Svo var það Ísland. Dansdagar með Stellu systur í bænum; dvölin í Listamannahúsinu í Hveragerði, með göngutúrum og heimsóknum - já og heimsins hlægilegustu kráarferð með Elísabetu þegar við lentum óvart í einkaþotuboði og horfðum á einkaþotubíó með kaffinu á Kaffi Kidda Rót ... Ég meikaði fyrsta opinbera upplesturinn minn eftir geislameðferðina, sem lauk fyrir tveimur og hálfu ári og virðist í dag einsog fjarlæg reynsla. Skólasystrahittingur, frænkufundir og systrafundir, norðurferð með Boggu systur og dagur með Lóló systur í nærri 30 stiga hita.

Mér finnst hafa verið stöðugt sólskin frá mars til október ca! Þannig eru stundirnar sem ég man. A.m.k. fram í að fréttirnar af bankaóláninu heima reyndust óumflýjanleg alvara og komu auk þess Íslandi í heimsfréttirnar um hríð; dapurlegar Íslandssögur blöstu við hvort sem maður opnaði Gautaborgar-Metro, eða El País.
Og þegar verið var að rífa "skakka húsið" við hliðina á húsinu sem ég bý í, þá var engin sól. Nú er verið að byggja 5 hæða hús við húsgaflinn minn með tilheyrandi drunum og höggum sem munu víst endast næstu tvö árin.
*

Tango 59 gráður, í Stokhólmi tók við mér fljótlega eftir að ég kom frá Íslandi í byrjun ágúst og reyndist hin ljúfasta. Tók tvo extra daga í höfuðborginni og náði að vera með Stínu og hitta Birgittu Holm. Síðan heimsókn á Tangóhátíðina í Reykjavík í ágústlok ... og til Elísabetar og Guðrúnar við sjóinn. Lenti á svipuðum tíma og Silfurdrengirnir sem komu heim frá Japan. Hmm ég sé að ég hef verið soldið á ferðalagi það ár ... þar til ég byrjaði í skólanum ætlaði ég að segja, en ég var raunar á flakki í upplestrarferð um Vestur-Svíþjóð í nóvember sælla minninga. Og það með sænskum stórskáldum.

Það hlýtur að vera þess vegna sem mér er boðið til Kambódíu í júní næstkomandi, ásamt nokkrum norrænum stórskáldum : )

Svo nú er bara að vanda sig við nýbyrjaða árið, passa að styggja það ekki!